10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

222. mál, læknaskipunarlög

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál. Meðflutningsmenn að þeirri till. til breyt. við það frv., sem hér er til umr. hafa gert grein fyrir efni hennar og tilefni þess, að hún er komin fram.

Tilefni þess, að ég er hér kominn upp í pontuna, er til að mótmæla harðlega ummælum hv. síðasta ræðumanns, þar sem hann fullyrti, að við flm. þessarar brtt. hefðum ekki hugmynd um þann vanda, sem við væri að etja í dreifbýlinu, sem stafar af læknaskortinum. Ég vil mótmæla þessu sem algjörlega órökstuddu og út í bláinn sagt. Ég fullyrði, að við gerum okkur grein fyrir þeim vanda, sem þarna er við að etja. En við andmælum þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð hafa verið í þessum málum í gegnum árin til lausnar þessum mikla vanda, sem við er að etja í þessum málum í dreifbýlinu.

Sú aðferð, sem felst í því frv., sem hér er til umr., virðist ekki líkleg til að leysa þann vanda, sem við er að etja í þessum málum.

Einn hv. þm. ræddi einmitt um það, hvernig þessar tilraunir hefðu gefizt á undanförnum árum með litlum árangri, og ég sé ekki betur en að núv. hæstv. ríkisstj. fylgi algjörlega sömu stefnu að þessu leyti. Einn hv. þm. sagði hér áðan, að við mættum þakka fyrir, ef það, sem út úr þessu kæmi, væru tveir til þrír læknar til viðbótar í dreifbýlið.

Annar þm. sagði: Háskóli Íslands hefur vanrækt að útskrifa lækna á liðnum árum. Ég spyr: Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera til að leysa þennan vanda til frambúðar? Það hefur ekki komið neitt fram hjá hæstv. ráðh., sem gefur það minnsta til kynna, hvernig hann hugsar sér að leysa þennan vanda til frambúðar. (Gripið fram í: Hefur þm. lesið frv. um læknaskipun?) Vissulega hef ég gert það, og ég hef haldið ræðu um það frv. hér á hinu háa Alþingi, en ég sé ekki, að í því felist nein sönnun fyrir varanlegri lausn þessa máls.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það virðist ýmislegt benda til þess, að þeir menn, sem sækja þarf til í þessum efnum, nemendur í læknadeild háskólans, séu alls ekkert hrifnir af því sem hér á að fara að bjóða þeim upp á. Þeir hafa ekki látið svo lítið að koma til fundar við hv. heilbr.- og félmn., þegar þeir voru beðnir að koma þangað til viðtals til að ræða þessar hugmyndir. Slík er sú fyrirlitning, sem þeir sýna þessu máli, sem hér er til umr.

Ég vil taka undir það sjónarmið, sem hér hefur komið fram, að það er ekki lausnin til frambúðar að ausa út peningum til viðkomandi aðila í þeirri trú, að það muni leysa vandann. Vandinn sýnist mér, að verði einna helzt leystur á félagslegum grundvelli og á þann hátt, að endurskipuleggja kennsluhætti í læknadeild Háskóla Íslands. Þeir virðast nefnilega vera við það miðaðir fyrst og fremst að mennta lækna, sem síðan halda áfram til ýmiss konar sérnáms, og að loknu námi í Háskóla Íslands virðast vera mikil brögð að því, að þeir hafi ekki þann starfsvettvang hér á landi, sem menntun þeirra býður upp á, og það er þess vegna, að því er virðist, sem þeir hafa sótt í störf erlendis.

Það, sem þarf að gera í þessum efnum, er að endurskipuleggja læknadeild háskólans með það fyrir augum, að hún mennti lækna, sem virkilega fá áhuga fyrir því að sinna því brýna verkefni, sem hér er til staðar í landi voru, að sinna læknisstörfum úti um byggðir landsins, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Til þessa hefur mikið vantað á, að það viðhorf hafi verið til staðar hjá læknastúdentum og hjá læknadeild Háskóla Íslands að reyna að skapa slíkt viðhorf.