19.04.1972
Efri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

38. mál, gjaldþrotaskipti

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta um breytingar á gjaldþrotaskiptalögum hefur gengið í gegnum Nd. og verið samþ. þar óbreytt eins og það var lagt þar fram. Þetta frv. er samið af nefnd, sem á sínum tíma var skipuð til þess að athuga skipun dómstóla, og þó aðallega af einum nm., Theódóri B. Líndal fyrrv. prófessor.

Þær breytingar, sem þetta frv. hefur að geyma varðandi gjaldþrotaskiptalögin, eru einkum um rannsókn gjaldþrotamála. Eins og er nú í lögum er það beinlínis lögboðið, að tekin skuli upp sérstök rannsókn í hvert skipti, sem um er að ræða gjaldþrotaskipti. Þetta þykir ekki að öllu leyti eðlilegt, því að þó að það sé sjálfsagt stundum svo, kannske oft, að það sé eitthvert misferli, sem átt hefur sér stað í sambandi við gjaldþrotaskipti, þá er það engan veginn svo alltaf. Og almenn regla okkar réttar er, að það eigi ekki að stofna til sakamálsrannsóknar, nema einhver grunur sé fyrir hendi um það, að eitthvert misferli hafi átt sér stað.

Í annan stað verður að játa, að þessi ákvæði um þessa rannsókn hafa ýmist að einhverju leyti e.t.v. orðið dauður bókstafur og á hinn bóginn leitt til þess eða átt sinn þátt í því, að meðferð gjaldþrotabúa hefur viljað dragast óhæfilega lengi. En eftir gildandi lögum er gert ráð fyrir því, að alltaf þurfi að taka upp rannsókn fyrir sakadómi, þegar gjaldþrotaskipti hafa átt sér stað. Nú eru gerðar breytingar á þessu, sem eru í höfuðatriðum á þá lund, að það sé ekki skylt að taka alltaf upp þannig sakamálarannsókn, heldur athugi skiptaréttur málið, kynni sér það og sendi síðan saksóknara það, ef einhver grunur er fyrir hendi um það, að um eitthvert misferli sé þarna að ræða, og síðan tekur svo saksóknari ákvörðun um það, ef ástæða þykir til frekari aðgerða í málinu. Enn fremur er það, að gert er ráð fyrir því í þessu frv., að það sé skiptarétturinn sjálfur, skiptaráðandi, sem hafi á hendi þessa frumrannsókn í málinu, þ.e.a.s. án þess að það þurfi þegar að fara til saksóknara. Það er meiningin, að með þessu verði þetta gert heldur einfaldara en verið hefur. Ég held, að það sé mjög ljós grein gerð fyrir efni frv. og þeim breytingum, sem það hefur að geyma, í grg., sem fylgir því, og sé ég ekki ástæðu til þess að vera að fara ítarlega út í það hér. Það er auðvitað ljóst, að hér er nánast aðeins breytt einum þætti gjaldþrotaskiptalaganna, en lög um skipti gjaldþrotabúa eru orðin nokkuð gömul. Þó að þau séu að formi til að vísu ekki eldri en frá 1929, þá er nú stofninn allmiklu eldri, og það er vafalaust ástæða til þess að taka lögin í heild til gagngerðrar endurskoðunar. Það hefur þó þótt rétt að hverfa að því ráði að gera breytingar á þessum þættinum, enda þótt því yrði ekki viðkomið að láta fara fram heildarendurskoðun á gjaldþrotalögunum. Og ég held, að það sé rétt spor stigið með því að gera þessar breytingar, sem hér er lagt til, að gerðar séu.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu máli sé vísað til 2. umr. og til hv. allshn., en hún hafði það til meðferðar í Nd.