29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

73. mál, útvarpslög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt, að gerðar séu aths. við þau ákvæði í þessu frv., sem fjalla um innheimtu útvarpsgjalda. Þau hafa verið mjög umdeilt mál um langa hríð og hefur verið erfitt að framkvæma þau svo að öllum líki. Þessi gjöld hafa ekki verið há hér á landi miðað við önnur lönd og ég hygg, að það sé fyrst og fremst framkvæmdin á þessu, sem hefur valdið deilum.

Það er allmikið undan því kvartað, að það skuli vera sérstakt hljóðvarpsafnotagjald fyrir bíla og get ég vel fallizt á þær röksemdir, sem venjulega eru færðar fram, eins og við heyrðum nú hjá hv. síðasta ræðumanni, að einkennilegt sé, að maður þurfi að borga nýtt gjald, þegar maður fer úr heimili sínu og stígur upp í bílinn. Ástæðan fyrir því að þessi gjöld hafa ekki verið afnumin, er hreinlega sú, að þau eru svo mörg, að það mundi verða veruleg hækkun á heildargjaldinu, ef þessi bílagjöld yrðu afnumin, og ef það yrði gert, væri verið að létta gjöldum af þeim, sem eru það efnaðir, að þeir eiga bíla, og leggja þau yfir á hina, sem ekki hafa ráð á því að eiga bíla með útvarpi. Þetta er afar einfaldur hlutur og þetta er sá þröskuldur, sem ávallt hefur verið staðnæmzt við og hefur valdið því, að þessu hefur ekki verið breytt hingað til.

Hv. síðasti ræðumaður taldi mjög varhugavert, að innheimtumaður útvarpsins fengi fógetavald. Þetta kann að virðast við fyrstu sýn mikið skref og óvenjulegt, en ég hygg, að við nánari athugun komi í ljós, að svo er ekki, því að staðreynd er, að núverandi innheimtustjóri Ríkisútvarpsins, sem er lögfræðingur, hefur fengið löggildingu samkv. 33. gr. l. nr. 85 frá 1936 sem fulltrúi við embætti borgarfógeta í Reykjavík, bæjarfógeta í Kópavogskaupstað, bæjarfógeta Hafnarfjarðar og sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeta í Keflavík. Þetta er þegar í framkvæmd samkv. gömlum gildandi lögum á svæði, sem hefur um eða yfir helming af íbúum landsins. Þegar menn kynna sér þetta ofan í kjölinn, þá hygg ég að muni koma í ljós, að í þessu felst fyrst og fremst stórkostleg hagræðing og fyrir því eru ýmsar ástæður, þannig að ég hygg, að þetta sé fyrst og fremst starfsléttir fyrir fógetaembættið og þar að auki óneitanlega mjög til bóta fyrir allar framkvæmdir á innheimtunni sjálfri, en gagnvart notendum hygg ég, að þetta hljóti að koma nákvæmlega eins út.

Annars vil ég geta þess á þessu stigi, að í þessum málum er stöðug þróun, stöðug breyting. Sjónvarpið er ekki nema fjögurra ára gamalt, en það hefur breiðzt miklu örar út um landið heldur en nokkur maður þorði að gera sér vonir um. Til skamms tíma hafa menn rætt um hljóðvarpsgjöldin og talað um, að það ætti að breyta þeim í nefgjöld. Ég held, að þessi hugsun sé nú orðin algerlega úrelt. Í þessu frv. er ein setning í 15. gr., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er með reglugerð að sameina hljóðvarps- og sjónvarpsgjöld í eitt gjald.“

Að sameina hljóðvarps- og sjónvarpsgjöld. Reynslan í öðrum löndum sýnir, að þetta er sú braut, sem hlýtur að verða farið inn á. Hin öra útbreiðsla hér á landi gefur ástæðu til að ætla, að við mundum geta farið inn á þessa braut miklu fyrr heldur en talið hefur verið til skamms tíma, og í því felst að sjálfsögðu feiknaleg hagræðing, að Ríkisútvarpið innheimti eitt gjald af þeim, sem hafa sjónvarpstæki og hljóðvarpstæki, en hafi ekki tvöfalt innheimtukerfi eins og er að verulegu leyti núna, þó áð reynt hafi verið að hagræða þessum hlutum eins og hægt er. En hinu skal ég lofa hv. síðasta ræðumanni og öðrum þm., að þetta verði allt vandlega athugað í þeirri n., sem fær málið til meðferðar.