10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

222. mál, læknaskipunarlög

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég skal segja örfá orð. Hv. þm. Jóni Skaftasyni mæltist ágætlega hér áðan og vék til föðurhúsanna þeim undarlegu aðdróttunum, að tala um að við vildum ekki sinna þessum málum eða a. m. k. reyndumst ekki eins traustir og vera ætti. Við værum þéttbýlismenn og hefðum engan skilning á þessum málum o. s. frv. En þetta er nú ekki kjarni málsins, heldur hitt, hvernig á að leysa þennan vanda. Ég hygg, að allir hv. þm. vilji gera það, finna þær leiðir, sem leysa vandann, læknaskortinn, og það, sem við erum að gagnrýna, er þessi leið, sem þarna er í 3. gr. Við teljum, að hún sé ófær, það er búið að reyna þessa peningalegu leið undanfarna áratugi, og hún er gengin sér til húðar. Núna er hin félagslega leið farin og þess vegna teljum við, að það eigi beinlínis að hætta þessari sífelldu peningastefnu, sem ráðið hefur ríkjum undanfarið og leiðir ekki til neins.

Ég vil aðeins vænta þess, að þessi mál leysist á sem heillavænlegastan hátt, og þessi till. okkar þremenninga er borin fram ekki sízt til að hreinsa loftið. Ég vil benda á það, að nú eru sjúkrahúslæknar með töluverðar kröfur uppi. Skyldi ekki vera alið á þeim hugsunarhætti strax í háskólanum, að læknar eigi að hafa sérstök kjör umfram aðrar stéttir? Er þetta ekki upphafið á þeirri þróun? Er ekki strax byrjað á því við nám læknanema, að þeir eigi að vera sérstétt í þjóðfélaginu hvað snertir launakjör? Væri ekki nær að láta læknanema sitja við sama borð og aðra nemendur í þjóðfélaginu og reyna að leysa þennan læknaskort eftir félagslegum leiðum. — Þetta er allt, sem ég vildi segja.