13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

222. mál, læknaskipunarlög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á næstsíðasta Búnaðarþingi, árið 1971, var samþ. svofelld ályktun Búnaðarþings, sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing ályktar að kjósa þriggja manna milliþinganefnd, sem falið verði að endurskoða jarðræktarlög nr. 22 24. apríl 1965 og 16. apríl 1968. Skal álit nefndarinnar liggja fyrir á næsta Búnaðarþingi.

Þingið leggur áherzlu á, að sérstaklega verði tekin til athugunar eftirfarandi atriði: 1. Viðbótarframlag það, sem greitt hefur verið á nýrækt á býli innan við 25 ha., verði nú greitt á alla ræktun. 2. Framlög vegna grænfóðurræktar, áburðarhúsa og votheysgeymslna verði hækkuð frá því sem nú er. 3. Hreinsun framræsluskurða njóti framlags. 4. Kölkun lands, verkfærageymslur og vatnsleiðslur á sveitabýli njóti framlags. 5. Ákvæði um félagsræktun verði tekin inn í lögin. 6. Framlengt verði tímabil ákvæðanna um aukaframlag á súgþurrkun. 7. Útboðsskylda á þeim svæðum, þar sem ræktunarsambönd annast sjálf framræslu, verði afnumin.“

Í nefndina voru kjörnir eftirtaldir menn: Teitur Björnsson, bóndi á Brún, sem valinn var formaður, Egill Jónsson, ráðunautur á Seljavöllum, og Jón Egilsson, bóndi á Selalæk.

Nefnd þessi hóf störf 19. nóv. og starfaði til 26. febr. s. l. Hún hafði samband við mig, og að minni ósk starfaði Jónas Jónsson, fulltrúi í landbrn., með nefndinni. Árangurinn af starfi þessarar nefndar er það frv. til jarðræktarlaga, sem hér liggur nú fyrir á þskj. 545, en frá því var gengið á síðasta Búnaðarþingi, og er frv. hér flutt að mestu óbreytt, frá því að þingið gekk frá því, nema með einhverjum smávegis orðalagsbreytingum.

Jarðræktarlög voru fyrst sett árið 1923. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það var hinn merkilegasti lagabálkur og einn af þeim þáttum í landbúnaðarlöggjöf, sem hefur markað tímamót í landbúnaði. Með þeirri löggjöf var mörkuð framkvæmda- og framfarastefna í ræktunarmálum landsins, sem hefur verið til mikillar farsældar, bæði fyrir landbúnaðinn og þjóðina alla. Það þarf heldur ekki að orðlengja það, að fóðuröflun er sú kjölfesta, sem íslenzkur bóndi verður að hyggja á og íslenzkur landbúnaður hvílir á.

Undanfarandi harðindaár hefur það komið í ljós, að þrátt fyrir mikla ræktun síðustu áratuga þarf betur að gera, ef duga skal, og það kom einnig í ljós, að það þarf að gefa betri gaum að því, að ræktunin sé vel af hendi leyst. Það sýndu okkur þessi harðinda- og kalár.

Meginsjónarmið með þeim breytingum, sem nú er lagt til að gerðar verði á jarðræktarlögum og framlagi til ræktunarmála, miða að því að stuðla að öruggari ræktun og fóðurframleiðslu, bættri heyverkun og nýtingu fóðursins, betri nýtingu beitilandsins og nýtingu áburðar.

Nokkrar formbreytingar eru hér einnig gerðar. Miða þær að því að gera framkvæmd þessara mála einfaldari í sniðum, tryggja, að það fjármagn, sem til þessara mála er varið, nýtist sem bezt. Ákvæði um framlagshæfni jarðabóta eru gerð einfaldari og skýrari, þannig að síður orki tvímælis, hvaða framkvæmdir njóta framlags og hvernig. Helztu skipulagsbreytingar og nýmæli eru þau, sem nú skal greina.

