16.11.1970
Efri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

101. mál, atvinnuöryggi

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki eyða mörgum orðum að því að skýra efni þessa frv., bæði vegna þess að hæstv. forsrh. hefur þegar gert það í framsöguræðu sinni hér og um það hafa farið fram svo miklar umr. í hv. Nd., sem hv. Ed.-mönnum eru áreiðanlega fullkunnar, að þess gerist ekki þörf. En það er einn þáttur málsins, sem í rauninni er þó veigamesti þáttur þess, sem ég vildi gera að sérstöku umtalsefni hér við þessa umr.

Svo sem segir í grg. frv., er gert ráð fyrir því, að kaupgjaldsvísitalan muni nú 1. des. hækka um 6.2 stig, og við það eru áætlanir frv. miðaðar, og í heild muni vísitöluhækkunin verða, þegar allt kemur til alls í febr. og apríl 7.5 stiga hækkun. Það er gert ráð fyrir því, sem ég þarf heldur ekki að orðlengja mikið um, að eyða þessari hækkun með samspili úr ýmsum áttum, þ. e. a. s. dreifa þeim byrðum, ef byrðar skyldi kalla, eftir atvikum á þrjá aðila og raunar fjóra, í fyrsta lagi á vinnuveitendur með sérstökum launaskatti, á verkalýðssamtök með því að heimila að skerða kaupgjaldsvísitöluna um allt að 2 stigum, sem sýnt hefur verið fram á í þessum umr. og ég skal ekki rekja nánar, að feli ekki í sér kjaraskerðingu vegna biðtíma og vegna hækkunar, sem verður á kaupi bóndans, sem ekki kemur til uppbóta, eftir því sem vísitala hækkar meir og kaupgjald hækkar meira af þeim sökum, og það er í þriðja lagi með sérstökum framlögum úr ríkissjóði, sem annaðhvort er beinlínis aflað fjár til, svo sem gert er ráð fyrir í frv., eða á þann hátt, að gert er ráð fyrir, að ríkissjóður muni leggja fram fé af sínum núverandi tekjustofnum, sem þá að sjálfsögðu er tekið frá öðrum þörfum. Í fjórða lagi er einnig gert ráð fyrir því, að bændur taki á sig nokkrar kvaðir, sem felast í því, að þeir fá ekki bætta að fullu verðhækkun, sem verða kann á fóðurbæti með hliðsjón af því, að þeir fá á móti hlunnindi af því, hvað niðurgreiðslur eru auknar, sem muni stuðla að aukinni sölu búvara innanlands. Með þessum hætti var ætlunin að jafna þetta dæmi.

Nú hefur það verið tekið fram, sem gaf auga leið, að allt væru þetta áætlunartölur. Menn hafa talað um það, að það hafi mikið gætt verðhækkana að undanförnu, og verið fundið að því, að ekki hafi verið nægilega stranglega gripið í taumana í því efni. Því hefur verið yfirlýst í hv. Nd. af verðlagsstjóra, að þær verðhækkanir hafi verið sáralitlar, sem hann hafi orðið var við í því efni. Alla vega liggur það dæmi nú nokkurn veginn ljóst fyrir, þannig að Hagstofan hefur endanlega reiknað út, hver kaupvísitalan muni verða þann 1. des. Ég get að vísu ekki skýrt frá því endanlega, vegna þess að kauplagsnefnd hefur ekki enn þá fjallað um málið. Það var reiknað út þetta dæmi nú um helgina, en það kemur þó á daginn, að einmitt vegna aðhalds, sem beitt hefur verið í sambandi við óskir, sem fram hafa verið bornar að undanförnu um verðhækkanir, sem staðið hefur verið gegn, þær ýmist verulega skornar niður eða staðið gegn og það, sem ekki hefur komið inn í verðlagið, þ. e. 4.2% hækkun á kaupgjaldsvísitölu, sem varð, þegar síðasta hækkun kom til, þá hefur reyndin orðið sú, að hækkun vísitölunnar mun verða nokkru minni en gert var ráð fyrir. Og er ekki ólíklegt, að það geti numið rúmlega ½ kaupgjaldsvísitölustigi, sem hækkunin verði nú minni en áætlanir frv. byggjast á.

