15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Frsm. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Við 2. umr. flutti ég brtt. við frv. um olíuhreinsunarstöð. Efni hennar var, að til samvinnu um stofnun félags eins og 1. gr. kveður á um, skyldu til kvaddir þeir innlendir aðilar, sem áhuga hefðu á málinu, en niður félli „eða erlendra“, eins og í frv. er. Atkvgr. var þannig hagað, að þessi brtt. kom ekki til atkv. við 2. umr. Ég skal út af fyrir sig ekki deila á þá málsmeðferð, en ég vil nú hér við 3. umr. málsins flytja brtt., sem er að vísu skrifleg. Brtt. er við 2. gr. frv. og er á þá leið, að upphaf greinarinnar orðist svo:

„Til samvinnu um stofnun eða starfrækslu hlutafélags samkv. 1. gr. skal ríkisstj. heimilt að kveðja hvers konar innlenda aðila, sem áhuga hafa á málinu.“

2. gr. og frv. að öðru leyti er óbreytt. Eins og ég tók fram við 2. umr., get ég fallizt á, að stofnað verði slíkt hlutafélag sem um ræðir í 1. gr. frv. og hafa skal að markmiði að kanna aðstæður til að reisa og reka olíuhreinsunarstöð hér á landi og stuðla að því, að slíku fyrirtæki verði komið á fót, en var hins vegar og er andvígur því, að leitað verði til erlendra hagsmunaaðila við stofnun slíks hlutafélags. Tel hins vegar augljóst mál og eðlilegt, að slíkt félag geti leitað til erlendra sérfræðinga sem og innlendra, ef þurfa þykir. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég sagði hér við 2. umr. málsins, en vil óska eftir, herra forseti, að leitað verði afbrigða til þess, að þessi brtt., sem er flutt skriflega, fái að koma til atkvgr.