08.05.1972
Efri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 305 er um breyt. á l. um lífeyrissjóð bænda. Það er komið frá hv. Nd. og var samþ. í þeirri d. En eins og segir í aths. við frv., er það flutt að beiðni stjórnar lífeyrissjóðs bænda og að öllu leyti gengið frá samningu frv. af þeirra hálfu. Ákvæði þau um sérstök lífeyrisréttindi aldraðra bænda, sem eru í 17. og 18. gr. laga nr. 101 frá 1970, voru samin með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 18 1970, um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Með lögfestingu þessara lífeyrisréttinda til handa bændum var viðurkennt það sjónarmið fulltrúa samtaka bænda, að eðlilegt væri, að bændur nytu í þessu efni hliðstæðra framlaga úr opinberum sjóðum og launþegum innan ASÍ voru tryggð í sambandi við samkomulag launþega og vinnuveitenda 19. maí 1969. Með lögum nr. 63 1971, sem komu í stað laga nr. 18 1970, voru gerðar margvíslegar breytingar á lögum um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum. Í tilefni af þeim breytingum leyfir stjórn lífeyrissjóðs bænda sér að senda rn. til meðferðar lagafrv. Hins vegar lítur hún svo á, að enn sé ekki tímabært að hefjast handa um heildarendurskoðun laganna samkv. ákvæðum, bráðabirgðaákvæðum við lögin um að þau skyldu endurskoðuð 1972.

Af breytingum þeim, sem í frv. felast, má í fyrsta lagi nefna, að skilyrði um búskap í árslok 1967 eru felld niður. Gert er ráð fyrir því, að þeim bændum, sem reiknaður er réttindatími frá árslokum 1954, nægi að hafa talizt bændur til fardaga 1964.

Í öðru lagi er í frv. gert ráð fyrir, að maður, sem náð hefur 75 ára aldri, eigi rétt á eftirlaunum án tillits til, hvort hann hefur látið af búskap eða ekki, enda uppfylli hann önnur skilyrði laganna.

Í þriðja lagi er tekinn upp einfaldari reikningsgrundvöllur, sem jafnframt hefur í för með sér hækkun lífeyris. Þá er réttur til makalífeyris gerður víðtækari, komið er á gagnkvæmri tengingu við lög um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum og nokkuð dregið úr skerðingu lífeyris vegna vinnutekna. Í nýjum lögum um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum eru ákvæði um heimild ráðh. til að ákveða greiðslu uppbótar á eftirlaun, sem þegar hafa verið úrskurðuð. Eru ákvæði þessi í samræmi við reglur hlutaðeigandi fyrir lífeyrissjóði, enda er gert ráð fyrir, að ráðh. hafi við ákvörðun m.a. hliðsjón af þeim uppbótum, sem almennt eru greiddar á lífeyri úr lífeyrissjóðum. Með setningu laga um lífeyrissjóð bænda var talið óraunhæft að óbreyttum tekjugrundvelli að hafa slíkt verðtryggingarákvæði í I. kafla laganna. Til að koma í veg fyrir vaxandi misræmi milli I. og Il. kafla er lagt til, að þetta atriði haldist óbreytt að þessu sinni, en verði athugað nánar við heildarendurskoðun laganna.

Útgjaldaaukning, sem samþykkt frv. mundi hafa í för með sér, er 9 millj. kr. alls, og sé ég ekki, herra forseti, ástæðu til þess að rekja þetta mál frekar, en legg áherzlu á það, að það er flutt eins og stjórn lífeyrissjóðs bænda gekk frá því og eftir beiðni hennar og Stéttarsambands bænda, og ég vonast til, að þessi hv. d. afgreiði málið á sama hátt og Nd., og leyfi mér að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.