03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið frá því, sem orðið er. Út af orðum hæstv. landbrh., þar sem hann sagði, að frv. þetta hefði verið flutt samkv. ósk stjórnar lífeyrissjóðs bænda og aðrar óskir hefðu ekki verið uppi þá, sem rétt hefði þótt að taka inn, þá vil ég aðeins segja það, að stjórn sjóðsins er alls góðs makleg og hefur sjálfsagt mikla yfirsýn yfir þetta mál. Ég skal ekki draga það neitt í efa, en það lokar auðvitað ekki fyrir það, að einstakir þm. vilji koma fram fleiri breytingum, sem þeir hafa áhuga fyrir og telja, að rétt sé. Það er svo með hv. Alþ., að það á ekki einungis að taka til greina þær óskír, sem berast utan að, frá stjórnum einstakra sjóða, frá einstökum aðilum eða stofnunum, óskir, sem þessir aðilar vilja, að tekið sé tillit til. Hv. alþm. eiga einnig þann rétt og þeir eiga að nota þann rétt, að benda á það, sem þeim þykir betur mega fara, og haga sínum gerðum og sínu máli á þann veg, að það nái fram að ganga. Þetta hygg ég, að hæstv. ráðh. ætti að vera ljóst. Það, sem hér er um að ræða, er e.t.v. smátt atriði. Það er þó atriði, sem gæti orðið til þess, að nokkrir bændur, sem hafa misst hluta af starfsorku sinni, geti þó haldið áfram við sinn atvinnurekstur, haldið áfram búskap. Ég vænti þess, að þó að fyrirmæli séu um, að þessi lög verði endurskoðuð á þessu ári, þá láti menn það ekki villa sér sýn, þegar um það er að ræða að taka til meðferðar einstök atriði, sem virðast tvímælalaust geta horft til bóta. Slík atriði er full ástæða til að taka til greina og lagfæra.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég taldi nauðsynlegt að láta þessa aths. koma fram.