03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

261. mál, veðtrygging iðnrekstrarlána

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna því mjög eindregið, að þetta frv. skuli vera komið fram og skuli fá þær undirtektir hjá hv. n. og að mér skilst hjá Seðlabankanum, sem frsm. n. hefur lýst. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þetta frv. um veðtryggingu iðnrekstrarlána er ein mikilvægasta aðstoð, sem iðnaðurinn getur fengið, og með þeim hætti tel ég, að þessi atvinnugrein ætti að geta byggt sig upp sjálf, ef fjármunir verða fyrir hendi til þess að lána út á framleiddar vörur og hráefni, eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég spurði nokkuð um það fyrir nokkrum dögum, þegar þáltill. um rekstrarlánsaðstoð var til afgreiðslu, hvort það væri nokkur úr hæstv. ríkisstj., sem gæti upplýst mig um það, hvort það mætti treysta því, að fjármagn yrði til staðar í háðum þessum tilvikum. Það er í raun og veru kjarni málsins, hvort bankar hafi samþykkt þetta fyrirkomulag fyrir sitt leyti og hvort þeir muni lána á sama hátt til iðnaðarins eins og til annarra atvinnuvega. Hlutverk iðnaðarins er þegar orðið nokkuð mikið í íslenzku atvinnulífi og á áreiðanlega eftir að vaxa mjög, og eins og ég sagði um daginn, þá tel ég, að frv. og till. séu ekki mikils virði, nema það liggi nokkuð ljóst fyrir, að bankakerfið hafi fjármagn til þess að láta í þessa atvinnugrein. Vitaskuld er það forsenda, að lagasetning sé til staðar, og hér er hún að koma í gegn og það tel ég mikils virði. En mér hefur stundum fundizt, að það sé eins og það hafi staðið nokkuð í lánastofnunum að lána til iðnaðarins, og því er það brennandi spurning í mínum huga nú, sem ég vildi helzt fá svarað, ef þess er nokkur kostur, hvort það hafi eitthvað verið gert, sem gefi iðnaðinum vonir um það, að fjármagn verði til staðar, þegar þessi lög verða búin að taka gildi, sem heimila veðsetninguna, og búið er að samþykkja þáltill., sem á að hjálpa mjög um rekstrarfé, eru nokkrar upplýsingar til um það, hvort bankakerfið muni þá haga sér í samræmi við hvort tveggja, þessar ályktanir og lög Alþ. Ef það er til staðar, þá er hér um að ræða mjög þýðingarmikla og stórtæka bót fyrir iðnaðinn, en ef þetta er ekki til staðar, þá er gott að hafa lög og till., en það hjálpar lítið.