18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

173. mál, lyfsölulög

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á lyfsölul., er komið frá hv. Ed., og var vísað til heilbr.- og félmn. þessarar d. N. hefur haft frv. til athugunar, og breyting sú, sem hér um ræðir, felst í því, að fram að þessu hefur eftirliti með lyfjum verið háttað þannig, eins og fram kemur í grg. frv., að eftirlit með lyfjabúðum hefur annazt dósentinn í lyfjafræði við háskólann samkv. háskólalögunum. En í frv. er gert ráð fyrir, að ráðinn verði eftirlitsmaður á vegum tryggingamálarn. og sé hann lyfjafræðingur að mennt. Einnig skal ráðið sérhæft starfsfólk eftir þörfum til að annast þetta eftirlit, sem áður hefur verið hjá dósentum háskólans í lyfjafræði. N. telur eftir atvikum, að málum sé þannig háttað, að þessi breyting, sem þarna um ræðir, sé eðlileg og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.