08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

118. mál, aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Samkv. 1. gr. þessa frv. um aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa er heimilað að fella niður þinglesturs- og stimpilgjöld af afsalsbréfum fyrir löndum og lóðum. sem keypt eru eða keypt hafa verið með aðstoð ríkissjóðs samkv. þessum lögum. Sama gildir um öll lánsskjöl, sem út eru gefin vegna slíkra landa- og lóðakaupa.

Þetta frv. er flutt sérstaklega nú í tilefni af landakaupum Keflavíkurkaupstaðar, sem eru það stór í sniðum, að aðstoð ríkisins í gegnum landakaupasjóð dugir ekki til og verður því kaupstaðurinn að leita á önnur mið. Þetta er þannig, að samkv. gildandi lögum um aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa er fjmrn. nú heimilt að fella niður þinglesturs- og stimpilgjöld af lánsskjölum, sem um er getið í I. mgr. þessa frv., en sú heimild tekur aðeins til lána, sem sjóðurinn getur veitt til landakaupa, en ekki til lána, sem aðrir aðilar veita. En með þessu frv. er lagt til, að heimild fjmrn. til niðurfellingar þinglesturs- og stimpilgjalda verði rýmkuð og taki til allra lánsskjala, sem sveitarstjórn gefur út í sambandi við kaup á landi eða lóðum með aðstoð ríkissjóðs samkv. þessum lögum, þó að ekki sé eingöngu við sjóðinn að tefla. Þetta mundi í þessu einstaka tilfelli varðandi Keflavíkurkaupstað kosta hann í opinberum stimpilgjöldum af lánsskjölum a.m.k. 1/2 millj. kr., sem kaupstaðnum væri sleppt við að greiða, eftir að þetta frv. hefur fengið lagagildi. En framvegis gildir það svo um slík landa- og lóðakaup kaupstaða, þó að landakaupasjóðurinn eigi þar ekki hlut að máli.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að ræða um málið, en vænti þess, að því verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.