24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

73. mál, útvarpslög

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ekki skal ég hafa á móti því, að menn fái þann tíma, sem þeir vilja til viðbótar við 1½ ár, til þess að íhuga þetta mál, og er kannske sérstaklega tilefni til þess, þegar hæstv. forsrh. kastar fram hugmyndum um algerar grundvallarbreytingar á stjfrv., m. ö. o. hugmyndunum um einkaútvarp og einkasjónvarp hér á landi. Hugmyndirnar eru að sjálfsögðu ekki nýjar. Þær eru þekktar hér á landi og annars staðar, en ég hef ekki trú á því, að þær séu raunhæfar frekar nú en áður hér. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh., að ýmislegt við tæknina, sérstaklega í sambandi við hljóðvarpið, hefur orðið auðveldara viðfangs og ódýrara heldur en áður var. Ég get líka skýrt frá því, að Ríkisútvarpið hefur oft athugað möguleika á því að setja upp staðbundnar, litlar stöðvar víða úti um landið, þar sem fólk í byggðunum gæti haft meiri eða minni íhlutunarrétt um dagskrárhlutann þar. Slíkar tilraunir er verið að gera í stórum stíl í nágrannalöndum okkar á vegum ríkisútvarpanna þar. En þetta er ekki mergurinn málsins, heldur hitt, hvort eigi að heimila einkaaðilum að taka upp rekstur á útvarpi og sjónvarpi, því að þá erum við komnir að skoðanamyndun á því, hvort yfirráð yfir nauðsynlegu fjármagni til þess að gera slíka hluti eigi að skapa mönnum þá aðstöðu að geta haft sínar eigin stöðvar, og enn fremur mundi þá koma mjög til athugunar, hvernig ætti að tryggja óhlutdrægni þeirra stöðva, sem er nú kannske grundvallaratriði í löggjöf um útvarp og sjónvarp hér og í næstu nágrannalöndum okkar. Þetta er mikið grundvallaratriði, svo mikið, að það hefur ekki verið alvarlega rætt í nokkur ár. Ég held, að ungir sjálfstæðismenn hafi bryddað á þessu fyrir nokkrum árum, ef ég man rétt, og ég vænti þess, að menn hefji ekki svo miklar umr. um þetta nú, að það verði til þess, að frv. nái ekki fram að ganga, því að eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, eru mörg þýðingarmestu atriðin fyrir útvarpsrekstur í landinu í þessu frv. algerlega óumdeild. Það er deilt hér í raun og veru aðallega um tvö atriði. Annað er hugmyndin um útvarpsráð. Hún er tilkomin undir umr. og er ekki í upphaflega stjfrv. Ef sú tillaga verður felld, nær það ekki lengra, og frv. getur haldið áfram. Hitt er aftur á móti hluti af stjfrv., sem framsóknarmenn vilja fella út varðandi innheimtukerfið og fógetavald, sem þar er komið til sögunnar.

Um það vildi ég fyrst segja, að grundvallarreglur um innheimtuna eru í 15. gr. og eru í heimildarformi, þannig að það er mögulegt án sérstakrar lagasetningar að gera allmiklar breytingar á innheimtu útvarpsins. Þetta er gert viljandi, til þess að hægt sé að fara inn á nýjar leiðir, þegar það reynist hentugra og framkvæmanlegra heldur en hinar eldri. Það er búið að tala um að gera hljóðvarpsgjaldið að nefskatti í fjöldamörg ár. Það er búið að rannsaka það aftur og aftur, en það hefur alltaf verið horfið frá því, af því að við framkvæmdina koma í ljós stórfelldir gallar á því kerfi. Ég ætla ekki nú enn einu sinni að gera það að umræðuefni, en ég vil aðeins segja það, að vegna tilkomu sjónvarpsins er sú hugmynd þegar orðin úrelt. Það næsta, sem kemur til greina og verður vafalaust gert, er hið sama hér og í öðrum löndum, að sameina hljóðvarps- og sjónvarpsgjald í eitt sameiginlegt gjald. Í frv. er heimild til að gera það. Og það er nú svo komið, að sjónvarpsnotendur eru um 40 þús. Heimilin í landinu eru ekki mikið yfir 40 þús., svo að við erum að komast nokkuð nærri því, að þetta verði almennt kerfi. En engu að síður hygg ég þó, að engum detti í hug, að það sé hægt að gera sjónvarpsgjaldið að nefskatti enn sem komið er a. m. k.

