08.11.1971
Efri deild: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

19. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er staðfesting á brbl. frá 19. maí þessa árs. Samkv. lögum frá 1966 um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum eru gerðar strangar kröfur um sláturhús, kælingu, frystingu og meðferð alla á sláturfénaði. Þau lög gerðu svo ráð fyrir, að hægt mundi að byggja upp og endurbæta flest sláturhús landsins á þremur árum, þar sem segir, að undanþágur megi ekki veita nema í 3 ár frá gildistöku laganna, sem eru frá 1966.

Sláturhúsbyggingar kosta mikið fjármagn, svo að vart er hugsanlegt að byggja þau upp á skömmum tíma, og til þess þarf vafalaust allmörg ár. Frv. þetta gerir svo ráð fyrir, að þau sláturhús, sem ekki fást löggilt, megi þó nota áfram, ef brýn nauðsyn krefur. Landbrh. getur, ef yfirdýralæknir eða héraðsdýralæknir telur sláturhúsin viðunandi, leyft slátrun í þeim til eins árs í senn. En undanþágu má þó ekki veita nema til ársloka 1973.

Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. landbrh. fyrir frv. þessu, eru það aðeins fimm sláturhús í landinu, sem teljast fullkomin að tækni og útbúnaði. En það munu vera nálægt 60 sláturhús, sem ekki fá viðurkenningu nema til eins árs í senn, svo að mikið verk er framundan að byggja og breyta þeim sláturhúsum, sem nauðsynlegt er að nota.

Árið 1969 starfaði n. á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins að því að athuga ástand sláturhúsanna og gera till. um byggingu þeirra. N. taldi, að á árunum 1970–1975 þyrfti að byggja og lagfæra 14 sláturhús, og var kostnaður við það áætlaður sem næst 300 millj. kr. á því verðlagi, sem gilti árið 1970. Þessi áætlun sýnir það bezt, hve hér er um mikið og kostnaðarsamt verk að ræða, og eru þó ekki talin nema þau sláturhús, sem mest er aðkallandi að hyggja og endurbæta. Mér kemur það ekki á óvart, að Alþ. megi nokkrum sinnum enn þá breyta lögunum og samþykkja undanþáguheimildir, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir. Ber að sjálfsögðu að fagna því, að Framleiðnisjóður landhúnaðarins fær aukið fjármagn á næsta ári, en hann hefur, eftir því sem fjármagn hefur leyft, veitt talsverðan styrk og lán til sláturhúsabygginga í landinu ásamt Stofnlánadeild landbúnaðarins, því að eigið fé þeirra, sem þurfa að koma upp sláturhúsum, er af mjög skornum skammti og starfræksla húsanna er yfirleitt skamman tíma á ári hverju, og því er erfitt að borga þau niður nema á nokkuð löngum tíma, og þarf, ef vel á að fara, að fá fjármagn að láni til margra ára og helzt eitthvað óafturkræft.

Þá hefur landbn. lagt til, að í staðinn fyrir atvmrn. komi landbrn., því að þessi lög um sláturfjárafurðir eru frá 1966, en eftir það var lögum um Stjórnarráð Íslands breytt, og höfum við lagt til, að það kæmi landbrn. í stað atvmrn., eins og lög gera ráð fyrir nú. En nál. okkar er birt á þskj. 60, og mæla allir nm. með, að brbl. verði samþykkt ásamt þeim breytingum, sem fram koma á því þskj.