14.02.1972
Efri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

169. mál, lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Sem einn af meðlimum niðursuðunefndar, sem svo er nefnd í grg. með þessu frv., vil ég segja örfá orð. Ég vil staðfesta það, sem kom fram hjá hæstv. iðnrh., að um mál þetta var eining í nefndinni. Þó vil ég minnast á aðeins tvö atriði, sem ég vil fyrst og fremst beina til þeirrar n„ sem fær málið til meðferðar.

Það er í fyrsta lagi það nýyrði, sem þarna er upp tekið. Ég skal viðurkenna, að ég fann ekkert betra, þegar þetta var rætt í nefndinni, og það má vel vera, að það venjist. Ég er ekki að segja það, en ég hygg, að við höfum allir verið sammála um það í nefndinni, að þetta ætti að skoða mjög vel. Það er e.t.v. dálítið viðameira heldur en liggur í loftinu að festa í lög nýnefni sem þetta. Ég vil því eindregið beina því til n., af því að það vannst nú ekki tími til að gera það hjá okkur í nefndinni eins og við hefðum viljað, að það verði leitað formlega álits þeirrar nefndar við Háskóla Íslands, sem um nýyrði fjallar. Ég held, að það væru rétt vinnubrögð.

Og svo vil ég aðeins minnast á eitt annað atriði. Það er í 2. gr. Þar segir svo:

„Jafnframt hefur verksmiðjan forustu um tilraunastarfsemi á þessu framleiðslusviði undir leiðsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.“

Ég gerði aths. við þetta og varpaði fram þeirri spurningu, hvort það væri rétt, að verksmiðjan hefði forustu. Með lögum frá 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, hygg ég að segja megi, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sé falin forusta um tilraunastarfsemi á sviði niðursuðu- og niðurlagningariðnaðarins. Þetta held ég, að þyrfti að kanna hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, og sýnist mér raunar, að sama tilgangi væri náð, ef þessi gr. væri orðuð t.d. þannig: Jafnframt annast verksmiðjan tilraunastarfsemi á þessu framleiðslusviði undir leiðsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.

Ég vil minnast á þetta. Ég gerði engan ágreining í nefndinni um þetta, en kom þar með þessa aths. og sýnist rétt að endurtaka hana hér.