10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

222. mál, læknaskipunarlög

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð. Það kveikti engan veginn í mér, þótt ég heyrði hér frammi kallað úr einhverju horni áðan, að það gerði minna til þótt vantaði presta út í strjálbýlið heldur en læknana. Ég heyrði ekki hvaðan þetta kom. Þetta hefur sjálfsagt komið úr einhverju kommahorni. (Gripið fram í.) Það þykir mér leiðinlegast, að þessi orð skyldu koma frá þessum kommúnista. Mér er mjög hlýtt til hans.

En ég get fallizt á það, að það er ekki eins stórkostlegt vandamál, þótt það vanti presta út í strjálbýlið eins og lækna, en ég vil þó benda á það, að það er í fjölmörgum byggðalögum mikið vandamál, að það skuli vanta presta í prestaköllin, og ég veit það, að fólkið, sem býr úti á landsbyggðinni, óskar mjög eindregið eftir því að hafa prest hjá sér og óskar mjög eindregið eftir því að fá þá til sín, enda hefur það alla tíð verið svo, að prestarnir íslenzku hafa verið nýtir og gegnir menn í íslenzku þjóðlífi og íslenzku menningarlífi. En ekki meira um það.

Ég get sagt ykkur það, góðir vinir, alveg eins og er, að það er kominn örlítill vorhugur í mig og mig er farið að langa til að komast burtu úr þessari samkundu, þessari háu samkundu, og hafa mig heim. En ég sé ekki, að að því sé komið. Nú kemur það upp á daginn í hverju málinu á fætur öðru, sem ríkisstj. flytur, að innan stjórnarflokkanna er hver höndin upp á móti annarri. Og ég get ekki skilið, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að fara að því að ljúka þessu þingi fyrir hvítasunnuhátíð, eins og hún hafði þó hugsað sér.

Það er dæmi um þetta hér í dag. Hér til umr. fyrr í dag var frv. til l. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, og hér er nú til umr. frv. til l. um breyt. á læknaskipunarlögum. Hvort tveggja eru þetta stjfrv., en svo gerist það hér, að stjórnarsinnar ráðast hatramlega gegn þessum málum. Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja, þótt menn hafi skiptar skoðanir. En ég spyr aðeins: Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. undirbýr málið með þessum hætti? Því er hún hreint og beint að flytja inn í þingið mál, sem hún er ekki búin að ná samstöðu um innan sinna stuðningsflokka? Ef þeir ná ekki samstöðu um málin innan flokka sinna, þá eiga þeir að láta kyrrt liggja, a. m. k. í bili.

En erindi mitt hingað var fyrst og fremst að lýsa stuðningi mínum við þetta frv. til breyt. á læknaskipunarlögum og mótmæla þeirri brtt., sem flutt er á þskj. 711 af hv. 3. landsk. þm. og tveimur öðrum hv. þm. Það er alveg rétt, sem hæstv. heilbrmrh. benti hér á áðan, þessi till. er flutt af mönnum héðan af þéttbýlissvæðinu. Ég vil alveg sérstaklega þakka hv. 11. landsk. þm. fyrir afstöðu hans til málsins. Hún er flutt af mönnum, sem hafa ekki hugmynd um þá neyð, sem ríkir úti á landsbyggðinni vegna læknaskortsins, og með þessu frv. er gerð heiðarleg tilraun til þess að bæta úr þessu, og ég tel það skyldu hvers þm. að styðja hverja þá till., sem er borin fram í þá átt að leysa úr þessu vandamáli, sem landsbyggðin býr við. Því að ef það er nokkurt mál, sem eyðir byggðum á Íslandi og leggur þær í auðn, þá er það einmitt læknaskorturinn. Þess vegna er ég mjög þakklátur fyrir flutning þessa frv. Það má vel vera, að það megi ýmislegt að því finna, og það má vel vera, að það komi ekki að því gagni, sem hæstv. heilbrmrh. vonast til, en það er þó tilraun til að bæta úr miklum vanda. Það er virðingarvert, og fyrir það er ég honum þakklátur og lýsi hreinni andstöðu minni og ógeði á sérhverjum þeim tillöguflutningi, sem er í þá átt að reyna að spilla fyrir framgangi jafngóðs máls eins og þessa.