13.11.1970
Neðri deild: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

101. mál, atvinnuöryggi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er aðeins til að svara hæversklegri og eðlilegri spurningu frá hv. 9. landsk. þm., sem ég kem hér í ræðustól núna. Hann spurði um það, hvort ég og hv. 2. landsk. — fyrir hann svara ég ekki, — vildum taka þá ábyrgð á okkur að standa í vegi fyrir framgangi þessa frv., þó að það kynni svo að leiða til þess, að ekki varðveittist fullur kaupmáttur launa? Ég get lýst yfir því fyrir mína hönd, að ég vil stuðla að lagasetningu, sem miðast við raunhæfar aðgerðir til verðstöðvunar og varðveiti kaupmátt launa. En ég álít, að þessum markmiðum megi ná án þess að ráðizt sé á hinn frjálsa samningarétt, og ég tel það svo viðurhlutamikið fordæmi, að frv., sem fer út á þær brautir, get ég með engu móti samþ. Það er breyting, þar sem horfið er að því að ráðast á samningaréttinn, skerða hina gerðu samninga verkalýðshreyfingarinnar og beita lögþvingun gegn þeim. Það er það, sem ég beiti mér gegn í sambandi við þetta frv., og þar höfum við ekkert verið að gera úlfalda úr mýflugunni. Við höfum gert nákvæma grein fyrir því, í hverju þessi árás á samningaréttinn felst. En sé farið inn á raunhæfar brautir um stöðvun verðbólgu með það höfuðmarkmið að varðveita kaupmátt launanna, þá liggja leiðir okkar saman.