Eins og áður er fram tekið, er mjög farið að óskum Búnaðarfélags Íslands og fylgt samþykkt Búnaðarþings. Búnaðarfélag Íslands hefur alltaf frá upphafi átt stóran þátt í mótun stefnunnar í ræktunarmálum og ásamt Búnaðarþingi jafnan staðið að endurskoðun jarðræktarlaganna. Stefnumótun þessara aðila hefur reynzt landbúnaðinum og þjóðinni farsæl og raunsæ, og kröfum fulltrúasamkomu bændanna og Búnaðarþings hefur jafnan verið í hóf stillt, og svo er einnig nú.

Af skipulagsbreytingum vil ég nefna þetta: l) Allar greiðslur úr ríkissjóði til stuðnings við jarðræktarframkvæmdir verða nú settar undir jarðræktarlög. Um alllangt skeið hefur Landnám ríkisins annazt greiðslur á jarðræktarframlögum til vissra framkvæmda. Um upphafi var þessum styrkjum ætlað sérstakt hlutverk, eins og það að ýta sérstaklega undir ræktun, þar sem tún voru minnst fyrir. Þetta hefur hins vegar þróazt meir og meir yfir til þess að vera almennir jarðræktarstyrkir, og með síðustu breytingum á landnámslögunum var þetta gert jafnt til allra. Því var þar um hreinan tvíverknað að ræða, og fyrirhugaðar breytingar eru þess vegna miðaðar við það, að þetta verk verði nú unnið á einum stað samkv. jarðræktarlögum.

Með þessu frv., ef að lögum verður, eru úr gildi felld þau ákvæði, er Vélasjóður og Vélanefnd ríkisins hafa starfað eftir. Síðasta áratug hefur þróunin orðið sú, að verkefni Vélasjóðs hafa dregizt mjög saman. Einstaklingar og ræktunarsambönd virðast nú fullkomlega sinna þessu mikilvæga hlutverki að sjá bændum fyrir nauðsynlegum vélakosti til framræslu og stærri ræktunarframkvæmda. Nú á þessu sumri er rekstri á vegum Vélasjóðs hætt — eða á næsta sumri. Þessar stofnanir, Vélasjóður og Vélanefnd ríkisins, eiga tvímælalaust mikinn þátt í þeim framförum, sem orðið hafa í ræktunarmálum, stóðu undir vélvæðingu mikilvægra þátta í landbúnaðinum. 30 ára starfrækslu skurðgrafa Vélasjóðs er nú lokið. Þeim aðilum, sem að þessu hafa staðið, ber að færa þakkir fyrir mikil og vel unnin brautryðjendastörf. Lagt er til með þessu frv., að hluta af andvirði eigna Vélasjóðs verði varið til að leggja í sjóð, sem yrði í vörzlu Búnaðarfélags Íslands og varið yrði til að styrkja könnun á álitlegum tækninýjungum, sem þætti nauðsynlegt að reyna hér.

Nýmæli þau, sem í þessu frv. felast, eru í fyrsta lagi, að framlög vegna vatnsveitna til heimilis- og búsþarfa eru tekin upp. Þar með er leiðrétt misræmi það, sem ríkt hefur, að einstakir sveitabæir hafa lítils notið í sambandi við vatnsveituframkvæmdir. Þess ber að geta, að samkv. lögum um vatnsveitur varð að vera ákveðinn fjöldi notenda til þess að mynda félög að vatnsveitum. Hins vegar hefur það gerzt á síðari árum, að fjvn. hefur á fjárlögum veitt einstaklingum styrk til að koma til sín neyzluvatni, þegar um sérstaklega fjárfreka og erfiða framkvæmd hefur verið að ræða. Það er því nauðsyn, sem hér er tekin upp, að taka þetta mál til skipulegrar ákvörðunar og framkvæmda eins og gert verður með þessari lagabreytingu.

Búnaðarþing og Búnaðarfélag Íslands hafa barizt fyrir þessu máli og það reyndi að fá þessa breytingu á jarðræktarlögum á árunum 1964–1965, en þá náði hún ekki fram að ganga. Á núgildandi fjárlögum er varið 17.6 millj. kr. til vatnsveitna og má gera ráð fyrir því, að eitthvað af því fé nýtist í sambandi við ákvæði þessa frv., eða síðari fjárveitingar mundu að vissu leyti sparast við það samkv. þeim lið fjárlaga, sem snýr að vatnsveitunum nú.

