10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

38. mál, gjaldþrotaskipti

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Um þetta nál., sem lagt er fram á þskj. 506, þarf ekki að hafa mörg orð. N. hefur haft frv., sem er stjfrv., til meðferðar. Hún hefur sent málið til umsagnar Verzlunarráði Íslands og embætti yfirborgarfógeta. Umsögn barst frá Verzlunarráðinu, en ekki frá síðarnefnda aðilanum. Í umsögn Verzlunarráðs var tekið jákvætt undir þær breytingar, sem hér koma fram, í öllum aðalatriðum, en lögð á það áherzla, að endurskoða þyrfti núgildandi lög um gjaldþrotaskipti í heild sinni og minni háttar lagfæringar að gera á einstökum atriðum, þeim, sem í þessu frv. er að finna.

Að þessum umsögnum athuguðum hefur n. mælt með samþykkt þessa frv. Frv. gerir ráð fyrir því að breyta einum kafla laganna í þá átt að gera meðferð gjaldþrotaskiptamála einfaldari og hraðari. Þessi lög, sem nú gilda og eru frá 1929, eru farin mjög að koma til ára sinna og ýmis ákvæði í þeim eru þess eðlis, að beinlínis stangast á við önnur ákvæði laga og eru enn fremur mjög til þess fallin að draga úr hraða og eðlilegri meðferð slíkra mála, sem fyrir þetta embætti, skipta réttinn, koma. M.a. og einkum hvað snertir þau ákvæði, sem hér er gert ráð fyrir, að breytt skuli, þá er sá óvenjulegi og óeðlilegi háttur á, að ef gjaldþrotaskiptamál kemur fyrir skiptarétt, skuli sjálfkrafa fara fram sakamálsrannsókn hjá viðkomandi aðila. Að vísu má segja, að mjög oft sé um að ræða misferli í sambandi við gjaldþrot, en engan veginn er það alltaf og er það þá undir rannsókn komið, hvort ástæða sé til þess, að frekari athugun fari fram á gjaldþrotaskiptamálinu hverju sinni, og þá hvort stefnt skuli eða ákært í viðkomandi máli.

Efni frv. hefur að öðru leyti verið skýrt í framsögu með frv. Ég sé ekki ástæðu til þess að útskýra það nánar, nema að gefnu tilefni, og ítreka álit allshn., sem er á þá leið að mæla með samþykkt frv.