24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

5. mál, áfengislög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér hef ég ekkert við þá till. að athuga, sem hv. 1. þm. Reykv. kom hér fram með, að málið fari til n. til athugunar, að svo verði á því haldið. Hins vegar vil ég benda á það, að það, sem í frv. felst, er till. um að leyfa innflutning á öli, sem telst samkv. íslenzkum lögum óáfengt. Ég er hins vegar að leggja hér til, að leyfður verði tilbúningur á öli, sem er áfengt eftir skilgreiningu íslenzkra laga og fellur þess vegna algerlega og eingöngu undir ákvæði íslenzkra laga þar um.

Vegna orða hæstv. forsrh. um það, að eðlilegt hefði verið að hreyfa málinu með þinglegum hætti, er mér spurn, og ég leyfi mér að varpa þeirri spurningu til hæstv. forseta d.: Er ekki þinglega farið að með þessa till.? Er hún ekki samkv. þingsköpum? Og er eitthvað óeðlilegt við að flytja skrifl. brtt. við 3. umr. máls?