Það hefur frá upphafi verið áhugamál og meginstefna ríkisstj. að skerða kjör launþega sem allra minnst í sambandi við þær aðgerðir, sem hér er unnið að að koma í framkvæmd. Ég skal ekki rekja þær orðræður, sem um það hafa orðið, en þessi meginstefna, held ég, að hljóti að vera öllum ljós, sem málið skoða. Það er því í samræmi við þessa grundvallarstefnu, sem lýst hefur verið hér mjög rækilega bæði af hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh. í Nd., að rétt þótti að taka til athugunar, hvort auðið væri að létta með einhverjum hætti á því, sem á launþega er lagt, að svo miklu leyti, sem beinlínis er hægt að segja, að á þá sé nokkuð lagt, miðað við það, sem í staðinn fæst með því atvinnuöryggi, sem skapast. En engu að síður hefur þótt rétt að skoða það dæmi nú enn einu sinni. Og það hefur verið gert nú um helgina og hefur leitt til þess, að ríkisstj. hefur ákveðið að gera nokkrar breytingar á fyrirhugaðri framkvæmd l., ekki þannig, að þau ákvæði breytist, sem þar er um að ræða, heldur að dregið sé enn mjög verulega úr því, sem talið er, að launþegar leggi fram til þess að fá þá mikilvægu verðstöðvun, sem hér er um að ræða.

Í frv. er gert ráð fyrir, eins og áður hefur verið að vikið, að skert verði 2 kaupgjaldsvísitölustig. Þar segir hins vegar ekkert um það, hvenær þau vísitölustig verði skert og það er efni málsins. Nú er það, að miðað við það, sem ég áðan gat um, að ekki muni verða þörf á, ef ekki muni verða jafnmikil hækkun og gert var ráð fyrir á kaupgjaldsvísitölunni nú 1. des., þá er hugmyndin sú, að engin skerðing verði á kaupgjaldsvísitölunni 1. des., þannig að skerðing sú, sem kemur á herðar launþega í því sambandi, komi ekki, fyrr en eftir að ríkissjóður hefur tekið á sig allt það, sem gert er ráð fyrir í l., að á hann falli. Því verður málum hagað svo nú 1. des., að hækkun sú, sem verður á kaupgjaldsvísitölunni, verður greidd niður að fullu með auknum niðurgreiðslum á nauðsynjavörum, sem ég get ekki skýrt frá í dag, hverjar verða, enda ekki eðlilegt, að það liggi ljóst fyrir, og er þá það eitt eftir, að ekki er gert ráð fyrir, að komi, svo sem segir í frv., til framkvæmda til vísitölubóta sú hækkun, sem verður á tóbaki og áfengi, en það er í kringum 0.7 vísitölustig. Að öllu öðru leyti verður þetta bætt upp með niðurgreiðslum, og skerðingar þær, sem gert er ráð fyrir í frv. varðandi kaupgjaldsvísitöluna, sem snýr að launþegum, koma ekki til framkvæmda, fyrr en við þær verðhækkanir, sem koma til á næsta ári, aðallega þó í marz 1971, og eftir atvikum svo á næsta ársfjórðungi þar á eftir eða 1. maí. Sú skerðing verður aldrei meiri en 2 stig svo sem frv., væntanleg lög, skulum við vona, gerir ráð fyrir, en það kann vel að vera, að sú skerðing verði ekki einu sinni 2 stig, þótt maður geri ráð fyrir, að svo kunni að verða, miðað við það, að það er gert ráð fyrir og mun svo verða áfram, að iðgjald til almannatrygginga komi ekki til uppbóta, sem að sjálfsögðu er í rauninni fráleitt að hala inni í vísitölu, þar sem þetta er aðeins iðgjald fyrir lífeyristryggingu, sem fólk er að kaupa sér og sem það fær frádregið á sínu skattaframtali, og því gersamlega ástæðulaust, að sé bætt upp í vísitölunni. Með þessum hætti tekur ríkissjóður á sig alla áhættuna um það eða tekur á sig að fullu þann bagga, sem nú þarf að rísa undir, og það kemur þá launþegum að fullu til góða, ef skerðingin verður innan við 2 stig, það, sem kemur til eftir áramótin, auk þess sem það liggur ljóst fyrir, að það er þá ekki nema um mjög skamman tíma sem um þá skerðingu er að ræða. Og miðað við þessa ákvörðun, þá horfir málið þannig við, að frv., ef að lögum verður, og þessar ráðstafanir munu beinlínis leiða nú og á næstu mánuðum til kaupmáttaraukningar frá því, sem hefði verið, ef ekkert hefði verið aðhafzt og kjarasamningarnir hefðu gengið sinn gang.

