10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

222. mál, læknaskipunarlög

Sigurður Blöndal:

Herra forseti. Mér finnst ekki sæmandi, að það heyrist ekki einhver rödd úr strjálbýlinu, þegar svona mál ber á góma eins og læknavandamálið er úti um land og öllum er kunnugt. Þetta vandamál hefur þá sérstöðu umfram önnur vandamál, að það varðar í mörgum tilfellum líf og dauða fólks og þar af leiðandi verður að líta á allt, sem reynt er að gera í því, með öðrum augum heldur en ýmis önnur vandamál, sem eru auðvitað óteljandi. Þetta skapar tvímælalaust sérstöðu. Ég vildi láta það í ljós hér, að mér finnst, að hæstv. heilbrmrh. hafi gert lofsverðar tilraunir til þess að reyna að bæta það ófremdarástand, sem hefur ríkt á undanförnum árum í læknamálum strjálbýlisins, og er þar skemmst að minnast þeirrar áskorunar, sem hann bar fram á síðastliðnu hausti til lækna um að fara út í héruð, þó að ekki væri nema um skemmri tíma, og það urðu margir læknar hér í Reykjavík við þeirri áskorun, svo sem kunnugt er, og hvert skref, sem tekið er í þessu, ber að þakka og styðja. Það er náttúrlega ekki spursmál um það, að auðvitað ber heilbrmrn. að gera allt, sem hugsanlegt er, til þess að bæta ástandið í læknamálinu þarna. Ef það reynist rétt hjá flutningsmönnum þessarar brtt., þessum þremur hv. þm., sem flytja hér brtt. um, að 3. gr. frv. falli út, ef það reynist rétt, að það sé gagnslaust, þá nær það ekki lengra alveg eins og hv. 11. landsk. þm. benti hér á áðan, tilraunin hefur þá mistekizt. Í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. 3. landsk. þm. hér áðan um þá kvöð, sem þessi styrkur væri, þá vildi ég minna hann á það, að allir, sem hafa þegið námsstyrk af ríkinu til náms erlendis, a.m.k. þegar ég var við nám, tóku á sig þá kvöð að vinna fimm ár minnst hér heima, svo þetta er ekkert fordæmalaust, þetta er alveg tilsvarandi kvöð og námsmenn hafa tekið á sig lengi, mér er ekki kunnugt um, hvort því hefur verið breytt núna, en svona var það a.m.k. þau ár, sem ég fékk námsstyrk og var við nám erlendis. Mér finnst sem sagt eigi að láta á reyna, hvort þessi aðferð dugar, og það nær þá ekki lengra, ef það dugar ekki. Ég vil leggja áherzlu á það, að fyrir hvert læknisár eða fyrir hvern lækni, sem tekst að fá eitt ár til viðbótar út í strjálbýlið, þá er það hlutur, sem getur þýtt að bjarga kannske fleiri eða færri mannslífum, og því ber að fagna, ef það tekst.

Hæstv. heilbrmrh. hefur lýst því yfir hér, að hann telji sig vita um nokkra einstaklinga í læknadeild, sem mundu vilja þetta, gangast undir þessa kvöð, og einmitt út frá því er þessi hugmynd nú komin hér fram í frumvarpsformi og þá er þetta bráðabirgðalausn. Ráðherrann hefur sjálfur tekið það fram, að hann líti ekki á þetta sem varanlega lausn á vandamálinu, en þetta gæti þó verið bráðabirgðalausn, sem hefur sína þýðingu, eins og ég er búinn að segja.

Það er ekki regluleg samkvæmni í því hjá hv. 3. landsk. þm., þegar hann segist fagna 1. og 2. gr. frv., hann telur mikið gagn í því, sem 1. og 2. gr. fela í sér, en hitt sé gagnslaust, en sannleikurinn er sá, að mér sýnist nú, að ekki sé hægt að gera beinlínis upp á milli þeirra, allar eru þessar gr. góðra gjalda verðar, en ég held, að það sé ekki hægt að stilla málinu þannig upp, og a.m.k. hefðu þá flm. að mínum dómi þurft að koma fram formlega með einhverja aðra lausn á þeim vanda, sem reynt er að leysa hér í 3. gr.