11.03.1971
Efri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

250. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Breytingar þær, sem hér er lagt til að gera á lögum um stimpilgjald, eru í samræmi við breytingar þær, sem munu verða á næstunni á fasteignamati. Það liggur í augum uppi, að ef ekki yrði breytt þeim prósentutölum, sem eru í lögum um stimpilgjald, mundi verða um að ræða geysilega hækkun á stimpilgjaldi, en minna má á, að í bráðabirgðaákvæði, sem fylgir lögum um hið nýja fasteignamat, er gengið út frá því, að þegar það taki gildi, verði endurskoðuð ýmis lög, sem miða við fasteignamat, á þann veg, að gjöld þessi verði sem næst óbreytt áfram í krónutölu, þrátt fyrir hækkun matsgrundvallarins. Nú er að vísu ekki hægt að binda Alþ. með ákvæði sem þessu, en varðandi stimpilgjaldslögin hefur þó þessu sjónarmiði verið fylgt, vegna þess að gengið er út frá því í lögunum eða þessu frv., að sem næst sömu tekjur verði af stimpilgjaldi eins og nú eru raunverulega.

Ég skal aðeins í fáum orðum gera grein fyrir því, hvaða breytingar felast í þessu frv. Út af fyrir sig má segja, að það væri engin ástæða til þess að breyta lögum um stimpilgjald, vegna þess að það er meginreglan, að eignarheimildir af fasteignum skuli stimpla miðað við það raunverulega söluverðmæti, sem liggur þar að baki. Ef þessu hefði verið fylgt, þá væri auðvitað engin ástæða til þess að umbreyta lögum um stimpilgjöld. En það eru ákvæði í lögum um stimpilgjald þess efnis, að ef ekki sé tilgreint söluverð eignar, þá skuli miða við fimmfalt fasteignamat. Ég hygg, að reyndin muni vera sú, vegna þess hve fasteignamatið var lágt — og þar af leiðandi var stimpilgjaldið með þessu móti miklum mun lægra heldur en eftir aðalreglunni, — að þessari aukareglu hafi í langflestum tilfellum verið fylgt. Og það er í rauninni gengið út frá því, að svo hafi verið í þeim breytingum, sem nú er lagt til að gera á þessari reglu varðandi stimpilgjald af eignaskjölum eða afsali fyrir fasteignum, en tillagan í frv. er um það, að í stað 2% stimpilgjalds, sem nú er, verði stimpilgjaldið aðeins 0.5%. En það er nánast sama upphæð í krónutölu eins og ef það hefði gilt í öllum tilfellum, að miðað væri við fimmfalt gamla fasteignamatið.

Hér er því í rauninni ekki um neina breytingu að ræða og vona ég því, að ekki þurfi um þetta neinn ágreiningur að verða. En þessu til viðbótar er lagt til að stórlækka stimpilgjald af skipum. Með þau hefur verið farið að vissu leyti sem fasteignir, en þó þannig, að þau hafa ekki neitt hliðstætt mat, heldur hefur verið í öllum tilfellum miðað við raunverulegt söluvirði þeirra, og reyndin hefur orðið sú, að í mjög mörgum tilfellum hefur eignarheimildum eða heimildum vegna eignayfirfærslu á skipum alls ekki verið þinglýst, til stórbaga í viðskiptum, vegna þess hve stimpilgjaldið hefur verið hátt. Að vísu var fellt niður fyrir 2–3 árum síðan það sérstaka álag, sem var á stimpilgjaldi fyrir afsali á skipum, en hér er gengið enn lengra og lagt til, að það verði aðeins fjórði hluti af því, sem það er nú, eða lækki úr 1% í 0.25%. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, — og það er til að auðvelda endurskipulagningu fyrirtækja, — að ef eigandi að skipi — raunar á það við fleira en skip, fasteignir einnig, — gerist aðili að nýju fyrirtæki eða félagi um eignarhald á þessum eignum, þá skuli stimpilgjald ekki reiknast af þeim hluta í hinu nýja fyrirtæki, sem svarar til eignarhluta hans í fyrirtækinu. Þetta mun koma víða til góða og er í samræmi við þá stefnu að auðvelda bæði samruna fyrirtækja og að menn geti breytt atvinnurekstri sínum í hagfelldara horf með því t. d. að breyta einkarekstri í hlutafélag, eftir því sem ástæða þykir til.

Þá er gerð sú breyting, að gert er ráð fyrir, að framsal á skuld, þó um nafnbréf sé að ræða, verði ekki stimpilskylt svo sem verið hefur og verði látin gilda sama regla eins og er um framsal á handhafabréfi, því að það framsal er að sjálfsögðu ekki stimpilskylt og ekki framkvæmanlegt að koma þar við stimplun. Það er til þess, að jöfnuður verði hér á milli.

Þá er og breytt nokkuð þeim hörðu viðurlögum, sem eru við því að stimpla ekki skjöl í tæka tíð og geri ég ekki ráð fyrir, að um það þurfi að verða ágreiningur.

Svo sem frv. þetta er hugsað og þar sem niðurstaðan í því eru kjarabætur verulegar fyrir alla þá aðila, sem þurfa að greiða stimpilgjald og sem mundi ella verða aukin greiðsla hjá vegna hins nýja fasteignamats, þar sem enn fremur er hér um beinar kjarabætur að ræða fyrir ýmsa aðila, sem ég veit, að margir hv. þm. bera fyrir brjósti og hér hefur verið ymprað á áður, svo sem í sambandi við afsal skipa, þá vonast ég til þess, að þetta frv. geti hlotið greiða meðferð hér á Alþ., en það er nauðsynlegt, að það fái afgreiðslu áður en þessu þingi lýkur, þar sem nýja fasteignamatið mun taka gildi innan skamms. Þarf ég ekki að lýsa þeim afleiðingum, sem það mundi hafa, ef ekki væri búið að lögfesta þær breytingar, sem hér er gert ráð fyrir, þegar fasteignamatið tekur gildi.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.