13.03.1972
Efri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

210. mál, Stofnlánadeild samvinnufélaga

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv., sem gerir ráð fyrir því, að efnt verði til sérstakrar stofnlánadeildar samvinnufélaga við Samvinnubanka Íslands h.f. Gert er ráð fyrir því, að þessi stofnlánadeild verði með svipuðum hætti eins og stofnlánadeild, sem áður hefur verið lögfest og starfar við Verzlunarbankann: Hér er sem sagt um algerlega hliðstæða löggjöf að ræða.

Megintilgangur frv. er sá, að á þennan hátt skapist möguleikar til þess að veita stofnlán til samvinnuverzlunar í landinu úr þessum stofnlánasjóði, sem komið yrði á fót við Samvinnubankann. Þessi stofnlánadeild yrði undir stjórn Samvinnubankans eða undir stjórn bankaráðs bankans og bankinn hefði með alla framkvæmd þessarar deildar að gera. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að stofnlán geti numið í kringum 50% af stofnverði eignar, og lánstími sé þó ekki lengri en til 12 ára.

Vegna þess að hér er um það að ræða að koma upp stofnlánadeild, sem er algerlega hliðstæð við aðra stofnlánadeild, sem hefur verið lögfest við mjög hliðstæðan banka og starfar fyrir einkaverzlun í landinu, en þessi mun starfa fyrir samvinnuverzlunina í landinu, þá sé ég ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, en vil vænta þess, að sú n., sem mun fjalla um þetta frv., afgreiði frv. tiltölulega fljótt. Hér er um einfalt mál að ræða, þannig að það þarf ekki að vefjast fyrir, eins og því miður ýmis önnur mál, sem hér hafa gengið til n.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til fjhn. til fyrirgreiðslu.