08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

14. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið afgreitt frá hv. Ed. eftir alllanga veru þar, enda leitaði n. álits margra aðila, ég hygg flestra þeirra, sem máli skipta, og gerði á því nokkrar breyt., sem samþykktar voru við meðferð málsins í þeirri hv. þd. og ég tel persónulega, að flestar séu til bóta og varða sérstaklega framkvæmdahlið málsins. Það má segja, að um þessi lög hafi á undanförnum árum ekki verið sérstaklega miklar deilur. Þær aths. og deilur, sem upp hafa komið, hafa fyrst og fremst verið í sambandi við framkvæmd laganna, og meginefni till. sjútvn. Ed. er það að tryggja eða setja öruggari ramma um framkvæmd þessara laga. Enn fremur eru hér í þessari hv. þd., að ég hygg, a. m. k. tvö þmfrv., sem ég bið hv. n., sem málið fær til meðferðar, að taka til athugunar og kanna, hvort ekki megi ganga til móts við þær óskir, sem þar koma fram um breytingar á lögunum. Það lá ljóst fyrir við 3. umr. málsins í Ed., að af þessum tvennum ástæðum gætu orðið á frv. breytingar hér í hv. þd., og þar var þess vegna ekki tekið inn það nýjasta ákvæði, sem nauðsynlegt er að setja vegna þeirra loforða, sem ríkisstj. gaf í sambandi við lausn togaradeilunnar, um að beita sér fyrir tilteknum breytingum, sem fyrst og fremst snerta fæðispeningadeild þessa sjóðs. En ríkisstj. hét því að gera till. til þingsins um ákveðnar breytingar, og um þær hefur nú hv. sjútvn. verið skrifað og hún beðin um að taka þær inn í sínar brtt. hér í þeirri von, að málið fáist afgreitt á þessu þingi, sem ég tel brýna nauðsyn bera til, og ef allt hefði verið með eðlilegum hætti, þá hefði þurft að ljúka þessu máli fyrir áramót, en héðan af er ekki um það að sakast. En ég mælist til þess við n., að hún athugi í fyrsta lagi það bréf, sem sjútvn. hefur til hennar sent um breytingar á l. til að ganga til móts við þá kjarasamninga, sem gerðir voru við yfirmenn á togaraflotanum, og þær brtt., sem hér liggja frammi í frumvarpsformi.

Upphaf þessa máls er það, að 31. marz 1965 var samþykkt svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 7 manna n. til að endurskoða lög nr. 77 28. apríl 1962, um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, og gera till. um breytingar, eftir því sem henni þykir ástæða til. Formaður skal skipaður án tilnefningar, en aðrir nm. samkv. tilnefningu Fiskifélags Íslands, Alþýðusambands Íslands, Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna og Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, einn frá hverjum aðila. N. skal sérstaklega gera sér far um að kynna sér skoðanir útvegsmanna og sjómanna í einstökum landshlutum varðandi málið og reynslu þeirra af starfsemi hlutatryggingasjóðs og síðar aflatryggingasjóðs.“

Þetta var meginverkefni n. í því 5 ára starfi, sem liggur að baki þessu frv., sem hér um ræðir.

Í II. kafla frv. eru felld inn ákvæði l. nr. 74 frá 28. maí 1969 um greiðslu fæðiskostnaðar bátasjómanna, en þau voru sett í framhaldi af kjarasamningum útvegsmanna og bátasjómanna veturinn 1969 og tildrögin voru þau sömu og nú við þessa kjarasamninga, þ. e. a. s. að samningsaðilar báðir ákváðu að fara þess á leit við ríkisstj., að hún beitti sér fyrir umræddum lagabreytingum. Í sambandi við þessar vinnudeilur eða samningaviðræður kom það oft fram í umr. manna á meðal, að ríkisstj. ætti að gera breytingar á umræddum lögum. En stefna hennar var sú og svör hennar ávallt þau frá því að þessi ósk var fyrst borin fram, að þegar fram kæmu sameiginleg tilmæli frá báðum aðilum, mundi ríkisstj. kanna í samráði við Alþ., hvort þær breytingar næðu fram að ganga.

Ég tel að öðru leyti óþarft að fara mörgum orðum um einstakar gr. frv. Þær eru rækilega skýrðar í aths., sem frv. fylgja, og þurfa ekki sérstakra skýringa við, eru sumpart til orðnar til staðfestingar á ríkjandi ástandi, sem áður hefur verið rætt hér á Alþ.

Ég óska þess að lokum, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.