10.03.1971
Neðri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Frsm. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið samferða meðnm. mínum í iðnn. um afgreiðslu þessa máls. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. tók fram, stend ég að flutningi þeirra brtt., sem n. flytur á þskj. 446. Þar er um að ræða að mínum dómi verulega bót á frv. frá því, er það var lagt fram. Með frv. þessu er gert ráð fyrir, að stofnað verði hlutafélag, er hafi það verkefni með höndum að kanna aðstæður til að reisa og reka olíuhreinsunarstöð hér á landi og stuðla að því, að slíku fyrirtæki verði komið á fót, eins og í frv. segir. Gert er ráð fyrir því, að í slíku hlutafélagi gætu einnig orðið útlendir aðilar. Ég er ekki andvígur því, að stofnað verði hlutafélag í þessum tilgangi, þó að ég hins vegar sjái nú ekki brýna nauðsyn til þess og ríkisstj. hefði áfram getað haft þessi mál með höndum. Það virðist ekki, af þeim upplýsingum, sem liggja fyrir, og engan veginn af þeim sérfræðilegu viðræðum, sem n. átti við áðurnefnda aðila, að þetta mál sé á því stigi, að til verulegra framkvæmda gæti komið í náinni framtíð. En sem sagt, ég get fallizt á það, að slíkt hlutafélag, sem hér um ræðir, verði stofnað, en þó því aðeins, að það verði með innlendum aðilum. Ég sé enga ástæðu til, að á þessu stigi málsins sé farið að leita til útlendra hagsmunaaðila til stofnunar þessa hlutafélags. Slíkt innlent hlutafélag eða sá aðili, sem hefði þessa athugun með höndum — það hefði ríkisstj. að sjálfsögðu einnig getað gert — getur að sjálfsögðu kallað til sérfræðinga, hvort sem þeir væru innlendir eða útlendir, ef ástæða þætti til. Ég flyt á þskj. 470 brtt. við 2. gr. frv., sem sker úr um það, að hlutafélag það, sem hér um ræðir, verði einvörðungu skipað innlendum aðilum. En ég endurtek, að að öðru leyti stend ég að þeim till., sem iðnn. flytur í heild.