02.02.1972
Neðri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

11. mál, stöðugt verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Hæstv. forsrh. vék sér undan því af hógværð og kurteisi að svara því, sem hann hlaut þó að átta sig á, að væri efni minnar fsp. Að sjálfsögðu er okkur báðum það jafnljóst, að lækki verð vöru eða þjónustu, sem gengur inn í grundvöll vísitölu, þá lækkar hún, og hækki verð vöru eða þjónustu, sem tekið er þar tillit til, þá hækkar hún. Það er því alveg augljóst mál, að auðvitað hækkar vísitalan í kjölfar þeirrar hækkunar á búvörum, sem varð 1. jan. s.l. Það er hafið yfir allan efa og það hefur enginn dregið það í efa, að slíkt mundi gerast. Það er hitt, sem ég var að spyrja um, hvort það væri enn jafnbjargföst skoðun hæstv. ríkisstj. og það var bjargföst skoðun hæstv. fjmrh. í des., að breyting á skattkerfinu mundi leiða til svo mikillar lækkunar á vísitölunni, að væntanleg hækkun búvöruverðs mundi ekki hækka hana nettó. Ég var ekki að spyrja hann um það að neinu leyti, hvað kauplagsnefnd mundi gera. Mér hefur alltaf verið það ljóst, að þar hefur ríkisstj. ekkert húsbóndavald, þó að mér finnist mörg ummæli í des. hafa bent til þess, að ríkisstj. hafi haldið, að hún mundi hafa það eða talið sig vita fyrir fram, hvað kauplagsnefnd mundi gera.

Nei, hitt var mergurinn málsins og ég harma það, að ekki skuli hafa fengizt skýrari svör hjá hæstv. forsrh. en raun bar vitni um, hvort stefna hæstv. ríkisstj. sé enn sú, að það væri rétt, að skattkerfisbreytingin leiddi til 3.7% lækkunar á vísitölunni, þannig að launþegar verða að bera búvöruhækkunina, sem orðin er, og aðra hækkun, sem orðin er, bótalaust. Þessu svaraði hæstv. forsrh. ekki. Ég skal ekki deila á hann fyrir það, því að meðan hann svarar ekki skýrar en hann hefur gert, þá vil ég vona, að það beri vott um, að ríkisstj. hafi áttað sig á því, að hæstv. fjmrh. fór með rangt mál í fjárlagaumr. í des., a.m.k. ósanngjarnt mál í garð launþega.