04.03.1971
Efri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

231. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breytingu á tollskránni, snertir eingöngu heimildargrein hennar, 3. gr., og eina tegund tækja, ef svo má segja, þ. e. a. s. bifreiðar. Varðandi gjöld af bifreiðum hafa orðið allverulegar breytingar á síðustu árum. Annars vegar hafa bifreiðar að sjálfsögðu hækkað mjög í verði og þetta er orðið dýrt tæki miðað við tvær gengisfellingar. Hins vegar hefur verið komið til móts við kaupendur bifreiða á þann veg, að felld hafa verið niður leyfisgjöld bifreiða, sem á sínum tíma voru mjög há, eða allt að 125%. Engu að síður hefur það að undanförnu verið mikið baráttumál atvinnubifreiðastjóra að fá frekari lækkun á tollum bifreiða, auk þess sem öryrkjabandalag Íslands, sem er talsmaður þeirra fötluðu, sem til þessa hafa notið sérstakra fríðinda varðandi aðflutningsgjöld af bifreiðum, hefur sótt mjög fast á með það að fá nokkur frekari hlunnindi varðandi öryrkja. Þetta mál er búið að vera á döfinni í nokkurn tíma. Því er ekki að leyna, að hér er um allverulegt tekjumál að ræða fyrir ríkið og því nokkuð vandasamt, hvernig á ætti að taka. Hér á hinu háa Alþ. hafa komið fram ákveðnar tillögur, og liggur þegar fyrir frv. í hv. Nd., þar sem gert er ráð fyrir því, að tollar bifreiða lækki almennt um 30%.

Niðurstaða athugana okkar í fjmrn. er sú, að þess sé enginn kostur, allra sízt á miðju fjárhagsári, eftir að fjárlög hafa verið afgreidd, að gera jafn stórvægilegar breytingar á tollum bifreiða eins og lagt er til í umræddu frv. og gat ég þess, þegar það frv. var til 1. umr. í hv. Nd. Hins vegar er því ekki að leyna, að það er rétt, að hér er fyrir allstóran hóp manna í þjóðfélaginu um atvinnutæki að ræða, sem tolluð eru mjög hátt, eða 70% varðandi fólksflutningabifreiðar, almennar leigubifreiðar, meðan bifreiðar almennt eru að vísu nokkuð hærri eða í 90% tolli. Af þessum sökum er lagt til í þessu frv. að koma til móts við leigubifreiðastjóra á þann hátt að heimila sérstaka lækkun á tollgjaldi bifreiða þeim til handa, og er þá valin sú leið, sem er hliðstæð því, sem gilt hefur um lækkun tolla á bifreiðum til fatlaðra, að miða það við ákveðna fjárhæð á bifreið og fer það þá mjög eftir því, hversu hagkvæm kaup leigubifreiðastjórar gera, og í rauninni er það ekki nema þjóðhagslega skynsamlegt að stuðla að því, að ódýrari tegundir bifreiða verði keyptar til landsins til notkunar í leigubifreiðaakstri og mundu þá þeir, sem það gera, fá hlutfallslega hærri endurgreiðslu á tollinum. Almennt mundi þessi lækkun tolls á bifreiðum, miðað við þær bifreiðar, sem inn hafa verið fluttar að undanförnu, nema frá 40–50% af tollgjaldi. Hins vegar er auðið að fá keyptar bifreiðar, sem eru það ódýrar, að slík endurgreiðsla mundi fara alllangt niður fyrir þá fjárhæð, og þess vegna þykir rétt að setja á þetta þau mörk, að þessi eftirgjöf verði þó aldrei meiri en svo, að tollur nemi 40%, og er það byggt á því, að sendibifreiðar t. d. og jeppabifreiðar eru í 40% tolli og almenningsvagnar og vörubílar, sem eru dýrustu bifreiðarnar, eru nokkru lægri eða í 30% tolli, en þær bifreiðar eru enn þá dýrari og því ekki óeðlilegt, að það séu veitt aukin fríðindi fyrir þær, enda er þar um þýðingarmestu atvinnutækin að ræða fyrir atvinnuvegina. Nokkru neðar eru sjúkra- og slökkvibílar, eða í 15% tolli. Það er gert ráð fyrir því, að heimildin til eftirgjafar takmarkist við 250 bifreiðar árlega, og er þá við það miðað, að í landinu séu 800–900 leigubifreiðar, en að því er stefnt af hálfu samtaka leigubifreiðastjóra, að þessum bifreiðum fækki, og sannleikurinn er sá, t. d. hér í höfuðborginni, að erfiðleikar leigubifreiðastjóra byggjast ekki hvað sízt á því, að það eru allt of margir menn, sem þessa atvinnu stunda miðað við það, hvað einkabifreiðum hefur fjölgað geysilega mikið, og hefur því verið unnið að því að undanförnu að athuga reglur, sem gætu orkað í þá átt að draga úr fjölda bifreiða. Það er hins vegar talið af bifreiðastjórum, að almennt endist leigubifreiðar ekki lengur en 3–4 ár, í hæsta lagi 4 ár. Það verður að telja, að með þessu móti séu atvinnubifreiðastjórum veitt mjög veruleg aukin fríðindi varðandi sínar bifreiðar, og er ætlunin, að þessar heimildir til endurgreiðslu verði framkvæmdar af rn. í samráði við samtök atvinnubifreiðastjóra og að sjálfsögðu gildir það einvörðungu um þá, sem hafa bifreiðaakstur að höfuðatvinnu, eða meginhluta tekna sinna af henni, og yrði þá miðað við svipaðar reglur og gilda um það nú, hverjir fá bifreiðar með 70% tolli í stað 90%.

