01.11.1971
Efri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

11. mál, stöðugt verðlag

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal fyrst víkja að þessari fsp. frá hv. 1. landsk. þm. En hann spurðist fyrir um það, hvað liði afskiptum ríkisstj. af vinnutímastyttingu og framkvæmd fyrirheits um orlofslengingu. Þessu er því til að svara, að það voru settar nefndir tvær til þess að athuga þessi mál, sem skipaðar voru fulltrúum frá ríkisstj., frá vinnuveitendum og frá verkalýðssamtökum, og þær hafa unnið að þessum málum síðan. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að störf þessara nefnda séu vel á veg komin. Og ég vil segja það, að unnið hefur verið að þessu máli í samræmi við það, sem þessir tveir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, vinnuveitendur og verkalýðssamtök, óskuðu eftir, og vinnubrögðunum hefur verið hagað samkv. því, og það var talið eðlilegt, að þessir aðilar ræddust við um þessi efni og það væri kannað, hvort ekki væri hægt að fá samstöðu um það, áður en löggjöf væri um það sett, því að það er svo, að þó að skýrt séu tekin fram aðalatriðin í þessu sambandi, um vinnutímastyttingu og orlofslengingu, þá eru þar ýmis framkvæmdaatriði, sem þurfa að koma til athugunar í sambandi við þessi mál, og þess vegna æskilegt, að leitað sé eftir samkomulagi og samstarfi aðila um það, þannig að hægt sé að framkvæma þetta á þann hátt, að sem liðugast sé fyrir háða aðila. Og í þeim anda hefur verið unnið að þessu máli. Og óhætt er að segja það, að það stendur ekkert á þessum atriðum. Samningsumleitanir hafa staðið nokkurn tíma, en þó náttúrlega alls ekki lengri tíma en átt hefur sér stað æ ofan í æ, og sú tímalengd, sem til þessara samninga hefur farið til þessa, er ekki á neinn hátt óeðlileg, þar sem hér er um mjög umfangsmikla samningagerð að tefla.

