03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það var nú eins og vænta mátti, að hv. 5. þm. Austf. snerist gegn þessari till., enda hafði ég áður leitað eftir því við hann að fá við hana fylgi og ekki tekizt.

Hv. þm. leit svo á, að það væru tvö eða þrjú atriði, sem mæltu gegn því, að þessi till. væri samþ. Í fyrsta lagi það ákvæði í brb.-ákvæðum þessara laga, að endurskoðun þeirra skuli lokið fyrir árslok 1972. Að mínu áliti hindrar það ekki, þótt ákveðið sé, að endurskoðun laganna fari fram fyrir ákveðið tímamark, að horfið sé að því, þegar slík lög eru til meðferðar í Alþ., að leiðrétta þá galla, sem menn koma auga á í viðkomandi lögum. Það er algjörlega augljóst, að ef menn líta svo á, að um galla sé að ræða, þá ber að nota slíkt tækifæri til þess að leiðrétta þá.

Hv. þm. sagði, að I. kafli laganna væri þannig upp byggður, að till. þessi væri í ósamræmi við hann og eftir þeim kafla laganna bæri ekki að inna af hendi greiðslur úr sjóðnum, vegna þess að á fyrstu árunum væri hann að byggja sig upp. 10. gr. laganna, sem þessi brtt. er gerð við, eða 1. málsliður hennar hljóðar svo, með leyfi hv. forseta:

„Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins undanfarandi 18 mánuði, á rétt á örorkulífeyri, ef hann verður fyrir orkutapi til langframa, er trúnaðarlæknir sjóðsins metur 40% eða meira.“

Síðan koma í sömu mgr. þær takmarkanir á þessum örorkubótum, sem ég gat um í ræðu minni hér áðan og eru í höfuðatriðum, að örorkumat þetta skal í fyrsta lagi miða við hæfni sjóðfélaga til þess að stunda landbúnaðarstörf og þrátt fyrir örorku eigi enginn rétt á hærri bótum en sem nemur þeim tekjumissi, sem hann verður fyrir við skerðingu starfsorku sinnar. — Við bætist svo, að örorkubætur falla niður við 67 ára aldur og ellilífeyrir tekur við.

Í þessum kafla laganna er sem sé gert ráð fyrir því, að örorkubætur geti verið inntar af hendi eftir 18 mánuði, frá því að sjóðurinn tekur til starfa samkv. þessari lagagrein. Það er einnig ekki nákvæmlega rétt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að þessi ákvæði laganna rímuðu algjörlega við ákvæði um lífeyrissjóð Dagsbrúnar og annarra verkamanna og það, sem segir í frv. að lífeyrissjóði sjómanna, vegna þess að þar er gert ráð fyrir því, að örorkubætur geti verið greiddar, eftir að sjóðfélagi hefur greitt til sjóðsins í þrjú ár. Hér eru þó nefndir 18 mánuðir, og ef menn vilja standa á því, að sjóðfélagar þurfi endilega að greiða iðgjöld til sjóðsins í 18 mánuði, áður en þeir eiga rétt á bótum, þá auðvitað fella þeir þessa till. Ef mönnum hins vegar sýnist, að um sé að ræða sanngirnismál. þá hygg ég að þeir líti svo á, að rétt sé að samþykkja þá brtt., sem ég hef hér lagt fram.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég lít svo á, að það hafi ekki verið nákvæmlega rétt, sem hv. 5. þm. sagði um þau atriði, sem hann tilgreindi hér, enda þótt ég viðurkenni, að hann hefur kynnt sér þessi mál nokkuð mikið sem frsm. þeirrar n., sem fjallað hefur um þetta efni. Ég vænti þess, að hv. þdm. líti á þessa brtt. með sanngirni og stuðli að því, að þeir bændur, sem þörf hafa fyrir örorkubætur úr þessum sjóði, geti notið þeirra hér eftir.