09.02.1972
Neðri deild: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að leiða þetta mál hjá mér, þótti ekki taka því að fara að tala. En það voru örfá atriði, sem komu fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Sunnl., um þessi viturlegu lög, það væri tekið allt það bezta úr lögum um lífeyrissjóði bænda á Norðurlöndum. Það eru nú engir lífeyrissjóðir fyrir bændur í Noregi og í Danmörku, heldur er það bara einföld trygging eins og ellilífeyrissjóðirnir. Þeir eru allmiklu hærri heldur en við höfum, því að þessar lífeyristryggingar lækkuðu við gengisbreytinguna, en ég hygg, að þeir séu svipaðir og tryggingarnar verða nú eftir þær hækkanir, sem hafa farið fram. Ég hef ekki athugað það nákvæmlega, en ætla að gera það. Ég hef lög um þessi tryggingamál bæði frá Danmörku og Noregi. Hitt er rétt, að í Finnlandi er lífeyrissjóður fyrir hændur, en hann er bara miklu viturlegri heldur en lífeyrissjóður fyrir bændur hér, því að það fyrirfinnst hvergi í veröldinni önnur eins vitleysa. Þar er það þannig, að ríkið leggur til helminginn, en helmingurinn er tekinn af fasteignaverði jarða, og það er miklu einfaldara að greiða þannig heldur en vaða inn í reikning hvers einstaks bónda og reikna það sérstaklega út eftir afurðamagni, hvað hann á að borga. Þetta er margföld vinna. Hitt er ósköp auðvelt, að það sé viss prósenta af fasteignamati, sem er mjög lág, og svo leggur ríkið fram helming á móti, þannig að það er eitthvað annað en það verði tekið allt það bezta úr lögum um lífeyrissjóði Norðurlanda. Í fyrsta lagi eru þeir hvergi til nema í Finnlandi, og það er náttúrlega ekkert sambærilegt, hvað það er viturlegra þar.

Þetta var sent búnaðarfélagsformönnunum þarna norður frá. Einn formaðurinn sagði mér, að það væri ómögulegt að skilja þessa lífeyrissjóðslöggjöf, það væri ein grein af viti og það hefði verið sú síðasta, að það ætti að endurskoða lögin eftir tvö ár. Jafn vel gefinn maður og Jón Þorsteinsson er, fyrrv. þm., sagði mér það, þegar þetta lífeyrissjóðsfrv. var á döfinni, að þetta væri óskiljanleg þvæla. Annars eru kratarnir yfirleitt vel inni í þessum hlutum. En hann skildi þau ekki. Menn réttu hérna upp hendurnar og vissu ekki, hvað þeir voru að gera. Sannleikurinn er sá, að þetta lífeyrissjóðsfrv. er sú mesta endileysa, sem hugsazt getur.

Hannibal Valdimarsson, sem er vel að sér í þessum hlutum, var mér eiginlega alveg sammála, þegar ég var að tala á móti þessu, og hann lýsti því yfir hér úr ræðustól. að þessi lífeyrissjóður verkamanna verkaði alveg öfugt við það, sem ætti að gera. Þeir fengju mest, sem þyrftu þess sízt, og var eins og hann væri að fara fram á breytingar. Ég skal ábyrgjast það, að það gat enginn maður skilið lögin um lífeyrissjóð bænda, sem ekki fór í þann mann, sem samdi þau, því að þau voru óskiljanleg, þau voru svo mikil þvæla og svo vitlaus. Ég þurfti fimm sinnum að fara í tryggingafræðinginn til þess að fá skýringar, og ég álít mig í meðallagi greindan. Fimm sinnum þurfti ég að fara í hann, og varð þó ekki of sæll af, til þess að fá skýringar á hlutunum, þannig að ég skal ábyrgjast það, að það er ekki nokkurt tryggingafrv. í veröldinni, sem er öllu vitlausara, og þetta gaf mér nú tilefni til að segja nokkur orð.