Ræða hv. 2. þm. Norðurl. e. gefur mér nú í sjálfu sér ekki tilefni til neinna aths. Hann lýsti fylgi við þetta frv., og aðalefni ræðu hans var um hið liðna. Þar kenndi að vísu nokkurra sárinda, að við hefðum talað illa um þessa verðstöðvun á sínum tíma, talið hana sýndarmennsku, talið hana lítinn vanda leysa, talið hana skjóta vandanum á frest o.s.frv. Ég skal ekki fara langt út í það að rifja slíkt upp, en e.t.v. hefur nú ástæðan til þess, að þessar ráðstafanir voru nokkuð tortryggðar í höndum fyrrverandi ríkisstj., verið sú, að þeir flokkar, sem stóðu að þeirri stjórn, höfðu áður gripið til verðstöðvunar, sem svo var kölluð, undir svipuðum kringumstæðum. og þá hafði í þeirri kosningahríð 1967 verið látið í það skína, að allur vandi væri leystur með verðstöðvun. Við sögðum hins vegar, að þarna væri bara um kosningavíxil að ræða, sem félli í gjalddaga að kosningunum loknum, og það reyndist rétt, því að sá kosningavíxill féll í nóvembermánuði það ár. Þá var gengið fellt, eins og allir vita, og það er sjálfsagt afsakanlegt, þó að mönnum hafi dottið þessi reynsla í hug í sambandi við þessa síðustu verðstöðvun. Sú gáta verður aldrei leyst, úr því sem komið er, hvernig farið hefði verið að, ef fyrrverandi ríkisstj. hefði haldið velli, hvort hún hefði þá framlengt þessa verðstöðvun með þeim hætti, sem við höfum nú gert, eða ekki. Hitt liggur ljóst fyrir, að hún miðaði sína verðstöðvun við 1. sept. og miðaði þær ráðstafanir, sem gerðar voru til þess að halda uppi þeirri verðstöðvun, við það tímamark. Við höfum sjálfsagt minnzt á það líka í kosningabaráttunni, að okkur fyndist það einkennilegt, úr því að verðstöðvun væri svona mikið þjóðráð fyrir kosningar, hvers vegna til hennar væri ekki gripið endranær. Það skal ég nú annars láta liggja á milli hluta. En þó að við hefðum vissulega vissa tortryggni í huga í sambandi við þessi verðstöðvunarlög, þegar þau voru sett í öndverðu, þá var það samt sem áður svo, að við lýstum okkar fylgi við það „prinsip“, sem þar í fólst, við vildum það og sögðum það, að það gæti verið rétt og eðlilegt að gripa til verðstöðvunar á tilteknum tíma til þess einmitt að fá vissan umþóttunartíma til þess að gera ráðstafanir, sem nauðsynlegar þættu. Hins vegar er það rétt, eins og hv. þm. minntist á, að við vorum andvígir þeim ákvæðum, sem voru í verðstöðvunarlögunum varðandi vísitöluskerðinguna, við töldum það mjög óheppilegt að koma þannig eftir á, skömmu eftir að kjarasamningar höfðu verið gerðir eftir miklar deilur, og grípa inn í þá með þessum hætti og taka þessi vísitölustig. Það er í rauninni engin vörn í því máli, þó að það hefði verið hægt að segja það, að það væri ekki um mikið að ræða. Það er aðferðin, sem hér skiptir máli, því að ef hún á annað borð er viðurkennd og til hennar grípið, þá má auðvitað alltaf fara lengra og ganga á lagið í þessu efni. Það er óverjandi af löggjafanum að koma eftir á og ætla að hreyta gerðum kjarasamningum, og það var þetta atriði, sem var ástæða til þess að við gátum ekki léð verðstöðvunarlögunum, eins og þau voru í sinni upprunalegu mynd, fylgi. Þetta þarf raunar ekki að rifja upp, því að þetta kom a.m.k. óbeint fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. En hitt er svo rétt og stendur enn, sem við sögðum á sínum tíma, að auðvitað er verðstöðvun, sem svo er kölluð, ein út af fyrir sig ekkert þjóðráð, hún leysir í sjálfu sér engan vanda, hún getur skotið vandanum á frest. Og það er í því sambandi aðeins rétt að staldra við og átta sig á því, hvað það er í raun og veru, sem kallað er verðstöðvun. Það er tvennt, sem verðstöðvun, sem svo er kölluð, byggist á. Annars vegar strangt verðlagseftirlit. Það er nú. Og á hinn bóginn, að verðlagi er haldið niðri með niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Í þessu er þessi svokallaða verðstöðvun fólgin. Það er ekki til neitt, sem heitir alger verðstöðvun. Það er auðvitað ekki hægt að binda allt fast þannig, þrátt fyrir það að við segjum, að nú sé verðstöðvun og þessi verðstöðvunarlög gildi, þá er það auðvitað svo, að það verður að leyfa og taka til greina hækkanir á ýmsum sviðum, fyrst og fremst auðvitað vegna hækkunar á vörum, sem koma erlendis frá og hafa þar hækkað í verði. Hitt er svo, að það er haldið niðri verðlagi með niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Það er ekki nýtt ráð. Það hefur verið notað áður, en ég býst nú við því, að flestir muni játa, að því séu takmörk sett, hversu langt er hægt að ganga á þeirri braut.

Hv. þm. minntist á hrollvekju, sem hefði verið spáð á haustdögum. Ekki getum við nú hælt okkur af því, að við höfum fundið upp þá nafngift, heldur er hún fundin upp í herbúðum hv. 2. þm. Norðurl. e. En þaðan getur líka ýmislegt gott komið, og ég hygg nú, að þegar alls er gætt, þá megi það til sanns vegar færa, að hér sé við allmikla hrollvekju að glíma í efnahagsmálum. Ég játa það a.m.k., að þó að þessi verðstöðvun hafi verið framlengd til áramóta, þá hefur vandi efnahagsmálanna ekki verið leystur, og ég tel alveg rétt að segja það, að ég tel við mikinn vanda að glíma í efnahagsmálum þjóðarinnar einmitt nú. Og ég tel mér enga minnkun í því að játa það, að ég hef ekki neitt lausnarorð eða þjóðráð til þess að leysa þann vanda. En ég tel eftir atvikum, að það sé eðlilegt að framlengja þessa verðstöðvun til þess að fá meira svigrúm til þess að athuga þessi mál. Ég held, að það komi ekki til mála að fella niður niðurgreiðslur í einu vetfangi eða með neinni skyndingu. Ég held, að öll slík stökk séu óheppileg. En hitt held ég, eins og ég sagði áðan, að allir hljóti að sjá og skilja, að því eru takmörk sett, hve langt er hægt að ganga í þessu efni, og þess vegna er það hrollvékja, sem enn er við að eiga, hvernig við eigum að komast út úr þessu kerfi, sem við erum orðnir hálfgerðir fangar og ég vil segja algerir fangar í.

