08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

118. mál, aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það mál, sem hv. 3. landsk. þm. hreyfði hér, má segja, að sé í tengslum við þetta mál, en er þó í raun og veru allt annað og miklu stærra mál. Þetta mál er eingöngu í þessu einstaka tilfelli, að því er Keflavíkurkaupstað varðar, flutt til þess að firra hann því að þurfa að bæta 1/2 millj. eða svo við þær 30 millj., sem landakaupin sjálf kosta kaupstaðinn, og mundi það nú einmitt vera í samræmi við málflutning hv. 3. landsk. þm., að ekki sé á þá upphæð bætandi að því er snertir Keflavíkurkaupstað sjálfan. En samt er það nú svo, að kaupstaðurinn á að óbreyttri löggjöf ekki annarra kosta völ en að kaupa þetta land, byggingarlóðir handa kaupstaðnum og kaupstaðarbúum, á því verði, sem hagkvæmast hefur þó fengizt, og sýnist ekki vera hægt að standa gegn því að óbreyttum lögum.

Það er vitanlega allt annað mál, hvort ekki er eðlilegt og samfélagslegt á allan hátt að koma í veg fyrir það, að einstaklingar stingi í sinn eigin vasa fyrirhafnarlausum gróða af verðhækkunum, sem verða fyrir almenna þjóðfélagsþróun, og ber sérstaklega að líta á það mál, en óháð þessu, þó að þetta frv. hafi orðið til þess að minna á þann þjóðfélagsvanda.