30.03.1971
Neðri deild: 77. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

231. mál, tollskrá o.fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Mér þykir mjög fyrir því, að hæstv. fjmrh. skyldi í lok ræðu sinnar leggjast gegn þessari litlu till. okkar á þskj. 579, því hún er í alla staði sanngjörn og vel til þess fallin, að frv. hefði þá þann svip, sem hún leggur til. Eins og ég hef áður getið í sambandi við umr. um þetta mál, þá er það mjög óeðlilegt að hafa þetta styrktarform, eins og gert er í frv. hæstv. ríkisstj. Hér er gengið inn á sömu prósentu og þar er lagt til og einnig inn á sömu tölu bifreiða eins og lagt var til í frv. hæstv. ríkisstj. Það, sem á milli ber, er að binda þetta ekki við ákveðna fjárhæð, eins og hæstv. fjmrh. gerir, og hafa ekki þennan styrktarsvip á því, sem þarna er gert. Enda þótt ég hafi litla von um, að um verði þokað hér, fyrst hv. fjhn. féllst ekki á það, að frv. yrði með þessum hætti, þá er það mín von, að fyrr en seinna verði hægt að koma þessum málum fyrir á þann hátt, sem ég tel réttlátt og sanngjarnt, að þessi atvinnustétt sé metin á sama hátt og aðrar atvinnustéttir, t. d. vörubifreiðastjórar, og með þeirra mál verði farið á þann hátt. Að því verður unnið, þó það hafi ekki tekizt að þessu sinni.