24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

5. mál, áfengislög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson); Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að hefja neinar umr. um efni þessarar till., en vil aðeins koma á framfæri smáaths.

Þegar ég mælti fyrir þessu frv. á sínum tíma, tók ég það skýrt fram, að sú breyt., sem í því felst, er eingöngu gerð vegna þess, að hún er talin nauðsynleg vegna aðildar okkar að EFTA. Og ég tók það ennfremur fram, að þarna væri alls ekki um að ræða innflutning áfengs öls. Ég tel, að till. hv. 10. þm. Reykv. feli í sér meginbreytingu, eins og öllum má vera ljóst. Ég tel, að það hefði verið eðlilegra, að hún hefði komið fram á fyrri stigum þessa máls, en sé ekki fyrst borin fram við 3. umr. um málið í síðari deild. Ég verð satt að segja að láta í ljós, að ég tel það mjög óeðlilega meðferð, og mér mundi þykja rétt og eðlileg vinnubrögð hjá hv. þm. að taka þessa till. aftur og hreyfa síðan þessu máli með eðlilegum og þinglegum hætti. Ég hef ekkert á móti því, að um þetta mál fari fram umr. En mér finnst það nokkuð vera farið aftan að siðunum að ætla að hafa þennan hátt á.

Ég vil aðeins skjóta þessu fram, en ætla, eins og ég sagði, ekki á þessu stigi og eins og þetta mál ber nú að að fara að ræða efnislega um það, sem felst í þessari tillögugerð hv. 10. þm. Reykv.