30.03.1971
Neðri deild: 77. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

231. mál, tollskrá o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Samkv. frv. þessu er gert ráð fyrir því, að heimilt verði að lækka eða fella niður aðflutningsgjöld af allt að 300 bifreiðum á ári fyrir fólk með útvortis bæklanir eða lamanir eða fyrir fólk, sem hefur verið haldið lungnasjúkdómum. Það er vitað, að þessi bifreiðafjöldi, sem þarna er ákveðinn, er orðinn algjörlega ófullnægjandi miðað við þær umsóknir, sem fyrir liggja. Hv. alþm. vita, að heimildir af þessu tagi hafa verið í lögum alllengi og hefur fjöldi þessara bifreiða aukizt heldur lítið. Nú er mér tjáð, að um 1000 aðilar hafi sótt á þessu ári um undanþágur frá tollgreiðslum í slíkum tilvikum, og það gefur því auga leið, að það hefur ekki verið hægt að sinna nema litlum hluta af fyrirliggjandi beiðnum. Mér er kunnugt um það, að í nokkrum tilfellum er um að ræða aðila, sem áður hafa fengið bifreiðar með þessum kjörum vegna sjúkleika síns og átt hafa bifreiðarnar allt upp í 10 ár, en þeim hefur nú verið synjað um leyfi til endurnýjunar. Samkv. þeim reglum, sem um þetta gilda, er gengið út frá því, að sá, sem hefur fengið bifreið með þessum hætti og notað hana í sex ár, skuli jafnan eiga kost á því að fá aðra bifreið til endurnýjunar hinni gömlu. Það er því alveg augljóst mál, að það þarf að heimila þessa undanþágu fyrir fleiri en 300 bifreiðar á ári, ef ekki á til þess að koma, að mismuna hinu sjúka fólki verulega í þessum efnum. Ég hef því leyft mér að flytja brtt. við frv. um það að hækka þessa tölu úr 300 í 500. Og ég ætla, að það sé ekki of mikið. Ég hefði að vísu gjarnan viljað hafa töluna nokkru hærri og tel, að það væri aðeins eðlilegt, miðað við það, sem áður var í þessum efnum, en ég hef þó kosið að hafa töluna ekki hærri en 500 í þeirri von, að tillagan fengist fremur samþ. þannig. Tillögu minni hefur ekki verið útbýtt enn þá, hún er í prentun og ég verð því að leggja hana fram skriflega og óska eftir því, að hæstv. forseti leiti eftir afbrigðum við till., svo að hún geti komið til atkvæða.