Hv. þm. vék að því, að okkar stefna í efnahagsmálum væri ekki glögg, já, raunar, að við hefðum nú eiginlega enga stefnu sýnt í efnahagsmálum. Það held ég, að sé nú ofsagt hjá hv. þm. Við segjum í okkar stjórnarsáttmála „ (Gripið fram í.) Það væri ekki komið fram, já, þá vil ég leiðrétta það einnig, vegna þess að við segjum í okkar stjórnarsáttmála, að við viljum hafa hemil á verðbólguþróuninni og reyna að halda henni í þeim skefjum, að hún fari ekki fram úr því, sem tíðkast eða á sér stað hjá okkar helztu viðskipta- og nágrannaþjóðum. Það er verðbólga allt í kringum okkur. Ég held því miður, að við verðum að horfast í augu við það, að það verður erfitt að halda verðbólgu hér á Íslandi á næstunni algerlega niðri, það held ég. En það getur verið unnt, ef rétt er á haldið, að halda henni innan einhverra viðráðanlegra marka. En við höfum nú ekki sett markið hærra en þetta, og það er kannske ekki alltaf nóg að setja fram sína stefnu í stuttum fullyrðingum. Sú var tíðin, að viðreisnarstjórnin lýsti því yfir í fáum orðum og skýrt, að hennar markmið væri stöðvun verðbólgu. En það gengur stundum illa að standa við þau skýru stefnuskráratriði. Það reyndist viðreisnarstjórninni næsta erfitt að því er verðbólguna snerti, vegna þess að hún óx nú með þeim hætti, sem hér þarf ekki að rekja, í hennar tíð.

Nei, það er mikill vandi í þessum efnahagsmálum. Það er mikið þensluástand í okkar þjóðfélagi, sem ekki þýðir að loka augunum fyrir, og ég held, að það væri blekking að vera að segja fólki, að það sé hægt að halda öllu verðlagi alveg í nákvæmlega sömu skefjum og verið hefur. En vitaskuld er það rétt, sem hv. þm. sagði, að þessi mál skýrast auðvitað ekki til fulls fyrr en gerðir hafa verið þeir kjarasamningar, sem nú er verið að vinna að.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að hafa jafnvægi í þjóðarbúskap og að því hlýtur hver stjórn að stefna. En þar geta þó ýmis atriði komið til greina, sem gera það e.t.v. að verkum, að það sé erfitt að halda alveg því gullna jafnvægi. Það er eitt, sem flestir virðast í orði vera sammála um hér á landi, og það er, að verðbólgan sé slæm. En ég hef nú stundum verið að velta því fyrir mér, hvort það fylgdi alveg hugur máli hjá öllum, sem þannig taka til orða. Ég er ekki viss um það. Og sannleikurinn er sá, að ef um, við skulum segja, er að velja eða þyrfti að velja á milli þess, hvort það væri einhver, ja, við skulum segja kannske hæfileg verðbólga og svo full atvinna, gott atvinnuástand, þá hygg ég nú, að flestir mundu kjósa gott atvinnuástand, nægilega atvinnu. Ég hef sem sagt ekki og vil ekki gefa nein fyrirheit um það, að það sé hægt að stöðva hér alveg verðbólgu á næstunni, en að hinu vil ég vinna eða reyna að vinna, að það verði hægt að hafa nokkurn hemil á henni. En hitt er ljóst, að þessi verðstöðvunarframlenging er engin frambúðarlausn, og jafnvel þó að svo kynni að fara, að það verði talið rétt að framlengja hana enn um sinn fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í þessum lögum, þá er það engin endanleg lausn.

