27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

169. mál, lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. alþm. Pétri Péturssyni og Pálma Jónssyni fyrir ákaflega jákvæðar undirtektir við þetta frv. Mér er vissulega kunnugt um þann ágreining um rekstursform, sem hv. þm. Pálmi Jónsson gerði hér grein fyrir áðan, og ég held, að nú sé hvorki staður né stund til þess að við förum neitt að þrátta um slík form. Eins og hv. þm. gat um áðan, þá kom fram frv. hér í þinginu í fyrra um, að þetta fyrirtæki yrði byggt upp í hlutafélagsformi, en sú hugmynd strandaði hreinlega á því, að hluthafar virtust ekki vera tiltækir, og m.a. taldi bæjarstjórn Siglufjarðar sig ekki hafa fjármagn til þess að standa að slíku hlutafélagi. Ég minni á þetta aðeins til þess að rifja þetta upp, en ekki vegna þess að ég vilji vekja um það neinar deilur. En ég vil benda á það, að í frv. er gert ráð fyrir því, að þetta fyrirtæki, enda þótt það sé ríkisfyrirtæki, sé tengt alveg sérstaklega við Siglufjörð. Það má kannske um það deila, hvort það sé eðlilegt, að ríkisfyrirtæki sé tengt svo mjög þeim stað, sem því er komið fyrir á, en samkv. 5. gr. er gert ráð fyrir því, að meiri hl. stjórnar séu Siglfirðingar. Það er gert ráð fyrir því, að bæjarstjórnin kjósi eða tilnefni einn mann í stjórnina, að starfsfólkið, sem eru að sjálfsögðu Siglfirðingar, kjósi einn mann í stjórnina og að maður sá, sem ráðh. tilnefnir, verði að vera búsettur í Siglufirði, þannig að það er gert ráð fyrir því í frv., að tengsl þessa fyrirtækis, þó að það sé ríkisfyrirtæki, verði mjög sterk við Siglufjörð.