05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

261. mál, veðtrygging iðnrekstrarlána

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þess gerist ekki þörf, að ég fylgi þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum hér í hv. Ed. Það hefur þegar verið til meðferðar í Nd. og um það varð algjör samstaða. Það var samþ. einróma í þeirri mynd, sem það var lagt fyrir. Hér er um mjög einfalt mál að ræða í eðli sínu og meginefni frv. felst í 1. gr. þess, sem er svo hljóðandi:

„Iðnfyrirtækjum er heimilt að setja banka eða sparisjóði að sjálfsvörzluveði hráefni, vörur í vinnslu og fullunnar, sem veðsali á eða eignast kann á tilteknu tímabili, allt að einu ári í senn.“

Í 2., 3. og 4. gr. eru svo tæknileg framkvæmdaratriði, sem ég sé ekki ástæðu til að skýra frekar, það kemur fram í grg„ en sú heimild til veðtryggingar, sem í þessu frv. felst í sambandi við iðnað, hefur verið í gildi varðandi sjávarútveg og landbúnað um alllangt skeið. Sjávarútvegurinn fékk slíkar heimildir með lögum 1933 og 1953 fékk landbúnaðurinn hliðstæðar heimildir. Árið 1960 var lagasetning um þessi efni endurnýjuð, og þar voru þessar heimildir tryggðar sjávarútvegi og landbúnaði, en iðnaðurinn hefur aldrei átt kost á veðsetningum af þessu tagi. Iðnaðurinn hefur réttilega talið, að hann byggi þar við mun þrengri kost en aðrir atvinnuvegir, og því tel ég það vera mjög stórfellt réttindamál, að iðnaðurinn fái nú þetta jafnrétti við aðrar atvinnugreinar í landinu. Í því sambandi vil ég minna menn á þá staðreynd, sem allir þekkja, að iðnaðurinn er nú í mikilli sókn í landinu. Síðustu þrjú árin hefur þjóðarframleiðslan aukizt um 18%, sem er vissulega veruleg aukning, en magn iðnaðarframleiðslunnar hefur á sama tíma aukizt um 40%, sem sýnir, að iðnaðurinn er í mjög mikilli sókn í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að skýra frá því, að heildarútlán til iðnaðarins, að frátöldum byggingariðnaði, námu í árslok 1970 2 326 millj. kr. eða 14.5% af heildarutlánum innlánsstofnana. Í árslok 1971 voru þessi lán 2 465 millj. kr. eða 12.6% og höfðu því lækkað hlutfallslega miðað við aðra lánaflokka. Þetta er þróun, sem er óviðunandi með öllu á sama tíma og iðnaðurinn er í þessari sókn, sem ég var að minnast á áðan. Auk þess hafa endurkaupalán Seðlabankans verið ákaflega lítill hluti af almennum lánum viðskiptabankanna til iðnaðarins, en það ástand ætti að geta breytzt með þessari lagasetningu, en eins og ég gat um áðan, þá var alger samstaða um þetta mál í Nd. og ég vona, að sú verði einnig raunin hér í Ed. Þetta er einfalt mál, en engu að síður tel ég, að hér sé um að ræða verulegt stórmál og réttindamál í þágu iðnaðarins.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.