19.10.1970
Neðri deild: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hér er endurflutt frv. frá síðasta þingi, frv. til l. um olíuhreinsunarstöð á Íslandi. Ég þarf að þessu sinni ekki að hafa mörg orð til að fylgja því úr hlaði og get á vissan hátt vitnað til þeirrar ræðu, sem ég hélt á s. l. þingi, þegar frv. var lagt fram, en það var gert í lok þingsins með það fyrir augum, að menn hefðu aðstöðu til þess að kynna sér það, sem hér væri á döfinni, án þess að þá væri ætlazt til þess eða talið eðlilegt, að frv. næði fram að ganga. Hins vegar held ég, að það sé kominn tími til þess að taka málið alvarlegum tökum og reyna að fá það afgreitt á þessu þingi.

Það að byggja olíuhreinsunarstöð á Íslandi er nokkuð gamalt mál, og sérstaklega má segja, að á síðasta áratug hafi ýmsir hugað að því og ýmsar athuganir farið fram á því, hvort hér væri um hagkvæmt fyrirtæki fyrir Ísland að ræða. Hins vegar hefur þetta ekki orðið raunhæft, að hafizt væri handa um byggingu slíks fyrirtækis, en það eru ein tvö ár síðan iðnrn. tók sér fyrir hendur sérstaklega að taka við, þar sem aðrir höfðu við skilið og framkvæma allýtarlega athugun á hagkvæmni slíkrar stöðvar hér og hvaða gildi hún út af fyrir sig gæti haft og einnig frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það, sem hér er um að ræða, er samkv. frv., að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags, sem væri eins konar undirbúningsfélag að því, að reist yrði olíuhreinsunarstöð á Íslandi. Það er skoðun okkar, sem unnið höfum að þessu í iðnrn., að rn. geti litið meira lagt af mörkum heldur en það hefur gert með athugun og könnun þessa máls. Til þess að fá endanlega úr því skorið, hvort hér væri um hagkvæmt fyrirtæki að ræða eða ekki, bæði sem slíkt og einnig þjóðhagslega, þá þyrfti að koma á laggirnar svona undirbúningsfélagi og einhverju yrði þar til að kosta, en auðvitað mundi það vinnast upp, ef olíuhreinsunarstöð kemst á laggirnar og verður talin hagkvæm.

Mér er alveg ljóst, að sumir hafa haft vissar áhyggjur vegna erlendra viðskipta okkar og þá alveg sérstaklega vegna kaupa okkar á olíum frá Sovétríkjunum. Menn hafa óttazt, að slíkt fyrirtæki sem þetta kynni að trufla eitthvað viðskipti okkar við Sovétríkin, og kannske alvarlega í sambandi við þá miklu og hagkvæmu sölu, sem við höfum haft á frosnum fiski til Sovétríkjanna. En ég vil taka það sérstaklega fram, að það hefur ævinlega verið haft í huga að miða við, að viðskiptin yrðu að sem mestu leyti hvað þessu viðvíkur óbreytt við Sovétríkin. Við tókumst á hendur ferð til Finnlands, aðstoðarmenn mínir og ég sjálfur á s. l. hausti einmitt til þess að kanna reynslu Finna af þeirra olíuhreinsunarstöðvum, sem þá voru orðnar tvær, hvernig þær hefðu þróazt, en langmestur hlutinn af hráolíu þeirra eða jarðolíunni er keyptur frá Sovétríkjunum, ef ég man rétt a. m. k. um 75%, en þó eitthvað frá Mið-Asíu og eitthvað smávegis frá Venezuela. Um tíma var talið, að það þyrfti að byggja þessi fyrirtæki mismunandi eftir því, hvort olían væri keypt að austan eða vestan. Reynsla okkar af þessu ferðalagi, sem ég vitnaði til, var sú, að það væri alls ekki um það að ræða, og reynsla Finna af viðskiptum við Sovétríkin, kaupum á hráolíu, hefur verið góð, að ég hygg. Finnar byrjuðu á því að byggja litla stöð 1955 eða þar um bil, fyrir u. þ. b. 700–800 þús. tonna ársframleiðslu. Sú stöð hefur verið stækkuð og framleiðir nú um 3 millj. tonna árlega, og svo er byggð önnur stöð, sem er núna með sennilega eitthvað um 6 millj. tonna ársframleiðslu, þannig að þeir hafa smám saman orðið sjálfum sér nógir um hreinsun olíu fyrir sig og þessi olíufyrirtæki þeirra eða olíuhreinsunarstöðvar eru með stærstu og hagkvæmustu fyrirtækjum, sem nú eru rekin í Finnlandi.

