30.03.1971
Neðri deild: 77. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

231. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar ég lagði þetta frv. hér fyrir hv. d., gat ég þess, að þetta mál hefði verið í rækilegri athugun og viðræður farið fram um það milli viðkomandi aðila, bæði varðandi þau hlunnindi, sem gert er ráð fyrir að veita leigubifreiðastjórum og einnig fötluðum, og varðandi fatlaða var nokkur hækkun gerð á eftirgjöfinni, 10 þús. kr. á bíl, og jafnframt var svo ákveðið, að sérstök tala bifreiða skyldi njóta enn frekari fríðinda eða allt að 120 þús. kr. niðurfellingar á tolli, ef um mjög miklar fatlanir væri að ræða. Það er alveg rétt, sem hv. 4. þm. Austf. sagði hér áðan, — og ég gat um það í framsöguræðu minni — að eftirsókn eftir þessum bílum hefur farið mjög vaxandi, en engu að síður tel ég það orka mjög tvímælis, hvort það eigi að fjölga þessum bifreiðum. Bæði er það, að þó að umsækjendafjöldi sé jafnmikill og raun ber vitni, þá er það mikið álitamál, hvort allt það fólk á að koma til greina, sem þar hefur sótt, og ég mundi því álíta, að þær 300 bifreiðar, sem veittar hafa verið í þessu skyni, það væri ekki hægt að hækka þá tölu, enda var það mat þeirra forráðamanna, sem ég ræddi við frá Öryrkjabandalaginu, að það væri betur séð að hækka þessa eftirgjöf heldur en að auka tölu bifreiðanna. Með hliðsjón af öllum þessum aðstæðum vildi ég því mjög fara fram á það við hv. þd., að hún féllist ekki á þessa breyt. og frv. yrði samþ. eins og það er flutt og eins og það var samþ. einróma í hv. Ed.