17.03.1971
Efri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi í þinglokin, svo að menn eru nú kunnugir efni þess. Það var lítillega endurskoðað á milli þinga að því er grg. viðvíkur. Síðan hefur það legið fyrir Nd. frá því í þingbyrjun og nú nýverið verið afgreitt þaðan. Frv. var afgreitt þar með samkomulagi um brtt., sem fluttar voru af iðnn. og allir stóðu að, og þær fela í sér þá breytingu á frv., að það skuli ekki minna en 51% af hlutafé þess félags, sem hér er um að ræða, að jafnaði vera í eigu ríkisstj. Síðan varð samkomulag um nýtt ákvæði, að ráðh. skipi n. þriggja sérfróðra manna, tilnefndra af framkvæmdanefnd rannsóknarráðsins, til að afla upplýsinga um mengunarhættu, sem stafa kann af olíuhreinsunarstöðinni, og n. skili áliti um þetta efni, áður en tekin verður ákvörðun um byggingu stöðvarinnar, þannig að það liggi fyrir. Um þessar breytingar var full samstaða í Nd.

Ég held nú ekki, að ég þurfi að eyða löngum tíma í að mæla fyrir frv. hér, sem svo lengi hefur verið fyrir sjónum alþm. Þeir geta kynnt sér þá undirbúningsvinnu, sem að þessu hefur verið unnin, en meginefni málsins er það, og það hefur verið mín skoðun, að rn. væri komið það langt í undirbúningi þessa máls, að til þess að hnýta endahnútinn í málinu og fá úr því skorið, hvort rétt sé að byggja hér olíuhreinsunarstöð, þá væri hagkvæmt að setja á stofn undirbúningsfélag, sem við getum kallað svo, eins og hér er gert ráð fyrir, að sett verði á laggirnar til þess að fjalla um málið. Ef af þessu verður, mundi stjórn slíks fyrirtækis, sem ríkisstj. hefði forgöngu um að koma á laggirnar, fá í hendurnar öll þau gögn, sem fyrir liggja í iðnrn. um olíuhreinsunarstöð hér á landi. Ég tel einnig mjög líklegt, að þegar Alþ. samþykkir frv. sem þetta, þá kunni að koma meiri hreyfing á málið, og kannske koma þá fleiri sjónarmið upp heldur en enn hafa komið, en það eru margvíslegir valkostir, sem hér er um að ræða í sambandi við olíuhreinsunarstöðina. Um þá er vandlega fjallað í grg., og skal ég því ekki lengja tímann með því að fara verulega út í að ræða þá.

Breytingunni í Nd. var ég samþykkur, að skipuð yrði þessi nefnd til þess að rannsaka mengunarhættuna af olíuhreinsunarstöð. Það hefur verið gagnrýnt, að lítið hafi verið fjallað um það í grg. Um það hefur sérfræðingur, Ágúst Valfells efnaverkfræðingur, skrifað skilmerkilega grein ekki alls fyrir löngu í Morgunblaðið og að öðru leyti gæti hann látið í té frekari upplýsingar, ef óskað væri eftir. En í stórum dráttum er það skoðun okkar, sem að þessum málum unnum — og sú skoðun byggist m. a. á því, sem við urðum áskynja, þegar við skoðuðum nýtízku olíuhreinsunarstöðvar í Finnlandi, sem eru með allt öðrum hætti að þessu leyti en gamlar olíuhreinsunarstöðvar — að mengunarhætta sé sáralítil af slíkum olíuhreinsunarstöðvum. Um þetta þurfum við að vísu ekki að fara mörgum orðum hér, vegna þess að gert er ráð fyrir, að það mál sé kannað einnig til hlítar, áður en ákvarðanir eru teknar um það að setja upp olíuhreinsunarstöð. Það er alveg augljóst mál, að olíuhreinsunarstöðvar, t. d. í stórborgum eða stöðum, þar sem þeim er hrannað saman mörgum og stórum frá gamalli tíð, eins og vitnað hefur verið til í Brooklyn í Bandaríkjunum, þær eru af þeirri gerð, að þegar margt safnast saman af slíkum stöðvum, þá verður auðvitað frá þeim bæði óþefur og reykur, þó að ekki sé kannske um beina eitrun að ræða. Hér yrði nú ekki nema um eina stöð og sennilega litla að ræða, en hún gæti þó orðið stærri.