Við höfum gert ráð fyrir því hér að byrja á að byggja olíuhreinsunarstöð, ekki í svo stórum stíl, heldur aðeins miðaða við innlendan markað, ef ekki væri um annað að ræða, stöð með 500–600–700 þús. tonna framleiðslu, en auðvitað getur á því orðið breyting undir meðferð málsins hjá undirbúningsfélagi, ef það kæmist á laggirnar, m. a. vegna þess, að það er hugsanlegt og það hefur stundum verið í hugum manna, að við gætum haft samvinnu við einhvern erlendan aðila, sem gæti lagt með sér einhvern olíumarkað, sem þýddi það, að hér væri hægt að byggja miklu stærri stöð. Og það er rétt, að almennt eru stöðvarnar hagkvæmari eftir því sem þær eru stærri.

En þegar ég sagði áðan, að ég teldi, að við kæmumst lítið lengra af hálfu rn. í þessu máli, átti ég við það, að það sé búið að safna það miklu efni á margvíslegan hátt um byggingu slíkrar olíuhreinsunarstöðvar, að það verði að vera til lögfræðilegur aðili, svona undirbúningsfélag eins og ég hef talað um, til þess að ganga endanlega úr skugga um hagkvæmni á rekstri slíkrar stöðvar út af fyrir sig og áhrif hennar í sambandi við erlend viðskipti okkar að öðru leyti.

Það er gerð grein fyrir því í fskj. þessa frv. og grg., að hér geti verið um allverulega hagkvæmni fyrir okkur að ræða, bæði frá gjaldeyrislegu sjónarmiði séð og einnig þegar litið er á vinnuaflið, sem til slíkrar stöðvar þarf. Þó að það sé ekki mikið, þá er þó á það að líta, að viðhaldið er töluvert í slíkum stöðvum og við sáum það greinilega, þegar við vorum á okkar ferð í Finnlandi á sínum tíma, að þetta er allverulegur mannafli, sem þarf á að halda, við slík fyrirtæki, þegar þau eru komin upp, og verulegan mannafla þarf til þess meðan á byggingartímanum stendur. Um þetta skal ég ekki fara neitt ítarlegri orðum hér. Við höfum reynt að leggja fram grg. um markaðinn hér á landi. Frv. er óbreytt frá síðasta þingi, en hins vegar hafa verið leiðréttar misfellur, sem á því voru, tölulegar misfellur í fskj., eins og vikið er að í aths. við frv. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð nú, en ég vil alvarlega biðja þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að íhuga það að vinna að því af oddi og egg nú strax á fyrri hluta þingsins að gera sér grein fyrir, hvort við séum ekki hér á réttri leið með því að mynda slíkt undirbúningsfélag. Það má segja, að það sé ekki hundrað í hættunni, því að ef slíkt undirbúningsfélag, sem hefur betri aðstöðu heldur en rn. með litlum mannafla hefur til þess að gera sér endanlega grein fyrir hagkvæmni fyrirtækisins út af fyrir sig og frá þjóðhagslegu sjónarmiði, ef það kæmist að þeirri niðurstöðu, að þetta mætti eitthvað bíða, þá er hægt að doka við með slíka framkvæmd eins og þessa. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar, að það muni mjög skammt í land, enda þótt einhver bið kynni að verða á því, að við gætum reist slíka olíuhreinsunarstöð og haft af henni bæði hag og gagn.

Málið tel ég rétt að fari til hv. iðnn. þessarar d. og vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. iðnn.