Nú spyrja menn: Af hverju er þörf á því að veita innheimtu útvarpsins þessa aðstöðu, sem felst í því, að innheimtustjórinn hafi fógetavald? Skýringin er sú, að innheimtustofnun Ríkisútvarpsins þarf að senda út yfir 100 þús. reikninga á ári, 40 þús. fyrir sjónvarp, kringum 62 þús. fyrir hljóðvarp. Það er fyrir svo að segja hvert heimili, eitthvað yfir 40 þús. heimili, það er fyrir 12–14 þús. bifreiðar. Það er alveg sérstakt vandamál, sem mikið er um rætt og er verið að athuga, en einnig er hægt að breyta með reglugerð. Það er ekki bundið í lögum, að það skuli vera útvarpsgjald fyrir bílana. Það er hægt með reglugerð að taka það af. Og svo bætast við ýmsar stofnanir. Reynslan er sú, að 30–35 þús. sjónvarpsnotendur borga nokkuð skilvíslega þegar til þeirra er kallað og svona hóflega nálægt greiðsludögum eða á þeim gjalddögum. En það eru þá eftir tilfelli, sem geta verið upp undir 5 þús. talsins, sem verður að fylgja eftir með innheimtuaðgerðum. Og menn geta rétt ímyndað sér, hvílíkt álag það er á fógeta- og dómaraembættin í landinu að þurfa að senda þangað upp undir 5 þús. slík mál, öll upp á litlar upphæðir, öll jafnfyrirferðarmikil og hvert mál hlýtur að vera, sem þangað fer, enda er reynslan þegar fengin. Strax og sjónvarpið breiddist út um Reykjavík og nágrenni, sáu dómararnir á þessu svæði, sáu þeir menn, sem stjórna þessum embættum, að þetta gekk ekki. Og þeir beittu sér fyrir því, að fundin var gömul lagaheimild, sem gerði dómsmrh. kleift að veita innheimtustjóra útvarpsins fógetavald í sambandi við þetta takmarkaða verkefni, en ekkert annað á þessu svæði, svo að þetta kerfi, sem nú er ráðizt á, hefur þegar verið í framkvæmd samkv. gömlum lögum, en þó ótvíræðum, á Reykjavíkursvæðinu fyrir tæplega helming allrar þjóðarinnar. Og nauðsynin hefur þar komið í ljós.

Dómarafélag Íslands hefur sent álitsgerð, sem hér hefur verið lesin, en Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari, sem er einn af höfundum frv., hefur líka sent álitsgerð á móti. Hún er það löng, að ég vil ekki, þó að hún og höfundurinn eigi það raunar skilið, lesa hana alla hér, en ég vil benda mönnum á, að þeir, sem vilja kynna sér hana, geta séð þessi skjöl á milli umræðna eða áður en þessari umr. lýkur. Ég vil benda mönnum á það, að Þórður Eyjólfsson, sem sennilega er nú kennari flestra þeirra, sem skipa Dómarafélagið í dag, í þessum fræðum, hefur allsterk rök fyrir sínu máli og lætur í ljós hina mestu undrun yfir málflutningi Dómarafélagsins. En þetta er flókið lagalegt atriði. Það er hægt að leysa deilumálin með því að skera þetta burtu, en þá fellur líka skriðan, kannske upp undir 5000 mál, þegar verst gæti verið, yfir dómstólana hér á Íslandi, og ég er ekki viss um, að þeir standi sig svo vel í hraðri afgreiðslu mála, að það sé ekki hyggilegt að reyna að finna framkvæmanlegri skipan á þessu heldur en verið hefur. Hér er um að ræða hagræðingu og ef mönnum þykir merkilegt, eins og dómararnir segja, að ein ríkisstofnun fái takmarkað dómsvald í sínu eigin máli, þá skulum við bara muna eftir því, að sýslumennirnir, dómararnir í þessu landi, eru helztu og aðalrukkarar ríkisvaldsins, innheimtumenn ríkisvaldsins. Þeir hafa bæði innheimtustarfið og eru dómarar í þessu máli sjálfir. Það er ekki langt að leita að fyrirmyndinni. Og Þórður Eyjólfsson bendir á fyrirmyndir frá nágrannalöndum, t. d. Danmörku, þar sem við höfum leitað okkur að mörgum hugmyndum í sambandi við réttarfar. Þar eru til slíkir dómarar á mjög takmörkuðum svæðum, víða um landið. Og ég efast um, að það séu margar stofnanir, sem hafa jafnumfangsmikið innheimtukerfi og jafnríka ástæðu til að geta notfært sér fógetavald. Af því einu, að Dómarafélagið hefur þessa deilu, sé ég ekki ástæðu til þess að við losum okkur við vandann með því að ýta honum út úr salnum, því að um leið mundum við með því ýta feiknalega miklu og dýru starfi yfir á dómskerfið í landinu, sem er sannarlega ekki þannig á vegi statt með afgreiðslu mála, að því veiti af því, að eitthvað af þessum litlu málum, sem eiga ekki að þurfa að vera flókin og flækjast á borðum þeirra, sé leyst á annan hátt.

