05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

169. mál, lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Það mál, sem hér um ræðir, er komið frá Ed. Iðnn. þessarar hv. d. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir eftir smávægilegar breyt., sem gerðar voru í hv. Ed.

N. hefur kynnt sér þær umsagnir, sem hv. Ed. höfðu borizt eða iðnn. þeirrar d. Það er fyrst frá bæjarstjórninni í Siglufirði. sem lýsir stuðningi sínum við meginefni frv., en er með smávægilegar brtt., svo sem eins og að fyrirtækið greiði gjöld til bæjarsjóðs eftir sömu reglum og gilda á hverjum tíma almennt um atvinnurekstur. Þetta er komið inn í frv. nú. Þá er umsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, sem segist ekkert hafa fundið athugavert, hvorki við lagafrv. né brtt. Og loks er umsögn frá Síldarverksmiðjum ríkisins, þar sem meiri hl. stjórnar síldarverksmiðjanna leggur til, að frv. sé samþ. Tveir nm. í iðnn. höfðu fyrirvara, þótt þeir væru efnislega samþykkir frv., og býst ég við, að þeir geri grein fyrir þeim fyrirvörum.

N. telur þetta mál mjög þýðingarmikið, ekki bara fyrir Siglufjörð, heldur einnig fyrir þau ákvæði, sem í frv. eru um að rannsóknastarfsemi skuli vera mjög mikil í þessari verksmiðju, og sé á vissan hátt þannig leiðandi fyrir þessa iðngrein í landinu.