24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

5. mál, áfengislög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér við þessa umr. um frv. þetta að flytja skrifl. brtt. við það frv. til l. um breyt. á áfengislögum, sem hér er til meðferðar. Þessi brtt. er í því fólgin, að á eftir 1. gr. komi ný gr., svo hljóðandi:

„2. mgr. 7. gr.l. orðist þannig:

Ríkisstj. er heimilt að leyfa tilbúning öls til sölu innanlands og útflutnings, sem hafi inni að halda allt að 41/2% vínanda að rúmmáli. Framleiðslugjald af áfengu öli skal ákveðið, í lögum um gjald af innlendum tollvörutegundum. Nánari ákvæði um meðferð og sölu á áfengu öli skal setja í reglugerð. Áfengt öl, sem selt er innanlands, lýtur sömu lögum um meðferð og sölu og annað áfengi.“

Þótt ég flytji þessa skrifl. brtt. nú svo seint við umr. þessa máls, skal ég fúslega viðurkenna, að það er m.a. vegna þess, að ég hef ekki óskað eftir því, að upp hæfust neinar sérstakar umr. um málið. Það hefur margoft verið efnislega rætt hér á Alþ. á undanförnum árum, og ég geri ráð fyrir því, að sá mikli fjöldi nýrra þm., sem hér hefur tekið sæti, hafi sínar fastmótuðu skoðanir á þessu máli, eins og reyndar þjóðin virðist hafa öll, þannig að umr. í sjálfu sér, efnislegar umr. um málið, mundu ekki hér valda neinum stórbreytingum meðal hv. þm. Hins vegar tel ég, að það sé rétt vegna hingaðkomu hins mikla fjölda nýrra þm., eins og ég tók fram áðan, að þeir fái þá að láta skoðun sína í ljós á þessu máli.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu lengri, nema sérstakt tilefni gefist til. Ég vil aðeins undirstrika það, sem kemur fram í síðari hluta till., að ef samþykkt yrði, og þetta eru heimildarákvæði fyrir ríkisstj., sem þarna er um að ræða, og framkvæmt, þá mundi slíkt öl af þessum litla styrkleika lúta sömu lögum og reglugerðum og annað áfengi og njóta sömu meðferðar. Það er því út í hött að hefja umr. um það, að þetta mundi verða til sölu í hvaða öldurhúsi eða búð sem fyndist í kaupstöðum landsins eða annars staðar. Þetta mundi sæta sömu meðferð og annað áfengi, sem sagt, það væri Áfengisverzlunin, sem það seldi, og þá þau veitingahús, sem til þess hefðu leyfi.

Herra forseti. Ég veit, að till. er of seint fram borin, og það þarf að sjálfsögðu að leita afbrigða fyrir henni, og ég vil óska þess, að þeirra verði leitað, þannig að hún geti þá legið fyrir hér til umr. og atkvgr.