17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

73. mál, útvarpslög

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þær tillögur, sem um er að ræða við frv. til útvarpslaga nú við 3. umr., stafa eingöngu af þeim breytingum, sem samþ. voru við 2. umr.

Ég hef áður nefnt breytingu við 6. gr., en þar að auki var samþ. allveigamikil breyting við 19. gr. Þar er um mjög lögfræðileg atriði að ræða. Þar sem í menntmn. eiga sæti ýmiss konar menntamenn, en ekki lögfræðingar, höfum við leitað sérfræðilegrar aðstoðar hér í þinginu. Niðurstaðan er sú, að rétt sé, að 20. gr. haldi sér, allmikið breytt, og þurfi að hljóða svo:

„Þegar liðinn er mánuður frá því, að afnotagjöld af hljóðvarpsviðtækjum og sjónvarpsviðtækjum féllu í eindaga, getur innheimtustjóri krafizt lögtaks fyrir ógreiddum gjöldum ásamt vöxtum og kostnaði, og skal úrskurður auglýstur eins og fyrir er mælt um opinber gjöld.“

Þá er í lok 21. gr. komizt að orði á þessa leið: „Innheimtustjóri eða viðkomandi héraðsdómari kveða upp dómsúrskurði.“ Að sjálfsögðu getur innheimtustjóri ekki kveðið upp dómsúrskurði, þegar búið er að taka af honum fógetavaldið, og þurfa því orðin „innheimtustjóri eða“ í lok 21. gr. að falla niður. Þessa till., sem menntmn. stendur að, legg ég fram skriflega og leyfi mér að fara fram á það, herra forseti, að leitað verði afbrigða fyrir henni.