Hins vegar ætla ég að taka þetta mál rækilega í gegn í vetur. Ég hef verið dálítið ónýtur að skrifa. Ég meiddi mig svolítið í handlegginn, en er að verða góður og ætla að taka þessi tryggingamál rækilega í gegn í vetur út af þál., sem ég ætla að koma með. T.d. eru þetta fáránlegar upphæðir. Stærri bændurnir eiga að borga meira, þeir, sem hafa 11/2 vísitölubú, eiga að borga 50% meira. Þetta skiptir mig engu máli persónulega. Ég er að verða það gamall og á fyrir mig, þannig að persónulega snertir þetta mig ekki. En þeir eiga að borga þriðjungi meira. Miðað við verðlagið í fyrra eru það 50 þús. á ári, því að það er ekkert nema della að halda því fram, að neytendur eigi að borga eitthvað af þessu. Í fyrsta lagi er ekki ein einasta sanngirni í því. Í öðru lagi eru afurðirnar yfirleitt seldar svo hátt sem hægt er að selja þær. Það var nú þessi rausn í fyrra að greiða svo mikið niður, að þær urðu auðseldar. Það er ekki víst, að það verði varanlegt, sú mikla geta hjá ríkissjóðnum. Þá er þetta um 50 þús. á ári, en meðalbóndinn á að greiða um 33 þús. og það er eitthvað hliðstætt hjá launþegunum. Það er um 10% af kaupinu þeirra, sem á að taka, því að það er vitanlegt, að ef atvinnurekendur þyrftu ekki að borga þessi 6% í lífeyrissjóðina, gætu þeir alveg eins borgað launþegum þessi 6%, þannig að þó að sagt sé, að það séu 4% frá launþeganum og 6% frá vinnuveitandanum, þá kemur það alveg út á eitt fyrir vinnuveitanda, hvort hann borgar þetta í kaupi eða í lífeyrissjóð. Það er enginn að tala um, að það eigi ekki að vera tryggingar, en ég hef haldið því fram, að það væri hægt að gera þær einfaldari og eðlilegri en með 33 þús. á ári í 40 ár, og þetta getur orðið meira. Þetta getur orðið 51 ár hjá verkamönnum. Þeir eiga að byrja 16 ára að borga í þetta og hætta 67 ára, en bændur eiga að byrja tvítugir og hætta 67 ára, ef þeir búa svo lengi, en ég reiknaði bara með 40 árum, þá með 50 þús. kr. á ári og 10% í vöxtum og vaxtavöxtum, því að fyrrv. ríkisstj. var nú svo ágæt að hafa háa vexti, svo að sparifjáreigendurnir fengju eitthvað upp í gengislækkanirnar. Þá er þetta hjá stærri bændunum eitthvað um 22–23 millj. kr. Ég lét Seðlabankann reikna þetta út fyrir mig og tryggingafræðing líka og lét þá bera saman, þannig að þetta væri nú alveg öruggt. Það voru ca. 23 millj. í 40 ár. Og svo á bóndinn að fá 2/3 af kaupinu sínu miðað við það, sem var eitthvað 200 þús. á ári, en 10% vextir af þessum 20 millj. eru um 2 millj. á ári, svo að hann hefur lagt allvel á borð með sér, bóndagarmurinn, til ellinnar. Hjá launþegum er það 10% af kaupinu. Ætli við gerum ekki ráð fyrir, að það sé hjá meðalbónda um 33 þús. á ári, eitthvað svoleiðis, og það er eitthvað um 16 millj., sem þeir leggja nú á borð með sér. Allt er þetta ógengistryggt. Þetta er algerlega fáránleg löggjöf, svo að hvergi þekkist í heiminum önnur eins. Ég er búinn að kynna mér ítarlega löggjöf í öðrum löndum. Það var bara mismæli hjá fyrrv. ráðh. Þeir hafa, held ég, búið til þá mestu vitleysu, sem þekkist í tryggingamálum sennilega í veröldinni í staðinn fyrir að velja það viturlegasta úr bændatryggingum á Norðurlöndum, sem engar eru nú nema í Finnlandi. Og það var ekki svo vel, að þeir tækju það upp hliðstætt, því að það er mikið vit í þeim þar, en ekkert vit í þessum hérna.

Þetta á allt að endurskoða að ári og þá þarf helzt að halda vel á spöðunum og róa í þessu. Annars er auðveldara að gera vitleysurnar heldur en afnema þær, og sú mun reynslan verða í þessu.