Annað nýmæli, sem tekið er upp með þessu lagafrv., er framlag til hagaræktar, sem er þáttur í eflingu landgræðslu og bættra landsnytja. Þar sem afréttir kunna að vera fullsetnar eða ofsetnar, er mikilvægt að bæta heimahagana. Fjárstuðningurinn er því bein hvatning til landgræðslu á örfokalöndum í byggð. Lagt er til, að 3000 kr. framlag á ha. sé bundið því skilyrði, að farið hafi fram varanlegar gróðurbætur á öllu landinu.

Þriðja atriðið er kölkun túna, framlag, sem nemur 50% af verði áburðarkalks og samanlögðum flutningskostnaði. Það er bundið þeim skilyrðum, að rannsóknir hafi að dómi ráðunautanna sýnt, að kölkunar sé þörf. Ekki er enn búið að sýna fram á, að kölkun sé hagkvæm eða nauðsynleg aðgerð, nema á fáum stöðum. Búast má við því, að í framtíðinni þurfi meira á þessum aðgerðum til jarðvegsbóta að halda. Slíkur stuðningur við kölkun þykir sjálfsagður og tíðkast víða erlendis.

4. atriðið er félagsræktun. Aukinn stuðningur við félagsræktun er allt að 30% álag á venjulegt framlag, þar sem harðbýlt er og ræktunarskilyrði erfið að dómi Búnaðarfélags Íslands. Víða í slíkum byggðarlögum hefur verið gripið til slíkrar félagsræktunar og hún orðið mikil lyftistöng. Mætti nefna þar um nokkur dæmi, en óþarft er að nefna nema Skógasand og melana í Leirársveit, og víðar má sjá slíka félagsræktun, sem bæði er mikið augnayndi og hefur reynzt happadrjúg framkvæmd í ræktunarmálum landbúnaðarins.

5. atriðið, sem tekið er upp sem nýmæli hér, er framlag til verkfærageymslna, sem er 200 kr. á m2.

6. atriðið er stuðningur við áburðargeymslur og votheyshlöður, sem er nokkuð aukinn.

Þá er með þessu frv. lagt til, að framlag til súgþurrkunar verði gerður fastur liður í jarðræktarlögum, en eins og kunnugt er hefur verið um þetta sérstakur samningur og ákvæði í fjárlögum um aukaframlag vegna súgþurrkunar.

Önnur atriði, sem ég vil nefna í sambandi við þetta frv., eru, að hætt er nú alveg við að greiða framlög til nýræktar eftir túnstærð, svo að 25 ha. markið er fellt niður. Þetta var að nokkru búið að gera áður með breytingu á landnámslögunum, sem gerð var í fyrra, eins og ég drap á áðan. Ákvæði um ríkisframlög eru að ýmsu gerð einfaldari og skýrari, þannig að síður geti orkað tvímælis, hvaða framkvæmdir séu framlagshæfar eða hvernig eigi að taka út framkvæmdir. Þannig er ræktunarlandi aðeins skipt í þurrlendi og mýrlendi, í stað þriggja flokka áður. Niður er felldur styrkur á minna en sex strengja girðingu, en heimilt er að greiða framlag til allra girðinga í heimahögum, en það gat mjög orkað tvímælis, hvaða girðingar ættu að flokkast undir túngirðingar í gildandi lögum.

Ákvæði um útboðsskyldu á framræslu er nokkuð breytt. Ekki er skylda að bjóða út framræslu hjá búnaðarsamböndum, sem sjálf annast skurðgröft, enda ákveði Búnaðarfélag Íslands þeim taxta, áður en verkið er hafið, en eftir að útboð hafa farið fram. Lagt er til að ríkið greiði allt að 65% af ferðakostnaði héraðsráðunauta eftir ákvörðun landbrn., að fengnu mati frá Búnaðarfélagi Íslands.

Áætlaður kostnaðarauki við þessa lagabreytingu á næsta ári eru 15–17 millj. kr. Ég hef í ræðu minni hér að framan gert grein fyrir þeim breytingum, sem gera á á jarðræktarlögunum með þessu frv., og legg til herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.