29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

73. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á síðasta Alþ. og var vísað til hv. menntmn. þessarar d. N. fjallaði mjög ítarlega um frv., en tókst þó ekki að ljúka meðferð þess sökum mikilla anna á síðustu vikum síðasta þings. Þess vegna er frv. nú endurflutt alveg óbreytt frá því, sem það var flutt í fyrra, en það er eins og nefndin hafði gengið frá því, nefnd, sem í áttu sæti útvarpsstjóri Andrés Björnsson, formaður útvarpsráðs, Benedikt Gröndal, og dr. Þórður Eyjólfsson, fyrrv. hæstaréttardómari. Þar eð ég geri ráð fyrir því eða er raunar fullviss um, að aðalefni málsins er þm. kunnugt frá því að ítarleg framsöguræða var flutt fyrir því í fyrra, þá skal ég nú láta mér nægja að minna á, hver eru helztu atriði frv., hver eru helztu nýmælin, sem í frv. felast.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að Ríkisútvarpið verði sjálfstæðari stofnun í framtíðinni en það hefur verið hingað til. Það var eindregin skoðun nefndarinnar, að svo skyldi vera og ég er því fyrir mitt leyti og ríkisstj. sammála, að að því skuli stefnt.

Ríkisútvarpið gegnir mjög mikilvægu hlutverki í íslenzku menningarlífi og íslenzku þjóðlífi og það er heppilegt og eðlilegt, að slíkar stofnanir séu sem óháðastar, að sem allra minnst hætta sé á afskiptum stjórnmálayfirvalda af stofnunum sem þessari. Íslenzka ríkið hefur samkv. öðrum lögum einkarétt á starfrækslu útvarps og með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessi einkaréttur sé afhentur Ríkisútvarpinu.

Þá er það nýmæli í frv., eina nýmælið, sem ég tel orka nokkurs tvímælis og vil beina sérstaklega til hv. n. að athuga rækilega, en það er ákvæði frv. um breytingar á reglulegum kosningum útvarpsráðs. Hingað til hefur sérhvert nýkjörið Alþ. kosið útvarpsráð og menntmrh. skipað formann þess og hefur þetta verið gert til þess, að jafnan sé tryggt gott samstarf á milli stjórnvalda, sem fara með umboð Alþingis annars vegar og yfirstjórnar útvarpsins hins vegar, vegna þess hve mikið er undir því komið, að gott samstarf sé milli þessara aðila. Þetta hefur verið svo um langt skeið. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því samkv. tillögu nefndarinnar, sem frv. samdi, að útvarpsráð verði kosið til fjögurra ára, þannig að svo getur vel farið, að þeir menn, sem kosnir eru í útvarpsráð að meiri hluta, séu ekki úr sömu flokkum og fara með meirihlutavald á Alþ. og þá sömuleiðis, að formaður útvarpsráðs sé ekki skipaður af þeim menntmrh., sem sitja kann. Sú skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, hefur ýmsa kosti. Hún gerir útvarpið óháðara stjórnvöldum en verið hefur, en því er ekki að leyna, að þeirri skipan fylgir líka nokkur ókostur. Það kann að vera, að það torveldi samstarf útvarpsráðs og ríkisstj. eða menntmrn. og þá sérstaklega samstarf formanns útvarpsráðs og menntmrh., ef þeir eru úr sínum flokknum hvor, þ. e. ef formaðurinn er samkv. gamalli skipan úr flokki, sem er í stjórnarandstöðu. Ég vil ekki gera mikið úr þessu, ekki mikið úr hættunni á því, að slíkt kunni að leiða til nokkurra vandræða En ég vil vekja athygli á því, að þetta er mikilsverð breyting frá því, sem verið hefur, og gæti undir vissum kringumstæðum verið báðum aðilum til nokkurs tjóns, menntmrn. annars vegar og svo Ríkisútvarpinu hins vegar. Ég fyrir mitt leyti get þó vel fellt mig við þá skipan, sem hér er lögð til. Sama gildir um ríkisstj. Annars væri frv. ekki flutt í því formi, sem það er flutt, en ég vil vekja athygli þm. og hv. n. á því, að hér er um mikilsverða breytingu að ræða og réttara að athuga hana vandlega.

Þá er það eitt mikilvægasta nýmæli frv., að gert er ráð fyrir því að leggja 5% afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps í framkvæmdasjóð til þess að tryggja stofnuninni viðunandi húsnæði og tækjakost, en það er öllum, sem til þekkja, kunnugt, að vöxtur útvarps og sjónvarps hefur verið svo geysihraður á allra síðustu árum, að það húsnæði, sem nú er notað, sérstaklega fyrir hljóðvarpið, er orðið ófullnægjandi og nauðsynlegt er innan allt of langs tíma að hefjast handa um allsherjarbyggingu fyrir Ríkisútvarpið í heild, þ. e. bæði hljóðvarp og sjónvarp. Með þessu ákvæði væri stigið mjög mikilvægt spor til þess að leysa til frambúðar úr húsnæðisþörf þessarar mikilvægu stofnunar.

Þá eru í frv. gerðar veigamiklar og jafnvel mjög nauðsynlegar breytingar til hagræðingar á innheimtu afnotagjalda fyrir sjónvarpið, og jafnframt því er Ríkisútvarpið fær lögveð í hverju sjónvarpstæki og innheimtustjóri þess fær fógetavald, þá er felld niður heimild starfsmanna Ríkisútvarpsins til þess að fara inn á heimili manna til eftirlits með útvarpsnotum. Þessi heimild er í gildandi lögum, hefur ekki verið notuð, að mínu viti alveg réttilega, en rétt þykir nú að fella hana niður.

Þá er og í fyrsta skipti í þessu frv. gert ráð fyrir, að sett séu í lög ákvæði um ábyrgð á útvarpsefni, og tel ég þetta í raun og veru vera annað merkasta nýmæli þessa frv. Í gildandi lögum eru engin ákvæði um það, hver beri ábyrgð á efni, sem flutt er í hljóðvarp eða sjónvarp, ef einhver aðili telur á sig hallað með flutningi þess efnis, þannig að hann telji sig t. d. eiga skaðabótaskyldu eða eigi rétt á að fá dæmt fyrir meiðyrði, svo að ég nefni dæmi. Engin regla er til um þetta í gildandi lögum og heldur engar dómsvenjur. En þetta er efni, sem mjög hefur verið rætt í öllum nágrannalöndum, ekki sízt í Svíþjóð núna á undanförnum árum og þegar hafa verið settar um reglur þar; og eru reglur þessa frv. settar með hliðsjón af því, sem vitrustu menn hafa talið skynsamlegt og rétt í nálægum löndum, en efnið er mjög vandmeðfarið. Ég tel brýna nauðsyn bera til þess, að á þessu vandamáli sé tekið og um þetta séu fastar reglur og tel, að þær reglur, sem hér eru settar, séu mjög hófsamar og varlegar og að öllu leyti mjög skynsamlegar.

Þetta eru meginnýmælin í þessu frv. og vildi ég, herra forseti, leyfa mér að lokinni þessari umr. að leggja til, að frv. yrði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. Ég vona, að mér sé óhætt að segja með sanni, að athugunum hv. menntmn. í fyrra hafi verið komið svo langt, að hún ætti að geta lokið störfum sínum tiltölulega fljótlega, þannig að málið komist til Ed. Málið er mjög vandlega undirbúið, en ég teldi mjög æskilegt, að hið háa Alþ. gæti afgreitt það fyrir jól, þannig að þessi nýju lög gætu tekið gildi 1. jan. 1971.