08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

118. mál, aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Þetta frv. til l., sem hér hefur komið fram fyrir Nd. Alþ., stafar af því, að lönd og lóðir fara mjög hækkandi í verði, og því þurfi ríkisvaldið eða ríkissjóður að hlaupa undir bagga með því að gefa kaupstöðum og kauptúnum eftir ýmis gjöld, svo sem þinglesturs- og stimpilgjöld, af lánsskjölum eða lánum, sem þessir aðilar þurfa að taka. Þetta er mjög eðlilegt, og ég hef í raun og veru ekkert við þetta frv. að athuga að öðru leyti en því, að ég tel, að hér ætti að koma að sjálfum kjarnanum, þ.e. hvort það sé í raun og veru eðlilegt, að ríkissjóður hlaupi þannig undir bagga, þegar um hækkað verðlag er að ræða, en þeir, sem selja, þeir, sem eiga þessi lönd og lóðir, sleppi kannske án þess að greiða eyri í opinber gjöld fyrir þessar eignir, sem þeir selja.

Nú er það svo í gildandi tekjuskatts- og eignarskattslögum, að þar segir, að hafi skattþegn átt eignina full sex ár eða lengur, telst ágóðinn ekki til skattskyldra tekna. Nú hygg ég, að öllum sé Ijóst, að með stækkandi borgum eða kaupstöðum og kauptúnum leiði það til þess, að verð lóða og landa hækkar sjálfkrafa í verði, án þess að eigendur hafi jafnvel aukið verðmæti þessara eigna á nokkurn hátt. Mér er kunnugt um það, að á Norðurlöndum hafa gengið í gildi ýmis lög, þar sem einmitt þetta vandamál er tekið fyrir, að ýmsir aðilar geti e.t.v. stundað þar brask, ef ég nota það orð, að kaupa lendur og lóðir rétt við borgarstæði eða jafnvel inni í borgum og eiga þetta í nokkur ár og selja það á margföldu uppsprengdu verði, án þess að hafa lagt nokkuð sjálfir til þess að auka verðmæti eignanna. Eitthvað svipað mun hafa átt sér stað í þessu dæmi, sem hæstv. félmrh. minntist á. Þetta víkur að Keflavíkurkaupstað, sem er núna í öngum sínum út af lóðakaupum, og því hef ég heyrt fleygt, að þessi kaup muni nema um 30 millj. kr. á lendum og lóðum í Keflavíkurkaupstað, og þeir aðilar, sem fá þetta fé, þurfa ekki að greiða eyri til opinberra gjalda, þetta er ekki skattskylt fé.

Mér finnst þróunin dálítið öfug. Vegna þess hve mjög hefur hækkað verð landa og lóða, er ríkisvaldið sjálft að taka fé úr almannasjóðum eða gefa eftir fé, til þess að kaupstaðir og kauptún geti keypt þessar lóðir, en seljendur stinga síðan öllum hagnaði í eigin vasa. Ég hygg, að það sé tími til kominn fyrir hv. Alþ. að athuga, hvort ekki sé rétt að taka upp einhvern slíkan verðmætaaukaskatt eða hverju nafni sem hann nefnist, þannig að seljendur hagnist ekki óeðlilega á slíkum sölum og síðan eigi ríkisvaldið að koma þessum kaupum eða sölu á með opinberu fé úr almannasjóðum. Ég vil beina því til hæstv. fjmrh., hvort það væri ekki til athugunar að taka upp einhvern slíkan verðmætaaukaskatt.