15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

73. mál, útvarpslög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að taka undir ummæli hv. 1. þm. Reykn., sem talaði hér áðan, í sambandi við afnotagjöld af útvarpi. Þegar frv. að nýjum útvarpslögum var hér til fyrstu umr. í hv. deild, benti ég á þetta og vil endurtaka það, að ég lít á þetta mál sem ranglátt mál, ekki að það sé óvinsælt, heldur að það sé ranglátt og hafi ekki við rök að styðjast að innheimta sérstakt gjald fyrir útvarpið, þó að aðili verði að hlusta á það í bifreið sinni eða beituskúr eða á vinnustað eins og nú er gert. Þess vegna finnst mér það skipta höfuðmáli að þessi innheimta er ranglát, en ekki það, að hún sé óvinsæl, því að það má þá um flestar innheimtur segja. Ég vil líka taka undir það með hv. 1. þm. Reykn., að ég tel brýna nauðsyn bera til, að í lögunum verði einmitt þetta tekið til meðferðar, vegna þess að það er vitað, að viðhorf útvarpsmanna til þessa máls er með þeim hætti, að vegna þeirra skoðana, sem þeir hafa á því, þá fæst þessu ekki breytt og þess vegna treysti ég því ekki a. m. k. fyrst um sinn, að þessu verði breytt með reglugerð. Ég vil því taka undir það, sem hv. 1. þm. Reykn. sagði hér áðan, að það ber brýna nauðsyn til þess að þessi atriði, um að marginnheimta gjöld fyrir að hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp, verði tekin til meðferðar í sambandi við afgreiðslu lagafrv., en ekki geymt reglugerð.