22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

227. mál, virkjun Lagarfoss

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. 16. des. 1970 var ríkisstj. heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Lagarfoss á Fljótsdalshéraði í allt að 8 þús. hestafla orkuveri. Á s.l. sumri voru vélar til virkjunarinnar boðnar út, og var þá miðað við þá vélastærð, sem lögin gera ráð fyrir. Hagstæðustu vélartilboðin bárust hins vegar frá Skodaexport í Tékkóslóvakíu, og þau reyndust hagstæðust að verði, enda þótt stærð á túrbínu þeirri, sem boðin var, væri 10 þús. hestöfl. Nú hafa verið undirritaðir samningar við Skodaexport um vélar til Lagarfossvirkjunar samkv. heimild í bréfi iðnrn. og þ. á m. um 10 þús. hestafla túrbínu og rafala með samsvarandi afkastagetu. Rafmagnsveiturnar telja ástæðu til þess að afla viðbótarheimildar Alþ. um virkjunarstærð, svo að hægt verði að nýta þessa stækkun véla að fullu.

Þess skal getið, að þessi stækkun á vélum Lagarfossvirkjunar hefur ekki í för með sér neinar breytingar á gerð mannvirkja né heldur á vatnsborði Lagarfljóts.

Þetta er það einfalda atriði, sem felst í þessu frv., og vænti ég þess, að hv. Alþ. geti fljótlega afgreitt það.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.