27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég fór þess á leit við hv. fjhn., að hún tæki upp eina breytingu á lögum um lífeyrissjóð bænda umfram það, sem kemur fram í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Sú breyting er við 10. gr. laganna, þar sem kveðið er á um þá, sem rétt eiga á örorkulífeyri úr sjóðnum. Í lögunum er það þannig, að sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri, eftir að hann hefur verið í sjóðnum 18 mánuði, frá því að starfsorka hans skerðist svo, að örorka er að dómi læknis 40% eða meira. Á þessu eru þó takmarkanir enn fleiri og m.a. það, að örorkubætur falla niður, þegar hann kemst á eftirlauna- eða ellilífeyrisaldur 67 ára. Nú lít ég svo á, að hér sé um óréttlæti að ræða og þörf væri á að færa þetta í það horf, að hver sjóðfélagi, án tillits til þess, hvað hann er búinn að greiða lengi iðgjöld til sjóðsins og án tillits til þess, hvenær hann verður fyrir þeim áföllum, er skerðing á starfsorku hlýzt af, eigi rétt á þessum örorkubótum. Ég harma það, að hv. fjhn. skuli ekki hafa séð sér fært að taka upp þessa brtt., og mun ég því við 3. umr. þessa máls flytja brtt., sem miði í þessa átt og verði efnislega eitthvað á þá leið, að á undan 1. gr. frv. komi ný gr. svo hljóðandi:

1. málsl. 10. gr. orðist svo: Hver sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri, ef hann verður fyrir orkutapi til langframa, er trúnaðarlæknir sjóðsins metur 40% eða meira.