Út af þeim orðum hv. 11. landsk. þm., að útvarps- og sjónvarpsdagskrár séu þeim mun betri sem þær eru styttri, þá er það auðvitað að miklu leyti rétt frá sjónarmiði einstaklings. En ástæðan fyrir því, að þær eru eins langar og þær eru orðnar, bæði hér og alls staðar annars staðar, er sú, að í okkar þjóðfélagi er það breytilegt frá einum hópi manna til annars, hvenær þeir hafa fría stund og hvenær þeir vilja hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp. Það eru 15–20 þús. áheyrendur á morgnana kl. 7–8. Það eru líka 15–20 þús. áhorfendur og hlustendur á milli kl. 8 og 9 og stundum fer það hátt á þriðja tuginn á því tímabili. En það er allt annað fólk. Það er ekki hægt að afgreiða það allt með því að senda bara út fréttir í 5 mínútur. Hins vegar er okkur þetta sjónarmið mjög vel ljóst, og það er núna margyfirlýst og ríkjandi stefna þeirra manna, sem fara með stjórn Ríkisútvarpsins, að það sé nú komið á það stig hvað dagskrárlengd snertir, að lengra sé ekki rétt frá neinum bæjardyrum séð að fara fyrst um sinn, heldur hljóti stefna Ríkisútvarpsins á næstu árum að verða sú að reyna að styrkja innviði sína, undirbúa betur alla aðstöðu til þess að framleiða þessar dagskrár, en lengja þær ekki frá því, sem enn er í dag. Þetta er ríkjandi stefna, sem ég held, að flestir eða allir séu sammála um.

Út af brtt. hv. 7. þm. Reykv. vil ég segja það, að ég hefði nú litið svo á, að umferðar- og slysavarnamál væru að sjálfsögðu innifalin í greininni eins og hún áður var. Ég get nú ekki fallizt á það, að sjónvarpið hafi ekki verið skilningsríkt í þessum efnum, því að það hefur lagt á þessa hluti mikla áherzlu og flutt langar framhaldsseríur til þess að kenna mönnum meðferð og öryggi bifreiða og umferðarmál, þó að þær seríur hafi verið keyptar af sjónvarpinu sjálfu beint frá öðrum löndum, en ekki fengnar frá þessum samtökum. Ég hef ekkert á móti því að umferðar- og slysavarnamál skuli vera þarna sérstaklega dregin fram, en ég vil taka það fram, að það er minn skilningur og ég vona, að það verði skilningur Alþ., ef það samþykkir þetta, að þetta þýðir ekki fríar auglýsingar. Það er sjálfsagt að veita þeim, sem vinna að umferðar- og slysavarnamálum, alla hugsanlega aðstoð í dagskrá sjónvarpsins, en það er fordæmi, sem er ómögulegt að fara inn á, ef ein og ein stofnun á að fara að fá fríar auglýsingar í auglýsingatíma. Og hann er viðkvæmur frá sjónarmiði Ríkisútvarpsins, af því að þetta er svo mikill tekjuliður, og iðgjöld mundu þurfa að stórhækka, ef þær tekjur ekki væru fyrir hendi.

Ég vil skjóta því að hér út af því, sem bandamaður minn í þessu máli, hv. 6. þm. Reykv., sagði um erindi Sigurðar Blöndal, að erindið var ekki vítt. Það var aðeins eitt einasta atriði úr erindinu, sem var vítt. Það var það, að hann fullyrti, að lögfræðingar sem stétt í þessu landi hjálpuðu til við skattsvik. Þetta mál var rætt á útvarpsráðsfundi og þó að margir væru reiðir út af ýmsu, sem Sigurður sagði, þá var það niðurstaðan eins og oftast að lofa skoðunum manna að ganga eins langt og þeir vilja, en við drögum venjulega þá línu, að þegar komið er að mörkum, sem snerta lög, þegar um er að ræða hluti, sem allar líkur eru á, að geti talizt meiðyrði eða leiði til sekta eða refsinga, þá getur útvarpsráð ekki látið það kyrrt liggja, enda lá þegar fyrir allskeleggt hótanabréf frá einum lögfræðingi, sem mun vera flokksbróðir hv. ræðumanns og sem ætlar sér að sækja stórfé í ríkissjóðinn út á þetta erindi, hvað sem úr því verður.