Ég hef látið orð falla um það í Nd., að ástæða sé til að ætla, að hinar nýtízkulegu aðferðir, sem menn nú hafa yfir að ráða, tækniaðferðir til að forðast alla mengun frá olíuhreinsunarstöðvum, beri fullan árangur og vitnaði ég í því sambandi til byggingar olíuhreinsunarstöðvar í Bordeauxhéraði, sem er eitt af beztu vínframleiðsluhéruðum Frakklands. Þar er stór stöð, 4.5 millj. tonna framleiðsla á ári. Ég sá fyrir nokkrum dögum í Alþýðublaðinu mjög ógreinilega mynd, sem gæti verið af hvaða stöð sem væri. Ég er ekki að segja, að myndin sé fölsuð, en það er sagt, að þetta sé olíuhreinsunarstöð, sem okkur er bent á til fyrirmyndar. Nú hef ég undir höndum mjög ítarlega grg. frá sendiráði okkar í París um það, í hverju mengunarvarnirnar í þessari olíuhreinsunarstöð eru fólgnar og hversu „effektivar“ þær eru taldar vera. Þar er bæði um að ræða verndun andrúmsloftsins, jarðvegsvernd, úrvinnslu afgangsvatnsins og takmörkun á hávaða. Það er óþarfi fyrir mig að fara að lesa upp skýrslur um þetta, enda eru þær fleiri heldur en ein, en að sjálfsögðu er rétt, að n. fái þær til athugunar. Það, sem veldur óþefnum við þessar stöðvar, er að gas og annað safnast í geymana, þegar þeir tæmast og svo þegar geymarnir eru fylltir aftur eftir gamla laginu, þá streyma út þessi menguðu loftefni, en til að forða þessu eru nýtízkugeymar byggðir með fljótandi þaki, sem þýðir það, að ekkert loft safnast fyrir, heldur lyftir olían bara geymisþakinu upp jafnt og þétt, þar til það er komið á sinn stað.

Ég er að sjálfsögðu enginn sérfræðingur á þessu sviði, en vildi aðeins nefna þetta. Það var ekki út í bláinn, sem ég sagði þetta í Nd., og ég mun að sjálfsögðu láta n., sem fær málið til meðferðar, í té þær upplýsingar, sem ég hef um þetta, og þá alveg sérstaklega um þessa stóru stöð í Frakklandi, sem er, eins og ég sagði, sett niður þarna í mjög gróðursælu héraði, en hins vegar hefur verið talið, að tekizt hafi að koma í veg fyrir þá mengun, sem stafar t. d. af óþef og reyk eða öðru slíku. Þetta er dálítið svipað og við urðum varir við, utanrrh. og ég, þegar við vorum í heimsókn í Luxembourg og skoðuðum þar mikil stáliðjuver, sem eru þar á stóru svæði. Þar voru gamlar verksmiðjur og gömul framleiðsla með geysimiklum reyk og ryki. Það var auðvitað greinilegt, að þetta hlaut að valda miklum óþægindum fyrir íbúana í kring. Aftur á móti voru nýjar verksmiðjur, sem enginn reykur var frá, af því að þá hafa verið fundnar með nýrri tækni aðferðir til þess að eyða gersamlega þessum reyk. Það eru dýr tæki, og þeir tjáðu okkur þar, að yfirleitt væru menn inni á þeirri stefnu að leggja fremur niður gömlu verksmiðjurnar og byggja nýjar en að reyna að hreinsa þær, ef svo mætti segja, eða gera þær óskaðlegar með hreinsitækjum, því að það væri bæði kostnaðarsamt og heldur ekki eins öruggt eins og að beita þeirri nýju tækni, sem fyrir hendi er. Ég held, að á þessu sviði eins og. á öllum öðrum sviðum hafi verið lögð á það mjög mikil áherzla á undanförnum árum í iðnþróuðu löndunum og með geysilega miklum árangri — að samræma nýtízku iðnvæðingu sanngjörnum kröfum almennings um að forða sér frá skaðlegum áhrifum mengunar, í hverri mynd sem hún birtist, og einnig eins og oft er talað um í sambandi við slík mál, að hafa fulla gát á því, sem kallað hefur verið náttúruvernd eða umhverfisvandamál í sambandi við slíkar verksmiðjur.

Ég ætla nú ekki að orðlengja um þetta meira, tel það óþarft að sinni. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.