24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

73. mál, útvarpslög

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst af þeim sökum um þetta mál, að mér finnst vera um það furðumikill ágreiningur. Menntmn. hefur nú flutt sameiginlega við það allmargar brtt., að vísu með fyrirvörum, og síðan hafa komið fram fleiri brtt., en sannast að segja ber töluvert mikið á milli. Það er augljóst mál, að hv. þm. vilja allir leggja sig fram um það að bæta löggjöf um útvarpsrekstur hér á landi. Undirbúningur nýrra laga hefur verið vel vandaður og mönnum er ekki ókunnugt um málið nú á þessu þingi, en það er þó þannig, að bæði ákvæðið um útvarpsráð og einnig innheimtuákvæðin eru svo mikilvæg, að æskilegt væri í raun og veru að geta fengið grg. um þau, t. d. hvort nokkur þörf er fyrir þennan lögtaksrétt eða fógetavald í sambandi við innheimtu afnotagjalda. Maður hefur aldrei heyrt á það minnzt, að það þyrfti að hafa hér sterkara innheimtuapparat eða kerfi heldur en í ýmsum öðrum stofnunum, og það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að það hefur oft áður verið talað um það og fast að því komið að breyta fyrirkomulaginu með því að hverfa til innheimtu nefskatta, sem sennilega væri einfaldara fyrirkomulag, og mætti vel hugsa sér þá einhver heimildarákvæði handa yfirstjórn útvarpsins vegna þeirra örfáu aðila, sem ekki hefðu hljóðvarp, eins og nú er kallað. En þeir munu nú vera langfæstir. Öðru máli skiptir e. t. v. um sjónvarpið.

Ég fyrir mitt leyti spyr í sambandi við 2. gr.: Af hverju þarf Ríkisútvarpið að hafa einkarétt á útvarpi? Nú er breytingin aðeins sú, eins og við vitum, að útvarpið er kallað sjálfstæð stofnun og það á að hafa einkaréttinn, en áður var það ríkið og ríkisstj. á hverjum tíma. En með þeim breytingum, sem hafa verið og eru að gerast og með því, sem kann að gerast fram til ársins 2001, eins og við sáum í sjónvarpinu í gær, væri þá ekki vel hugsanlegt með ákaflega litlum og einföldum tækjum og tilkostnaði að fólkið úti á landinu gæti sjónvarpað og útvarpað og menn gætu fengið að hlusta á þetta, án þess að gerast brotlegir við lög. Það hefur reynzt mjög víða vel hjá okkur að hafa blöð úti á landi, gefin út af einstökum landshlutum. Auðvitað getur þetta verið sem meginregla, finnst mér, en mætti ekki athuga það, að í vissum tilfellum fengju menn heimildir til þess — hjá þá væntanlega ríkisstj., þegar Ríkisútvarpið er orðið sjálfstæð stofnun — að fenginni tillögu sjálfs útvarpsins að nota sér af því að útvarpa einhverjum dagskrárliðum, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi, og þetta verði bara innan tíðar alveg á næstu árum, allt annars eðlis heldur en þetta hefur verið fram til þessa. Hér eru svo miklar breytingar, tækniframfarir, á þessum sviðum, að ég held, að það væri vert að gefa því gaum, að slík heimild gæti verið í Íögum. En ég skal ekki efnislega ræða þau, ég viðurkenni hreinskilnislega, að ég er ekki sjálfur nógu fróður um rekstur útvarpsins og þær reglur, sem þar hafa gilt, og misferli, sem á hefur verið. Við erum búin að vera nokkuð lengi í ríkisstj., en ég kannast alls ekki við, að þetta blessaða Ríkisútvarp hafi verið handbendi ríkisstj. þann tíma, sem ég hef verið í stjórninni, eins og var verið að tala um, og þess vegna sé nauðsynlegt að gera það að sjálfstæðri stofnun.

En ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég vildi aðeins mælast til þess við hæstv. forseta, þar sem ég þarf nú að hverfa af fundi, að umr. um þetta mál verði ekki lokið nú á þessum fundi, þannig að umr. stæði opin og yrði frestað, en mér er kunnugt um, að fleiri eru á mælendaskrá og ég tel, að það gæti verið þörf fyrir þm. að bera sig saman, bæði innan flokka og á milli flokka áður en 2. umr. væri endanlega lokið.