Varðandi fatlaða þá er það mál almennt séð orðið mikið vandamál. Síðan fleiri voru teknir hér undir og ekki hvað sízt hjartasjúklingar, þá hefur eftirsókn eftir þessum undanþágum aukizt stórkostlega, og umsóknir munu hafa náð allt að 1000 á ári, en heimildin er nú takmörkuð við 300 bifreiðar. Ég sé þess engan kost að hækka tölu þessara bifreiða, enda mundu þess ekki sjást veruleg merki, að létt væri þessari ásókn, þó þetta væri hækkað um nokkra tugi bifreiða. Það yrðu þá að vera nokkur hundruð, og það tel ég ekki með nokkru móti suðið að gera og raunar naumast frambærilegt. En það er annars vegar lagt til að hækka lítillega eftirgjöfina á tolli af þessum bifreiðum, eða um 10 þús. kr. í 80 þús. kr., og má þá segja, að allmikill hópur þeirra manna, sem fatlaðir eru, gætu haft til afnota bifreiðar, sem raunverulega væri ekkert tollgjald greitt af, því að það er auðið að fá það ódýrar bifreiðar til einkanota, að það mundi verða sáralítill eða enginn tollur, sem af þeim yrði með þessari eftirgjöf. Hins vegar hefur Öryrkjabandalagið lagt á það megináherzlu, að veitt yrðu verulega aukin fríðindi nokkrum mönnum á hverju ári, svo sem lagt er til í þessu frv., þ. e. a. s. mönnum, sem búa við sérstaklega mikla fötlun, fötlun, sem er þannig, að þó að þeir að vísu geti keyrt bifreið, þá kosti það það, að bifreiðin þurfi að vera sérstaklega útbúin að tækjum og m. a. í mörgum tilfellum þurfi hún að vera sjálfskipt, og þetta þýðir það, að þessir menn verða að kaupa dýrari bifreiðar heldur en aðrir fatlaðir þurfa til sinna nota. Talið er af þeirri n., sem sér um úthlutun bifreiðanna lögum samkvæmt, að það eigi að vera tiltölulega auðvelt að úrskurða það, hvaða öryrkjar falli hér undir, það liggi nokkuð í augum uppi hverju sinni. Og það er talið, að 25 bifreiðar árlega mundu nægja nokkurn veginn til að fullnægja þörfinni að þessu leyti. Þess vegna er þetta sérstaka ákvæði sett um heimild til þess að endurgreiða allt að 120 þús. kr. toll af bifreiðum til þeirra, sem mest eru fatlaðir, og þá takmarkað við umrædda tölu, sem ég gat um. Þetta mundi gera þeim auðið að fá einnig bifreiðar, þessum illa fötluðu mönnum, sem má þá einnig gera ráð fyrir að hafi mjög skerta starfsorku, án þess að um nokkra teljandi tollgreiðslu af þeim yrði að ræða. Þetta vona ég, að hv. þdm. geti fallizt á að sé sanngjörn og eðlileg breyting, og raunar að báðar þessar breytingar stefni í þá átt, sem menn geti sameinazt um.

Ég skal játa, að það er alltaf hæpið mál að fara inn í Alþ. með frv. um breytingar á tollskrá, og það eru alltaf mörg áhugaefni, sem menn hafa í sambandi við tollskrárbreytingu. Það er að vísu svo, að hér fyrir ekki löngu síðan voru afgreiddar töluvert stórar breytingar á tollskránni, og ég vil leggja á það áherzlu, að ég tel ekki auðið að afgreiða þetta mál, nema því aðeins að menn gætu sameinazt um það að afgreiða það án þess að fara að blanda inn í það öðrum áhugamálum sínum varðandi tollskrána, enda er orðið það áliðið þings, að ef ætti að fara að taka upp almennar umr. um þau atriði, sem menn vildu gjarnan koma á framfæri varðandi breytingar á tollskránni, þá sé ég þess enga von, að málið geti fengið endanlega afgreiðslu á þessu þingi. Hins vegar vona ég, að allir hv. þm. vilji gjarnan stuðla að því, að þetta einstaka vandamál verði leyst með þeim hætti, sem hér er lagt til að gera.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, þar sem þetta er einfalt mál, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn. og mundi mjög gjarnan vilja óska eftir því, að n. sæi sér fært að afgreiða það svo skjótt sem auðið væri, til þess að hægt væri að fá endanlega afgreiðslu á því áður en þinginu lýkur.