09.02.1972
Neðri deild: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það kom fram hjá hv. 1. þm. Sunnl., að það væru ekki sértryggingar, skildist mér, fyrir bændur í Noregi og Svíþjóð, og það er alveg rétt. Ég hef tryggingalöggjöfina frá þessum löndum og las hana. En að Guðjón Hansen hafi valið allt það bezta, það var náttúrlega ekki hægt fyrir mannaumingjann að velja neitt úr, því að þessi löggjöf var ekki til nema í Finnlandi. Þetta er ákaflega einfalt kerfi hjá Finnum og mikið vit í því. En hjá okkur er það flókið og lítið vit í því. Sá er munurinn. En ég hef löggjöfina frá Noregi og Danmörku, þannig að ég get sýnt fyrrv. ráðh. hana, ef hann rengir það, sem ég sagði um það. Þetta er einfalt kerfi þar, og ég greiddi satt að segja með ánægju atkv. með breytingum á tryggingalöggjöfinni, því að ég álít, að breytingar á tryggingalögum, sem voru lagðar fram af ríkisstj. í vetur, miði í rétta átt. Þar er gerður dálítill munur á þeim, sem hafa vinnu, og þeim, sem eru vinnulausir, og ellilífeyrisþegum eru tryggðar lágmarkstekjur og ríkið sér um þetta alveg. Kerfið er gert einfalt. Og ég álít, að þarna sé stefnt í rétta átt, en þá á bara að afnema alla þessa vitleysu. Ég álít, að það eigi að vera sameiginlegur lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn og tryggingakerfið eigi að vera einfalt. Það er miklu betra fyrir okkur að borga þetta til ríkisins í einu lagi, það sjái svo um tryggingarnar, heldur en að borga þetta eftir ótal leiðum. Ég vék að því hagræði, sem bændum er gert með því að láta þá borga með vöxtum og vaxtavöxtum frá 16 og upp í 21 millj., ef þeir reka bú í 40 ár. Það sér hver heilvita maður, hvaða hagnaður þetta er. Og ef menn þurfa einhvern tíma á fjármunum að halda, þá er það fyrstu búskaparárin, því að þá eiga allir í erfiðleikum. Norðmenn og Danir telja, að það sé eðlileg þróun í framtíðinni, ef menn fá 2/3 af venjulegum vinnutekjum, eftir að þeir eru komnir yfir 69 ára aldur. Takmarkið eigi að vera það. Það telja þeir eðlilegt og hóflegt. En með þessum tvenns konar lífeyri, ellilífeyristryggingum og sérsjóðum fyrir launþega og bændur, þá er þetta alger féfletting. Það dregur ungan mann nokkuð að greiða 30–50 þús. á ári, og það, sem menn eignast ungir, þó að það séu ekki nema fáar þús. kr., getur orðið margar þúsundir, þegar þeir verða gamlir, ef þeir halda rétt á. Hitt er rétt, að einstaka maður, sem aflar eigin fjár, er alltaf á hausnum. Það er ekkert um það að segja. Það verður þá að sjá fyrir þeim í ellinni. En mín skoðun er, að það sé eðlilegast að menn séu efnalega sjálfstæðir sjálfir.

Ef við gerum ráð fyrir, að greidd vinnulaun séu 30 milljarðar á ári, þá verða tryggingarnar 3 milljarðar á ári.

Svo á að safna þessu í 15 ár að mestu leyti, og það verða 45 milljarðar eftir 15 ár, ætli það verði ekki að viðbættum vöxtum 60–70 milljarðar, þótt einhverju smávegis verði eytt af því. Og svo á að lána þetta bændum og launþegum, og þá verður kerfið orðið þannig, að þessir lífeyrissjóðir eiga rétt allar eignir landsmanna, því að allir vilja fá lán og eyða þeim mun meiru. Einstaklingarnir verða þá fátækari en tryggingarnar ríkari, þannig að ef kommar komast einhvern tíma í meiri hluta hér á Íslandi, þá þurfa þeir ekki að gera svo ægilega mikið átak til að taka þessar reytur, sem eftir verða, svo að þetta er í raun og veru sú mesta og vitlausasta sósíalisering, sem hefur verið gerð í okkar þjóðfélagi, þó að fyrrv. stjórn yrði á að gera þetta, því að hún vissi ekkert, hvað hún var að gera.

Og eðlilega skildu þeir ekki þessi lög, því að það skilur þau enginn nema fá sérstaka tilsögn. Ég talaði við Þóri Bergsson, sem er mjög greindur maður og er tryggingafræðingur. Hann undraðist þessa löggjöf, hvað hún væri vitlaus. Talið þið bara sjálfir við hann, ef þið trúið mér ekki. Og er hann þó vinstrisinnaður maður. Það þarf ekkert að vera mjög mikið eignarnám hjá kommum eftir nokkra áratugi. Svo heldur þetta áfram að spóla upp á sig, svo að ef þetta kerfi héldi svona áfram. þá á það hér um bil allar eignir landsmanna. Það væri einstaka bóndi, sem ætti jörð skuldlitla, en það þarf eigi mikla eignabyltingu í landinu til þess að það sé alveg fullkomin sósíalisering á þessu öllu saman, og Ingólfur Jónsson getur þá horft úr gröf sinni yfir þetta ágæta verk.