Það hefur verið reiknað út, að frá maíbyrjun leiði kjarasamningarnir af sér 17.4 stiga kaupmáttaraukningu miðað við þá stöðu, sem verður, eftir að desemberuppbæturnar hefðu komið til. En með þessum ráðstöfunum, sem nú verða gerðar, miðað við það að láta niðurgreiðslurnar koma nú strax til, verður kaupmáttaraukningin 19%, þannig að það er um beina kaupmáttaraukningu að ræða með þessum ráðstöfunum umfram það, sem hefði gerzt, ef ekkert hefði verið aðhafzt og þessi þróun verið látin ganga sína leið. Ég skal taka það fram strax, að það er töluvert erfitt að gizka á það, hver verði vísitöluhækkunin eftir næstu áramót, en það er rétt að geta þess, sem hv. þm. mun vafalaust ekki ókunnugt um, að það eru að verða alvarlegar hækkanir á ýmsum innfluttum vörum, sem eru meiri en við höfum áður átt að venjast hér á Íslandi, vegna stórfelldra hækkana, sem hafa orðið erlendis. Og það er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaáætlun, sem um þetta hefur verið gerð, varðandi hækkanir nú eftir áramótin, að þessar erlendu verðhækkanir geti leitt af sér a. m. k. ½% kaupgjaldsvísitölustigs hækkun. Og það er þegar vitað um vissar vörutegundir, sem nú á næstunni muni hækka allverulega í verði, en að öðru leyti mun stærsti einstaki liðurinn, sem er rétt að nefna hér, stafa af fyrirhuguðum ráðstöfunum til þess að efla tekjur vegasjóðs, en það er alveg ljóst, að ef það á að vera með nokkru móti hægt að standa við vegáætlun, verður að gera nýjar ráðstafanir til þess að afla vegasjóði tekna nú um áramótin, og þetta mun leiða af sér, ef til kemur, allverulega hækkun vísitölu. Þá á einnig eftir að koma inn í vísitöluna eftir áramótin og kemur í tvennu lagi húsnæðisliður, sem sennilega mun nema um fjórðungi úr kaupgjaldsvísitölustigi, og nokkur önnur gjöld, sem þegar er vitað um og ekki hafa enn þá komið inn í vísitöluna. Að öðru leyti hafa þau gjöld, sem varða opinbera aðila og reyndar annað, sem vitað er um, verið tekin inn í þetta dæmi, og þó að auðvitað kunni alltaf eitthvað að koma fram, sem ekki er fyrir séð, þá hygg ég þó, að þetta gefi nokkuð heillega mynd af þessu viðhorfi, svo sem það nú er. En það munar að sjálfsögðu allverulega um hvert hálft vísitölustig og það, að hækkunin hefur orðið minni en gert var ráð fyrir. Það bendir ótvírætt í þá átt, að það hafi verið spyrnt við fótum, eins og ég gat um áðan, varðandi verðhækkanir, vegna þess að áætlunin var gerð á sínum tíma út frá þeim forsendum, sem þá lágu fyrir um verðhækkanir, sem þótti nokkurn veginn augljóst, að hlytu að koma.

En kjarni málsins er sem sagt þessi, sem ég að lokum aðeins endurtek, til þess að það valdi engum misskilningi, að það er ekki gert ráð fyrir því á neinn hátt að breyta því frv., sem hér er til meðferðar. En hins vegar er dæminu að því leyti snúið við, að í stað þess, að launþegar taki nú á sig að fullu það, sem þeim var ætlað, þá taki þeir aftur á sig það, sem kemur eftir áramótin og verður að sjálfsögðu að leggja á það megináherzlu að sporna með öllum kröftum gegn verðhækkunum og jafnframt að athuga það, hvort kann að vera hægt að koma fram einhverjum verðlækkunum, það kann líka að vera til athugunar og sjálfsagt að íhuga það, og þá er ekki einu sinni víst, að sú skerðing verði þessi 2 stig, sem frv. gerir ráð fyrir, auk þess sem það að sjálfsögðu verður miklum mun léttara en ef það hefði komið til framkvæmda nú.