Ég vil ekki eyða tíma d. í langar umr. um skipan útvarpsráðs. En ég vil biðja menn að gera sér grein fyrir því, að þetta er ekki venjuleg stjórn fyrirtækis. Þetta er sá hópur manna, sem á að móta og bera ábyrgð á þessum löngu dagskrám, sem við erum að kjósa í. Ég hygg, að það sé ekkert ráð eða nefnd eða enginn hópur manna, sem Alþ. kýs eða skipar í, sem er algerlega sambærilegt hvað þetta verkefni snertir. Og það er ekki rétt að tala um afgreiðslu mála sem aðalverkefni útvarpsráðs. Það er alltaf eitthvað af málum, sem þarf að afgreiða, kærur og annað, en það er furðulítið. Meginhluti starfsins er að taka þátt í því með starfsliðinu að móta dagskrárnar, taka ákvarðanir um aðalatriði í þeim og líta síðan yfir, eins og lög mæla fyrir, dagskrá fyrir heila mánuði. Og það er það, sem verður ærið tímafrekt og sem gerir það, að það er ekki heppilegt, að menn þurfi í sömu vikunni að hlaupa af einum fundinum, þar sem þeir eru að fjalla um hljóðvarp, yfir í sjónvarpsmál. Það getur krafizt allmikils undirbúnings, ef menn vilja fylgjast vel með þeim hlutum. Og það er ekki þægilegt að eiga, eins og útvarpsráð gerir, að bera ábyrgð á þessum dagskrám öllum og vera kallaðir til ábyrgðar hvenær sem eitthvað bregður út af, þegar ekki hefur verið um að ræða vinnuaðstöðu til þess að fylgjast þó það vel með, að maður geti sagt með góðri samvizku, að maður viti svona í stórum dráttum hvað það er, sem á að koma. Hættan við fámennar stofnanir, þó að starfslið útvarpsins sé afburða vel skipað og þar hafi verið margt og sé margt merkra manna, vandinn við starfsliðið er sá, hvað það er fámennt. Það eru svo fáir menn, sem koma til jafnvel stórra ákvarðana. Þegar allt í einu kemur í sjónvarpinu bíómynd, sem hálf þjóðin fordæmir og segir, að sé kennslumynd í vasaþjófnaði, eins og kom fyrir okkur, þá stóðum við upp og það hafði bara farið þannig þá vikuna, að ég held, að enginn útvarpsráðsmaður og enginn af þeim æðstu ábyrgðarmönnum stofnunarinnar hafði haft tíma til þess að skoða þessa mynd, og þá gerast svoleiðis slys. Það eru þessir hlutir, sem valda því, að ég hef flutt þá tillögu, sem ég vissi fyrir fram, að mundi verða óvinsæl í fyrstu, að stækka útvarpsráðið. Það verður ekki bara formaður útvarpsráðs, sem tengir saman þessar tvær nefndir, heldur útvarpsstjórinn líka, og í þessum efnum er ég alveg tvímælalaust að tala um aðra menn heldur en sjálfan mig, þó að ég skipi þessa stöðu nú í svipinn. Menn óttast, að þetta muni leiða til þess, að samræming milli hljóðvarps og sjónvarps minnki, en það hygg ég, að muni ekki verða. Bæði mun það geta orðið eins og hér hefur verið lýst, að þeir, sem kosnir eru í útvarpsráð, geta verið sitt árið í hvorri n. og þar með fylgzt með hvoru tveggja. Svo eru önnur ákvæði í þessu frv. um framkvæmdastjórn við útvarpið, sem er innanhússtjórn, þar sem framkvæmdastjórar hljóðvarps og sjónvarps eru í fyrsta skipti settir að sama borði, þar sem þeir eiga að vinna að þessu samræmingarverkefni, svo að fyrir því hefur sannarlega verið hugsað.

Ég vil að lokum ítreka þá ósk mína, að Alþ., þessi d. og hin deildin, reyni að gera upp við sig þetta lagalega deilumál milli Dómarafélagsins og flytjenda frv., sérstaklega dr. Þórðar Eyjólfssonar, og þetta frv. verði síðan afgreitt hvað sem gerist með einstakar brtt., því að það eru stór atriði í þessu frv., sem verða að komast fljótlega fram, atriði eins og þau, sem eiga að tryggja, að eftir 40 ára útvarpsrekstur á Íslandi verði hægt að byggja hús, sem ekki er stórt og ekki mikið miðað við það, sem nú gerist, yfir aðalstarfsemi útvarpsins. Atriði eins og það, að það komi einhver íslenzkur lagabókstafur um ábyrgð á því efni, sem flutt er í útvarpið, — en það er allt í fullkominni óvissu í dag — og fjöldamargt annað, sem eru nýjungar og breytingar til hins betra, sem mér finnst, að Alþ. ætti að afgreiða nú á þessu öðru ári, sem frv. liggur hér fyrir.