25.02.1971
Efri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

14. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil hefja þetta mál mitt með því að þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu þessa máls og þær brtt., sem hún leggur til, að verði samþ. við frv., sem mér sýnist, að séu allar til bóta við fljóta yfirsýn og gefi til kynna, að hún hafi fjallað um svo vandasamt frv. sem hér er um að ræða mjög gaumgæfilega, þannig að þær breytingar, sem n. leggur einróma til, megi verða til bóta við framkvæmd þessara viðkvæmu laga. Sannleikurinn er einnig sá, að reynsla mín þau 51/2 ár, sem ég hef verið í þessum störfum, er sú, að aðaldeilurnar um þessi mál hafa raunar ekki snúizt um sjálf lagaákvæðin, heldur langtum fremur framkvæmdaatriði, sem stjórnin hefur ýmist sett sér reglur um eða settar hafa verið um sérstakar reglugerðir, sem hljóta að breytast í samræmi við samþykkt þessa frv., ef það nær fram að ganga, sem ég vona.

En ég vil á þessu stigi málsins, áður en ég ræði efnislega um aðrar brtt., skýra frá því, að í yfirstandandi deilum í sjávarútveginum, bæði undir- og yfirmanna á bátaflotanum og svo aftur togaraflotanum, hefur ríkisstj. þegar gefið skrifleg fyrirheit um að beita sér fyrir ákveðnum breytingum á gildandi lögum, er þennan útveg varða, og ég sé enga ástæðu til þess að leyna þingið eða hv. þd. því, í hverju þessar breytingar felast, að sjálfsögðu allt með þeim fyrirvara, að það sé þáttur í lausn yfirstandandi deilna og byggt á því, að báðir samningsaðilar hafa óskað eftir þessum breytingum. Tilmælum einstakra deiluaðila, sem stangazt hafa nokkuð á, svo sem eðlilegt er, hefur ríkisstj. ekki talið sér fært að sinna, því að hún væri þar með orðin þátttakandi í deilunni með öðrum aðilanum gegn hinum. En þeim óskum, sem fram hafa komið sameiginlega, hefur ríkisstj. lofað að verða við, m. a. að beita sér fyrir breytingum á greiðslu fæðispeninga til bátasjómanna, sem ákveðnir voru á síðasta Alþ. í fyrsta sinn. Hún hefur lofað samningsaðilum því skriflega, að nokkur hækkun verði á þeim. Hún hefur einnig heitið samningsaðilum því skriflega að beita sér fyrir 6% lækkun á þeim 22%, sem tekin eru af löndunum erlendis og ákveðin voru með l. frá 1968, en slakað var á um s. l. áramót og þýðir þetta þá enn frekari tilslökun. Þetta hefur allt verið gert vegna þess, að báðir aðilar, eins og ég sagði áðan, hafa eftir þessu leitað.

Enn fremur er það viðurkennt í ríkisstj., þó að skriflega hafi ekki verið um það samið enn, að óréttlátt sé að taka af togaraflotanum í þennan fæðispeningasjóð, sem eingöngu rennur til bátaflotans, þar sem nokkrum árum áður en fæðispeningar, daggreiðslan kom til greina á bátaflotanum, hafði verið samið um frítt fæði um borð í togurum. Í þetta hefur verið látið skína munnlega við samningsaðila, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir breytingum á þessu eða endurgreiðslu til togaraflotans. Öll hafa þessi fyrirheit verið bundin því skilyrði, að þau væru þáttur í lausn deilunnar. Þrátt fyrir þessi fyrirheit hefur því miður ekki tekizt að leysa allar þessar deilur, þó að góðar líkur séu taldar á því, að deilurnar á bátaflotanum séu til endanlegrar lausnar nú á allra næstu dögum.

Um deiluna á togaraflotanum er erfiðara að spá. Það mál er flóknara en svo, að um það sé heppilegt að ræða undir þessum dagskrárlið.

En því minnist ég á þessi atriði hér, að fæðisdagpeningagreiðslurnar gætu fléttazt inn í þetta frv., þannig að ég vil á þessu stigi málsins mælast til þess við hæstv. forseta hv. þd., að hann fresti endanlegri afgreiðslu málsins enn um nokkra hríð, þar til séð verður, hvort umrædd fyrirheit ríkisstjórnarinnar kunni að hafa nokkur áhrif á lausn þessara deilna.

Varðandi þá brtt. til hækkunar á framlagi ríkissjóðs, sem birtist á þskj. 391, vil ég aðeins segja þetta: Allir þessir sjóðir, sem myndaðir eru með svipuðum hætti og aflatryggingasjóður og fjármagnaðir eru t. d. með útflutningsgjaldi eða öðru slíku, verða að gera spár fram í tímann, og er nokkuð óvíst frá ári til árs um afkomu þessara sjóða og hvers þeir reynast megnugir. Ég tel, að það sé óþarft að flytja slíka brtt. eins og á þessu þskj. kemur fram, með hliðsjón af ákvörðun sjóðsins á s. l. ári. En ég tek undir það með hv. frsm. meiri hl. n., að ekki skal standa á mér — eigi ég hér þá sæti á hv. Alþ. — að stuðla að leiðréttingu á því, ef umrætt ríkisframlag, eins og gert er ráð fyrir því í frv., dugar ekki. Það hefur ávallt verið svo, að um framtíð þessara sjóða, sem eru jafnmiklir happdrættissjóðir og þessir sjóðir hljóta ávallt að vera, og yfirleitt allt í kringum okkar aflabrögð, — bæði aflamagn verðmæti þess á erlendum vettvangi og jafnvel veðurfar hefur áhrif á afkomu þessara sjóða — um framtíð þessara sjóða verður að spá, og það er talið, með hliðsjón af s. l. ári, að með samþykkt þessa frv. gæti sjóðurinn staðið undir þeim skyldum, sem honum eru ætlaðar. Þess vegna álít ég brtt. óþarfa, auk þess sem þegar hefur verið ákveðin í fjárlögum, sem afgreidd eru frá Alþingi, sú upphæð, sem gert er ráð fyrir til framkvæmda þessara laga. Og það er ekki fyrr en á næstu fjárl., sem hægt yrði að breyta framlögum ríkissjóðs, því að Alþ. hefur þegar sagt sitt álit á því, hvert það skuli vera og brtt. er þess vegna að þessu leyti of seint fram komin miðað við samþykkt þessa frv. Sýni það sig hins vegar við samningu næstu fjárlaga á síðari hluta þessa árs, að þær spár, sem um sjóðinn hafa verið gerðar og eru eitt af grundvallaratriðum þessa frv., standist ekki, þá ber Alþ. að leiðrétta það eftir á eins og það hefur orðið að gera á undanförnum árum.

Ég endurtek svo að lokum þakkir mínar til n. fyrir það starf, sem hún hefur lagt í skoðun þessa frv., og tel, að þær brtt., sem hún leggur til á þskj. 385, séu allar til bóta, en vil jafnframt óska eftir því, að frv. verði, þrátt fyrir alllanga veru hér í hv. þd., frestað nú um nokkurt skeið, ef breytingar á einhverjum atriðum í þessu frv. gætu orðið til þess að stuðla að lausn þeirra deilna, sem yfir standa í íslenzkum sjávarútvegi í dag.