Ég vil aðeins undirstrika það út af því, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, þar sem hann talaði um það, að ríkisstj. hefði í sínum samningi gefið fyrirheit um 20% kaupmáttaraukningu á 2 árum. Ég vil enn undirstrika það, sem ég hef reyndar orðið að gera sums staðar áður, að í sáttmálanum er þetta takmarkað við tiltekna aðila og þá, sem settir verða á hekk með þeim, þá lægst launuðu í þjóðfélaginu. En við höfum aldrei sagt, að það ætti að vera almennt yfir alla heilu línuna.

Það má vel vera, að það hafi ekki skýrzt til fullnustu fyrir hv. 2. þm. Norðurl. e., í hverju efnahagsstefna ríkisstj. er fólgin, en ég vona þó, að ég hafi bent honum á nokkur atriði í því sambandi. Svo kemur hún sjálfsagt smám saman á daginn. Þá vona ég, að það fari svo, eins og um þetta frv., að hv. þm. geti lýst yfir fylgi sínu við þær ráðstafanir, sem þá verða gerðar, og læt ég mig þá litlu skipta, hvort hann telur, að þar sé farin sú sama braut, sem fyrri stjórn hafi ætlað að fara, eða ekki.

En viðvíkjandi því, sem hann spurði um, hvað lægi í tilteknu orðalagi í aths., sem fylgja með fjárlagafrv., þá get ég raunar ekki sagt um það annað en það, sem felst í orðunum og mér finnst nú nægilega skýrt, að niðurgreiðslukerfið skuli tekið til endurskoðunar. Ég get þó sagt það, að í þessu felst ekki nein sú ráðagerð, sem hann var með bollaleggingar um, að ríkisstj. væri að velta því fyrir sér, hvort ekki mætti gera einhverja hagræðingu á vísitölunni eða vísitöluútreikningi. Það liggur ekkert slíkt í þessu orðalagi. En ég held, eins og ég hef lítillega minnzt hér á áður, að níðurgreiðslurnar og niðurgreiðslukerfið eins og það er orðið hljóti að vera mönnum umhugsunarefni, og menn hljóti að taka það til athugunar, hvort og með hverjum hætti er hægt að komast út úr því. Eins og ég hef sagt, þá tel ég útilokað, að það sé hægt að komast út úr því kerfi með einhverjum skyndiráðstöfunum, og ég tel, að það verði að standa a.m.k. fyrst um sinn. En hitt er alveg víst, að þegar jafnmikill hluti af tekjum ríkisins og jafnmikill hluti af fjárlögum er orðinn bundinn með þessum hætti, þá er það vissulega íhugunarefni, hvort svo geti staðið áfram, auk þess svo sem þetta kerfi hefur tilhneigingu til þess að hlaða meiru og meiru á sig og hefur og hlýtur að hafa ýmsar hliðarafleiðingar, ef svo má segja, sem ekki eru allar góðar, enda þótt menn hafi ekki í bili getað komið auga á annað úrræði heldur en halda þeim og halda með þeim hætti verðlagi í nokkrum skefjum, hæði vegna neytenda og atvinnurekstrarins, því að skyndibreytingar í þessum efnum mundu koma sér jafnilla í raun og veru fyrir báða aðila og valda stórfelldri röskun hjá þeim báðum. Ég hafði nú, herra forseti, ekki gert ráð fyrir því, að hér mundu verða miklar umr. um þetta mál, þar sem menn eru sammála um það frv., sem hér liggur fyrir, og vafalaust verður eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. vék að, tækifæri til þess síðar að ræða almennt um efnahagsmálin, bæði í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og eins af öðrum tilefnum.

Eins og ég sagði, var í raun og veru ekkert í ræðu hv. þm., sem gaf mér tilefni til beinna aths., en þetta hafa svona verið hugleiðingar í tilefni af því, sem fram kom hjá honum.