21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

261. mál, veðtrygging iðnrekstrarlána

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., um veðtryggingu iðnrekstrarlána, er samið af nefnd, sem ég skipaði 17. marz s.l., en í nefndinni áttu sæti Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari, Björn Tryggvason aðstoðarbankastjóri, Stefán Pétursson hrl. og Þröstur Ólafsson hagfræðingur. Meginefni frv. felst í I. gr. þess. Hún er svo hljóðandi:

„Iðnfyrirtækjum er heimilt að setja banka eða sparisjóði að sjálfsvörzluveði hráefni, vörur í vinnslu og fullunnar, sem veðsali á eða eignast kann á tilteknu tímabili, allt að einu ári í senn.“

Í 2., 3. og 4. gr. eru svo minni háttar atriði, sem ég sé ekki ástæðu til að fjalla um, en þau eru skýrð í aths. við frv.

Gildandi lög um samningsveð eru æðigömul að stofni til. Þau eru frá 1887, og kjarni þeirra var sá, að veðsetning safns muna væri aðeins heimil í sambandi við fasteignaveð eða þannig, að lausaféð væri nátengt fasteigninni. Lengi vel var það svo, að sjávarútvegurinn naut ekki góðs af þessari tegund veðsetningar. En 1927 voru sett sérstök lög, sem heimiluðu útgerðarmanni að veðsetja banka eða sparisjóði að sjálfsvörzluveði afla af skipi sínu á einu útgerðartímabili í senn til tryggingar útgerðarlánum. Og 1933 var heimilað að veðsetja með skipi lausafjármuni, sem ætlaðir eru til notkunar skipsins, svo sem kola- og olíubirgðir þær, sem eru í skipinu hverju sinni, veiðarfæri, skipsbúnað og önnur áhöld. Næst kom svo landbúnaðurinn og fór fram á hliðstæða fyrirgreiðslu sér til handa, og lög voru sett 1953, sem heimiluðu bændum að veðsetja bönkum og sparisjóðum að sjálfsvörzluveði einu nafni tiltekna flokka búfjár síns, til tryggingar rekstrarlánum, sem voru ekki veitt til lengri tíma en eins árs í senn.

Þessi lög, sem ég hef hér nefnt, voru síðan felld úr gildi með nýjum lögum 1960, og það eru þau lög, sem enn gilda um þessi mál. Samkv. þeim er útgerðarmanni, framleiðanda sjávar- og landbúnaðarafurða, svo og öðrum þeim, sem hafa þessar vörur til sölumeðferðar, heimilað að setja banka eða sparisjóði að sjálfsvörzluveði afla og tilgreindar tegundir afurða og rekstrarvörur sjávarútvegs og landbúnaðar, sem veðsali á eða eignast á tilteknu tímabili, allt að einu ári í senn. Hins vegar hafa hvorki viðskiptabankarnir né Seðlabankinn veitt almenn lán til rekstrar iðnfyrirtækja vegna framleiðslunnar út frá þessum reglum. Ástæðan fyrir því, að lánastofnanir hafa ekki veitt iðnaðinum hliðstæða fyrirgreiðslu og öðrum meginatvinnuvegum þjóðarinnar að þessu leyti, er sú, að skort hefur lagaheimildir til þess. Samt hafa lánastofnanir veitt í ýmsum undantekningartilvikum allvíðtæk lán til fyrirtækja, sem hafa unnið úr afurðum landbúnaðar og sjávarútvegs. Og þannig hafa verið veitt regluleg lán úr viðskiptabönkum með endurkaupum í Seðlabankanum til ullarverksmiðja við framleiðslu á lopa, til útflutnings á fullunnum vörum, þegar um mikið magn er að ræða, til framleiðslu veiðarfæra, einkum Hampiðjunnar, til verksmiðja, sem súta gærur, og til framleiðslu kísilgúrs, en endurkaup Seðlabankans á þessum lánum hafa verið að meðaltali með 8–9% ársvöxtum.

Tilgangur þessa frv., sem hér liggur fyrir, var sá, að tryggja iðnaðinum sama rétt og sjávarútvegur og landbúnaður hafa haft að undanförnu. Ég hygg, að ég þurfi ekki að færa nein almenn rök fyrir þessari till. Ég hugsa, að það sé ekki neinn ágreiningur um það hér á hinu háa Alþ., að iðnaðurinn er mjög vaxandi atvinnugrein og atvinnugrein, sem hlýtur að vaxa mjög stórlega á næstu árum. Ég vil í því sambandi minna á það, að einmitt síðustu þrjú árin hefur orðið ákaflega ör vöxtur í iðnaði á Íslandi. Iðnaðarframleiðslan jókst um 9% á árinu 1969, um 13% á árinu 1970 og um 13.5% í fyrra. Vöxtur iðnaðarframleiðslunnar hefur verið miklum mun örari en þjóðarframleiðslunnar í heild. Á þessum þremur árum hefur framleiðslumagn iðnaðarins vaxið um 40%, en þjóðarframleiðslan jókst á þessu sama tímabili um 18%. Hins vegar hefur rekstrarlánafyrirgreiðsla lánastofnana til iðnaðarins ekki aukizt í hlutfalli við þessa staðreynd. Ég vil í því sambandi greina frá því, að heildarútlán til iðnaðarins, að frátöldum byggingariðnaði, námu í árslok 1970 2 326 millj. kr. eða 14.5% af heildarútlánum innlánsstofnana. Í árslok 1971 voru þessi lán 2 465 millj. kr. eða 12.6%, og hafa því lækkað hlutfallslega miðað við aðra lánaflokka. Þetta er að sjálfsögðu ástand, sem ekki fær staðizt, og þess vegna er þetta frv. flutt.

Ég geri mér vonir um það, að um þetta sjálfsagða mál geti tekizt eðlileg samstaða hér á hinu háa Alþ. Ég legg til, að fjhn. d. fái það til meðferðar, en ég vil leggja á það mikla áherzlu, að n. hraði störfum sem allra mest, því að mér er það mikið í mun og ég veit, að iðnaðinum er það mikið í mun einnig, að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi. Það fer að líða á þingtímann að sjálfsögðu, þannig að menn þurfa að hafa nokkuð hraðan á til þess að afgreiða þetta mál, en málið er í senn einfalt og ákaflega augljóst réttlætismál.